Þú þarft ekki að taka alla séreignina út áður en þú hættir að vinna

Ein útbreiddasta mýtan varðandi fjármál við starfslok er sú að vegna skerðinga sé nauðsynlegt að taka allan séreignarsparnað út, áður en sótt er um greiðslur frá Tryggingastofnun.


Greinin var uppfærð í september 2022

Ástæða þessa misskilnings er sú að fyrir nokkrum árum skertu allar greiðslur úr séreign greiðslur frá Tryggingastofnun. En þetta á ekki lengur við. Raunar er tæpur áratugur frá því að tenging ellilífeyrisgreiðslna TR og séreignar var afnumin. Þessi breyting virðist því miður ekki hafa fengið nægilega kynningu. Því hafa margir tekið séreign sína út að ástæðulausu áður en þeir hætta að vinna, með tilheyrandi kostnaði.

Í dag skerðir úttekt séreignar ekki ellilífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar, en breyting verður þar á frá áramótunum 2022-2023, þegar sú séreign sem stofnast hefur verið greiðslu skylduiðgjalds, svo sem tilgreind séreign, séreignarhluti lágmarksiðgjalds og bundin séreign, mun skerða greiðslur TR við úttekt. Áfram mun úttekt og ávöxtun viðbótarlífeyris þó ekki hafa nein áhrif. Sjá betur í samantekt Almenna lífeyrissjóðsins.

Tvöfalt áfall

Af ávöxtun séreignarsparnaðar þarf ekki að greiða fjármagnstekjuskatt og úttekt viðbótarlífeyris skerðir ekki greiðslur Tryggingastofnunar.

Þó má benda á að hefðbundin úttekt séreignar er skattskyld, þ.e.a.s. greiddur er tekjuskattur við úttekt. Auk þess er töluverður munur á skattþrepum. Þetta þýðir að þeir sem hafa ranglega fengið þær upplýsingar að nauðsynlegt sé að drífa í úttekt fyrir 67 ára aldur geta orðið fyrir tvöföldu áfalli.

Áfall 1: Ef séreignarsparnaður er tekinn út fyrir 67 ára aldur og lagður inn á bankareikning þarf að greiða fjármagnstekjuskatt af vöxtunum, sem annars þyrfti ekki að gera. Auk þess munu vextirnir skerða lífeyrisgreiðslur TR um 45% og heimilisuppbót um 11,9%.

Áfall 2: Greiða þarf staðgreiðslu af úttekt séreignar. Því er hætt við að skatturinn verði umtalsvert hærri sé drifið í úttekt fyrir 67 ára aldur, en ef beðið er með hana og upphæðin jafnvel tekin út á nokkrum árum. Ástæðan er sú að úttektin telst til tekna og leggst ofan á þær launatekjur sem við höfum fyrir. Sé allt tekið út í einu er líklegt að hátekjuskattur sé greiddur, að óþörfu. Hann er umtalsvert hærri en neðri skattþrep.

Það borgar sig að kynna sér málin


Einfaldur misskilningur getur orðið til þess að tekjuskattur, fjármagnstekjuskattur og skerðingar verða meiri en nauðsynlegt er. Þar sem tekjur flestra lækka við starfslok er mikilvægt að forðast óþarfa tekjuskerðingu.

Ráðgjafar í lífeyrisþjónustu Íslandsbanka veita vandaða ráðgjöf varðandi úttekt séreignarsparnaðar. Hafðu sambandí síma 440 4000, í netspjalli eða i tölvupósti á sereign@islandsbanki.is.