Undirbúum starfslokin með skipulögðum hætti


Hvort sem markmiðið er að koma betur út fjárhagslega eða hafa aðgengi að fjármagni þegar betur hentar er alltaf góð hugmynd að nálgast fjármálahlið starfsloka með skipulögðum og faglegum hætti.

Við söfnum öllum nauðsynlegum upplýsingum með góðum fyrirvara og gefum okkur tíma til að setjast yfir það helsta svo við getum tekið vel upplýstar ákvarðanir.

Hér höfum við tekið saman verkefnalista sem reynist vonandi gagnlegur við undirbúninginn. Listinn var uppfærður 15. ágúst 2023 og byggir á þeim reglum sem voru í gildi og þeim upplýsingum sem fyrir lágu á þeim tíma.

Ferlið

  Áður en þú hefst handa

  Taktu frá nægan tíma

  Þetta verður tímafrekt og svo allrar sanngirni sé gætt sennilega ekki það skemmtilegasta sem þú kemur til með að gera, en tímakaupið verður þó gott. Taktu því endilega frá góðan tíma í undirbúningsvinnuna, jafnvel nokkur kvöld eða frídag, ef mögulegt er.

  Það getur jafnvel verið skynsamlegt að skipta tímanum upp eftir viðfangsefnum; eitt kvöld fyrir lífeyrissjóðinn, annað fyrir séreignina, þriðja fyrir TR og svo framvegis.

  Reyndu að byrja snemma

  Það er aldrei of snemmt að huga að fjármálum við starfslok. Því fyrr sem þú hefst handa, þeim mun líklegra er að hægt sé að gera ráðstafanir sem mögulega bæta stöðuna. Sjá nánar í grein: Hvernig langar þig að hafa það?

  Það getur til dæmis gefið góða raun að setjast vandlega yfir fjármálin um sextugt og svo aftur þegar eitt eða tvö ár eru í starfslok.

  Hafðu samband

  Ekki hika við að ráðfæra þig við sérfræðinga og sækja upplýsingar til ráðgjafa. Stundum þarftu að bíða eftir samtali við helsta sérfræðing á viðkomandi stað en með góðum fyrirvara ætti það nú ekki að vera mikið vandamál.

  Í góðu samtali við færan ráðgjafa kemur eflaust eitthvað upp sem þér hafði ekki einu sinni dottið hug að spyrja og bjóða lífeyrissjóðir, bankar, TR og fleiri upp á endurgjaldslausa ráðgjöf.

  Hjá Íslandsbanka getur þú til dæmis bókað þér símtal frá lífeyrisráðgjafa hér á vefnum.

  Skriflegar upplýsingar munu reynast vel

  Þú munt væntanlega þurfa að leita á nokkra eða jafnvel marga staði áður en þú sest að lokum niður til að taka ákvarðanir um heppilegt fyrirkomulag úttekta og umsókna. Því er mikilvægt að tryggja að allar upplýsingar séu aðgengilegar á skriflegu formi. Sæktu yfirlit á vefinn og óskaðu eftir upplýsingum eða samantektum eftir fundi í tölvupósti.

  Fylgstu reglulega með

  Hafðu í huga að reglur, valkostir og fleira í tengslum við úttekt lífeyris, greiðslur TR og tengd mál geta tekið mjög örum breytingum. Á starfslokavef Íslandsbanka og fræðslufundum okkar eru helstu upplýsingar uppfærðar þegar breytingar eru gerðar. Ekki byggja ákvarðanir á gömlum upplýsingum.

Starfslokavefur Íslandsbanka

Kynntu þér fjármál við starfslok í heild sinni á ítarlegum starfslokavef

  Fjármál við starfslok

  Fræðsluvefur Íslandsbanka

  Greinar, myndbönd og gagnleg fræðsla um fjármál

   Fræðsluvefur
    Lífeyrissjóðurinn

    Fáðu yfirsýn yfir réttindi þín

    Byrjaðu á að líta á yfirlitið þitt í lífeyrisgáttinni. Hana finnur þú á vef þíns lífeyrissjóðs. Kynntu þér hvernig áfallalífeyrisréttindum (til dæmis makalífeyri) er háttað, hvenær þú mátt hefja lífeyristöku og hvaða fjárhæð þú mátt eiga von á. Hafðu í kjölfarið samband við lífeyrissjóðina til að kanna hvort eitthvað fleira leynist í þínum réttindum og með hverju er mælt.

    Getur hentað að sækja hálfan lífeyri?

    Vissir þú að í mörgum tilvikum er heimilt að sækja hálfar lífeyrisgreiðslur til lífeyrissjóða og hálfar greiðslur frá Tryggingastofnun? Þess er krafist að umsækjandi sé á vinnumarkaði en ekki í meira en hálfu starfshlutfalli. Nánar um hálfan lífeyri.

    Skipting lífeyris

    Ef þú átt maka er gott að vita af möguleikanum á að deila ýmist uppsöfnuðum réttindum, inngreiðslum eða útgreiðslum. Skipting lífeyris getur til dæmis aukið öryggi fólks með slæm lífeyrisréttindi.

    Hvenær skal hefja úttekt?

    Þetta er sú spurning sem sennilega er erfiðast að svara og fer svarið eftir aðstæðum hvers og eins. Hafðu í huga að lífið er ekki keppni um að safna sem mestu fé. Lífeyrir er til að njóta hans og dýrmætt getur reynst að hafa aðgengi að lausafé á hentugum tíma. Því skaltu taka ákvörðun um heppilegan úttektartíma lífeyris út frá þinni fjárhagslegu stöðu, atvinnuþátttöku og þörf fyrir lausafé, svo eitthvað sé nefnt.

