Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Frítekjumark launa hjá TR

Í ársbyrjun 2018 var að nýju tekið upp sérstakt frítekjumark launa hjá Tryggingastofnun.


Greinin hefur verið uppfærð vegna þeirra breytinga sem gerðar voru í upphafi árs 2020.

Við allsherjar kerfisbreytingu á greiðslum ellilífeyris Tryggingastofnunar (TR) í ársbyrjun 2017 féll sérstakt frítekjumark atvinnutekna burt. Fram að því höfðu launatekjur að 109.600 kr. á mánuði ekki haft áhrif á bótaflokkana tekjutryggingu og heimilisuppbót.

Í ársbyrjun 2018 var slíku frítekjumarki þó bætt við að nýju, til viðbótar við hið almenna frítekjumark sem er 25.000 kr. á mánuði. Nú hafa 100.000 kr. launatekjur á mánuði eða 1.200.000 kr. á ári ekki áhrif á greiðslur til ellilífeyrisþega. Sem fyrr hefur úttekt séreignar engin áhrif á greiðslur stofnunarinnar.

Tekjur umfram frítekjumörkin skerða greiðslur, um 45% hjá sambúðarfólki og 56,9% hjá þeim sem búa einir.

Gott er að líta til árlega frítekjumarksins sé gripið í tilfallandi störf. Sem dæmi fær sá sem vinnur 3 mánuði á ári og fær 400.000 kr. mánaðarlaun 1.200.000 kr. launatekjur í heildina það árið og verður ekki fyrir skerðingum.

Frá upphafi árs 2020 hefur Tryggingastofnun auk þess reiknað áhrif launa á greiðslur miðað við launatekjur hvers mánaðar fyrir sig. Sú aðferð sem betur kemur út fyrir lífeyrisþegann verður látin gilda.

Hver verður staðan hjá þér?

Langbesta leiðin til að átta sig á áhrifum tekna er að nota reiknivél lífeyris á vef TR. Þar getur hver og einn fært inn sínar forsendur og séð hvernig niðurstöðurnar breytast og greiðslur skerðast eða aukast þegar breytingar verða á tekjum.

Íslandsbanki veitir ráð og leiðbeiningar varðandi starfslok og sparnað á lífeyrisaldri. Þú getur pantað ráðgjöf eða spjallað við okkur í síma 440-4900.

Fyrir­lestur um fjármál við starfslok


Björn Berg, deildarstjóri Greiningar og fræðslu,, ræðir um það sem mikilvægast er að hafa í huga í aðdraganda starfsloka.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst