Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Svona virka skerðingar TR

Hvaða áhrif hefur að vinna á lífeyrisaldri? Hvernig lítur Tryggingastofnun á þær tekjur sem við höfum og hverngi nákvæmlega er skert?


Greinin hefur verið uppfærð vegna breytinga á greiðslum Tryggingastofnunar í júlí 2023.

Greiðslur ellilífeyris Tryggingastofnunar (TR) eru tekjutengdar. Eftir því sem tekjur eftirlaunaþega eru hærri, því minna greiðir ríkið. Gott er að muna að einungis er skert vegna tekna, en eignir hafa engin áhrif.

Ákveðnar undanteknar eru þó á skerðingum:

  • Séreign skerðir ekki.
    Úttekt séreignarsparnaðar og ávöxtun hans hefur engin áhrif á ellilífeyrisgreiðslur TR. Það er því rangt, sem oft er haldið fram, að vegna skerðinga borgi sig að taka allan séreignarsparnað út áður en sótt er um greiðslur hjá TR.
    Grein: Þú þarft ekki að taka út séreignina áður en þú hættir að vinna
  • Frítekjumark launa. 200.000 kr. frítekjumark er á launatekjum í hverjum mánuði eða 2.400.000 kr. á ári, eftir því sem hentar betur. Undir þeim mörkum skerða laun ekki greiðslur. Gott er að líta til árlega frítekjumarksins sé gripið í tilfallandi störf. Sem dæmi fær sá sem vinnur 6 mánuði á ári og fær 400.000 kr. mánaðarlaun 2.400.000 kr. launatekjur í heildina það árið og verður ekki fyrir skerðingum. Frá ársbyrjun 2020 hefur Tryggingastofnun bæði reiknað launatekjur til skerðingar á ársgrundvelli og í hverjum mánuði fyrir sig. Sú aðferð sem betur kemur út fyrir lífeyrisþegar verður látin gilda.
    Grein: Frítekjumark launa hjá TR
  • Almennt frítekjumark.
    Auk frítekjumarks launa er almennt frítekjumark 25.000 kr. á mánuði, eða 300.000 kr. á ári. Aðili sem er með 200.000 kr. lífeyristekjur á mánuði og 200.000 kr. launatekjur að auki er þannig með 400.000 kr. tekjur en þar sem samanlögð frítekjumörkin eru 225.000 kr. munu aðeins 175.000 hafa áhrif til skerðingar.
  • Hálfur lífeyrir skerðist minna
    Eftir 65 ára aldur má sækja um hálfan lífeyri hjá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum. Krafa er gerð um að umsækjandi sé á vinnumarkaði en ekki meira en hálfu starfshlutfalli. Skerðingar TR vegna greiðslu hálfs lífeyris eru minni en þegar um fulla lífeyristöku er að ræða.
    Grein: Hálfur lífeyrir

Greiðslur og skerðingar

Eftir einföldun kerfisins um áramótin 2016-2017 sitja eftir tvær tegundir greiðslna:

  • Ellilífeyrir. Ellilífeyrir getur að hámarki verið 315.525 kr. á mánuði frá júlí 2023, hafi lífeyrisþegi sótt um greiðslur frá TR 67 ára gamall. Tekjur umfram frítekjumörk skerða greiðslurnar um 45%. Hafa þarf í huga að greiðslur TR eru skattskyldar. Eftir skatta eru greiðslur og skerðingar því minni og eru skerðingar eftir skatta nær 30%. Greiðslur lækka með hækkandi tekjum þar til tekjur umfram frítekjumark atvinnutekna eru orðnar 726.167 kr. á mánuði. Þá eru greiðslurnar að fullu skertar.
  • Heimilisuppbót.
    Þau sem búa ein fá aukalega greidda svokallaða heimilisuppbót. Heimilisuppbótin getur mest numið 79.732 kr. og er skerðingarhlutfall 11,9%.
  • Hálfur lífeyrir.
    Hálfur lífeyrir getur að hámarki verið 157.763 kr. á mánuði og skerðingarhlutfall 45%.

Fyrirlestur um fjármál við starfslok


Hér getur þú horft á upptöku frá fræðslufundi um fjármál við starfslok frá febrúar 2021. Athugið að frá þeim tíma sem myndbandið var tekið upp hafa fjárhæðir greiðslna Tryggingastofnunar og frítekjumark atvinnutekna meðal annars breyst.

Þú getur kynnt þér meira fræðsluefni á YouTube rásinni okkar

Hver verður staðan hjá þér?

Langbesta leiðin til að átta sig á áhrifum tekna er að nota reiknivél lífeyris á vef TR. Þar getur hver og einn fært inn sínar forsendur og séð hvernig niðurstöðurnar breytast og greiðslur skerðast eða aukast þegar breytingar verða á tekjum.

 Íslandsbanki veitir ráð og leiðbeiningar varðandi starfslok og sparnað á lífeyrisaldri. Þú getur pantað ráðgjöf eða spjallað við okkur í síma 440-4900.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka


Senda tölvupóst