    Viðbótarlífeyrissparnaður

    Hugsaðu vel um séreignina þína

    Passaðu upp á að greiða í viðbótarlífeyrissparnað (og fá mótframlag) svo lengi sem þú ert á vinnumarkaði og tryggðu að verið sé að geyma sparnaðinn vel og vandlega. Viðbótarlífeyrissparnaður hefur ekki áhrif á hefðbundnar ellilífeyrisgreiðslur TR, er undanþegin fjármagnstekjuskatti, erfist að fullu og er ekki aðfararhæf við gjaldþrot. Því kjósa mörg að leyfa henni að vera þar til þörf er á úttekt. Eigir þú aðra tegund séreignar, svo sem tilgreinda séreign, bundna séreign eða séreignarhluta lágmarksiðgjalds skaltu hafa í huga að ef þú hefur sótt um greiðslur ellilífeyris frá TR eftir áramótin 2022-2023 mun slíkrar séreignar hennar skerða greiðslur TR.

    Sjá nánar í grein: Svona skerðir tilgreind séreign greiðslur TR

    Ekki gleyma skattinum

    Séreignin fór óskattlögð inn í kerfið og er því skattlögð við úttekt. Greidd er staðgreiðsla af úttekt og bætist hún við aðrar staðgreiðsluskyldar tekjur þegar skattþrep eru ákvörðuð. Séu háar fjárhæðir teknar út í einu er því ekki ólíklegt að við færumst upp um skattþrep.

    Skatthlutföll árið 2023 eru á þá leið:

    • 31,45% af tekjum 0 - 409.986 kr. (þar af 16,78% tekjuskattur)
    • 37,95% af tekjum 409.987 - 1.151.012 kr. (þar af 23,28% tekjuskattur)
    • 46,25% af tekjum yfir 1.151.012 kr. (þar af 31,58% tekjuskattur)

    Hvenær og hvernig er best að sækja séreignina?

    Þegar um er að ræða íslenskan viðbótarlífeyrissparnað er stutta svarið „þú ræður“. Eftir sextugt er úttekt frjáls og fyrirkomulag hennar sömuleiðis. Sum kjósa að taka fasta fjárhæð út á mánuði, önnur að taka allt út í einu (og muna þá að líta til skattalegra áhrifa) og í mörgum tilvikum hentar að sækja það sem hentar, þegar við þurfum á því að halda. Ekkert mál er að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi.

    Varðandi aðra séreign en viðbótarlífeyri er hvatt til úttektar fyrir þann tíma sem sótt er um greiðslur hjá TR, vegna skerðinga stofnunarinnar.

    Nánari upplýsingar á starfslokavef Íslandsbanka: Að taka út séreignarsparnað

    Tryggingastofnun

    Sæktu áreiðanlegar upplýsingar

    Mikið er um misskilning varðandi greiðslur TR, til dæmis á samfélagsmiðlum og kaffistofum landsins. Ein algengasta ástæða misskilnings er að reglum um greiðslur stofnunarinnar er breytt mjög ört og því lifa í samtölum milli fólks úreldar upplýsingar á borð við að skerðingar séu króna á móti krónu og að viðbótarlífeyrir skerði greiðslur, sem er ekki rétt. Það getur verið kostnaðarsamt að byggja ákvarðanir á röngum upplýsingum.

    Á starfslokavef Íslandsbanka má alltaf finna nýuppfærðar upplýsingar, sem og á góðum og ítarlegum vef TR.

    Kynntu þér reiknivél lífeyris

    Á vef TR má finna afar gagnlega reiknivél sem sýnir okkur á hverju við megum eiga von frá stofnuninni. Þangað færir þú inn þínar forsendur og aðstæður og sérð með skýrum hætti hvort og þá hvaða greiðslur þér geta borist á mánuði. Þar sem greiðslur TR eru tekjutengdar er mikilvægt að þekkja tengsl tekna og greiðslna stofnunarinnar. Í reiknivélinni má sömuleiðis sjá áhrif þess að taka hálfan lífeyri, flýta lífeyristöku eða seinka og fleira.

    Hvenær hentar að sækja um?

    Þú getur sótt um ellilífeyrisgreiðslur TR hvenær sem er frá 65 ára aldri til áttræðs. Vegna tekjutenginga er líklegt að það borgi sig ekki fyrir þig að sækja um fyrr en þú hefur hætt fullri vinnu. Fjárhæðir réttinda TR hækka eða lækka eftir því á hvaða aldri þú sækir um. Það þýðir til dæmis að ef þú ætlar að vinna fulla vinnu til 68 ára aldurs og sækir þá um hjá TR verða réttindi þín 6% hærri en hefðir þú sótt um 67 ára.

    Grein: Hvenær er best að sækja um hjá TR?

   Það mætti lengi halda áfram en að ofan ættir þú að finna það helsta til að ýta starfslokaundirbúningnum úr vör.

   Endilega hafðu þó eftirfarandi í huga:

   • Fjármálin þín á lífeyrisaldri eru mikilvægari en svo að þú hafir efni á að sækja þér upplýsingar til þeirra sem ekki endilega hafa forsendur til að halda sér upplýstum um hvern krók og kima kerfisins. Vertu viss um að geta tekið upplýstar ákvarðanir.
   • Ekki hika við að biðja um aðstoð hjá stofnunum og fyrirtækjum. Þú ert ekki að trufla. Ef þú færð ekki nógu góða eða skýra aðstoð skaltu biðja um að fá að tala við annan starfsmann. Mundu eftir mikilvægi þess að fá skrifleg svör.
   • Kynntu þér breytingar á lífeyriskerfunum á hverju ári. Við í Íslandsbanka uppfærum starfslokavefinn okkar og bjóðum reglulega upp á fræðslufundi, sem og lífeyrissjóðirnir og Tryggingastofnun.