Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hálfur lífeyrir

Getur hentað þér að sækja um hálfan lífeyri hjá TR og lífeyrissjóðum áður en sótt er um fullar greiðslur?


Greinin hefur verið uppfærð vegna breytinga sem gerðar voru á reglum um hálfan lífeyri. Athugið að upplýsingar greinarinnar miða við reglurnar eins og þær voru 2 febrúar 2023 og gætu hafa breyst síðan.

Skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar (TR) eru með eldfimari umræðuefnum. Sitt sýnist hverjum um hlutverk stofnunarinnar og hvað teljist sanngjarnt þegar kemur að samspili tekna og greiðslna en lítið er þó rætt um hálfan lífeyri, nýjung frá því um áramótin 2017-2018.

Greiðslur lífeyris TR skerðast almennt vegna tekna. Hlutfallið er 45% hjá sambúðarfólki og skerðast þeir sem búa einir aukalega um 11,9% vegna heimilisuppbótar. Á þessu eru þó undantekningar. Almennt frítekjumark er 25.000 kr. á mánuði og að auki er sérstakt mánaðarlegt 200.000 kr. frítekjumark vegna launatekna eða 2,4 milljónir króna á ári. Þá hefur séreignarsparnaður engin áhrif á greiðslur ellilífeyris stofnunarinnar. Þetta á við um hefðbundna töku greiðslna frá stofnuninni en aðrar reglur gilda þó sé sótt um greiðslur hálfs lífeyris.

Með hálfum lífeyri er átt við að sótt sé um töku hálfra réttinda hjá lífeyrissjóðum (hinn helmingurinn bíður þá fullrar töku) og sömuleiðis töku hálfra réttinda hjá TR. Eins og áður segir er hálf taka lífeyris hjá TR frábrugðin hefðbundinni fullri töku og munar þar mestu um að almennt frítekjumark nemur 325.000 krónum á mánuði og auk þess 200.000 krónum vegna launatekna. Tekjur umfram frítekjumarkið skerða greiðslur stofnunarinnar um 45%.

Ekki geta allir sótt um

Nokkur skilyrði eru fyrir töku hálfs lífeyris:

  • Umsækjandi þarf að vera orðinn 65 ára
  • Umsækjandi þarf að vera á vinnumarkaði en ekki í meira en hálfu starfshlutfalli
  • Sækja þarf um hjá Tryggingastofnun og öllum lífeyrissjóðum sem greitt hefur verið í

Taka hálfs lífeyris getur hentað ýmsum, t.d. þeim sem hyggjast vinna fram yfir 65 ára aldur. Áður en haldið er af stað er þó mikilvægt að kanna hvort lífeyrissjóðirnir séu tilbúnir til þess að greiða hálfan lífeyri og hvort taka hans henti þér og þínum aðstæðum. Góðar og vandaðar upplýsingar og reiknivélar um málefnið má nálgast á vef Tryggingastofnunar.

Íslandsbanki veitir ráð og leiðbeiningar varðandi starfslok og sparnað á lífeyrisaldri. Þú getur pantað ráðgjöf eða spjallað við okkur í síma 440-4900.

Fyrirlestur um fjármál við starfslok


Björn Berg, deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka, ræðir um það sem mikilvægast er að hafa í huga í aðdraganda starfsloka.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst