Sem fyrr er mikilvægt að vera á varðbergi þegar smáskilaboð eða tölvupóstar virðast berast frá fyrirtækjum. Að undanförnu hefur nokkuð borið á sms skilaboðum sem látin eru líta út fyrir að send séu af póstflutningsfyrirtækjum. Viðtakandi er sem dæmi beðinn um að uppfæra upplýsingar með því að smella á hlekk.
Hér til hliðar má sjá dæmi um SMS svik í nafni DHL þar sem símanúmerið, upphæðin og vefslóðin segja manni að um svik sé að ræða.
Nefna má annað dæmi í nafni DHL sem hljóðar þannig:
„Pakkinn pinn bior eftir afhendingu. Vinsamlega staofestu greiosluna (1,99 EUR) undir eftirfarandi hlekk:“
Viðkomandi hlekkur vísar svo á svikasíðu.
Hafðu í huga að ólíklegt er að fyrirtæki óski eftir greiðsluupplýsingum með smáskilaboðum og hafðu ætíð varann á, meðal annars með því að kanna vel nafn eða númer sendanda ef skilaboðin berast í gegnum smáskilaboð.