Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvenær er best að sækja um hjá TR?

Algengt er að sótt sé um greiðslur við 67 ára aldur, en það hentar alls ekki öllum.


Greinin var uppfærð í september 2022.

Við 65 ára aldur er hægt að sækja um greiðslur ellilífeyris hjá Tryggingastofnun (TR). 67 er viðmiðunaraldurinn en hægt er að flýta töku fram til 65 ára eða seinka allt til áttræðs. Sé töku flýtt lækka varanleg réttindi þar sem við komandi fær greitt lengur og sé seinkað hækka þau. Hversu mikið þau hækka eða lækka reiknar TR með svipuðum hætti og lífeyrissjóðirnir.

Algengt er að sótt sé um greiðslur við 67 ára aldur, en það hentar alls ekki öllum. Þar sem greiðslur TR eru tekjutengdar getur verið að skerðingar verði mjög miklar ætli umsækjandi að vinna samhliða því sem hann þiggur greiðslur frá stofnuninni. Auk þess getur verið hagkvæmt að geyma umsóknina þar til séreignarsparnaður sem myndast hefur verið greiðslu skylduiðgjalds (svo sem tilgreind séreign) hefur verið tekin út.

Nú er einnig heimilt að sækja um hálfan lífeyri hjá TR og lífeyrissjóðum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Frítekjumark launatekna hjá TR er 200.000 kr. á mánuði. Tekjur umfram það og 25.000 kr. almennt frítekjumark skerðast um 45% (lífeyrir) og 11,9% (heimilisuppbót) fyrir skatt hjá þeim sem búa einir og 45% hjá sambúðarfólki. Þegar heildartekjur umfram úttekt séreignar og 200.000 kr. frítekjumark launa ná um 650 þ.kr. á mánuði hafa allar greiðslur frá TR fallið niður. Þá er betur heima setið en af stað farið, þar sem engar greiðslur fengjust með umsókn. Ef beðið er betri tíma aukast varanleg réttindi í hverjum mánuði.

Dæmi:

67 ára aðili í sambúð fær 700.000 kr. laun á mánuði en ætlar að vinna til 68 ára aldurs. Sæki hann um hjá TR núna má hann draga 200.000 kr. frítekjumark launa frá tekjunum auk 25.000 kr. almenns frítekjumarks. 475.000 kr. koma því til með að skerða greiðslur.

Kjósi hann hins vegar að fresta umsókninni um eitt ár aukast réttindi hans og þegar hann loks sækir um fær hann hærri greiðslur en ella, varanlega.

Almenna reglan er því að þeir sem ætla að vinna fram yfir 67 ára aldur eigi að íhuga vandlega hvort það borgi sig að sækja um eða seinka tökunni til starfsloka. Hver og einn getur kannað hvaða áhrif launagreiðslur koma til með að hafa á greiðslur TR með því að fikta í reiknivél lífeyris á vef stofnunarinnar.

Íslandsbanki veitir ráð og leiðbeiningar varðandi starfslok og sparnað á lífeyrisaldri. Þú getur pantað ráðgjöf eða spjallað við okkur í síma 440-4900.

Fyrir­lestur um fjármál við starfslok


Björn Berg, deildarstjóri Greiningar og fræðslu, ræðir um það sem mikilvægast er að hafa í huga í aðdraganda starfsloka í ársbyrjun 2021.