Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Skipting lífeyris milli maka

Við söfnum sjálfstæðum réttindum í lífeyrissjóð og séreignarsparnað og því getur staða fólks verið mjög ólík þegar annað hvort þeirra fellur frá eða við skilnað.


Þrátt fyrir að fjárhagur sambúðarfólks sé oft sameiginlegur eru lífeyrisréttindi það ekki. Við söfnum sjálfstæðum réttindum í lífeyrissjóð og séreignarsparnað og því getur staða fólks verið mjög ólík þegar annað hvort þeirra fellur frá eða við skilnað.

Með skiptingu réttinda getur verið hægt að minnka þennan halla og eru þrír kostir í boði:

  • Hluti iðgjalda í lífeyrissjóð rennur til maka
  • Hluti greiðslna úr lífeyrissjóði rennur til maka
  • Skipting áunninna réttinda

Hluti iðgjalda rennur til maka

Barneignir eru gott tilefni til að velta þessu fyrir sér. Algengt er að annar makinn taki lengra fæðingarorlof en hinn og jafnvel launalaust leyfi að auki. Þar sem minna eða jafnvel ekkert er þá greitt í lífeyrissjóð og séreign er viðkomandi að fórna framtíðarréttindum. Því yngri sem við erum, því þyngra getur það vegið þegar upp er staðið.

Hægt er að semja um að allt að helmingur iðgjalds myndi sjálfstæð réttindi í lífeyrissjóði maka, en þá þarf makinn að gera slíkt hið sama og er þetta í boði þar til sá sem eldri er nær 70 ára aldri.

Hluti greiðslna úr lífeyrissjóði rennur til maka

Hægt er að skipta útgreiðslum rétt eins og inngreiðslum. Allt að helmingur greiðslna úr lífeyrissjóði rennur til maka, sem greiðir af honum skatt. Báðir aðilar þurfa að samþykkja sams konar ráðstöfun sem fellur niður við andlát.

Skipting áunninna réttinda

Framselja má allt að helming þeirra réttinda sem safnað var meðan á hjúskap eða óvígðri sambúð stóð. Báðir aðilar þurfa að skipta sama hlutfalli sinna réttinda og mynda þau þannig sjálfstæð réttindi sem ekki ganga til baka við andlát. Framvísa þarf heilbrigðisvottorði og ganga þarf frá skiptingunni áður en sá sem eldri er verður 65 ára. Skiptingin hefur einungis áhrif á lífeyrisréttindi, ekki örorku-, maka- og barnalífeyri.

Með skiptingu réttinda er mögulegt að tryggja betur fjárhagsstöðu maka sem hefur umtalsvert lægri lífeyrisréttindi. Hins vegar hentar það ekki alltaf og ráðlagt er að leitað sér persónulegrar ráðgjafar hjá lífeyrissjóði áður en ákvörðun er tekin.

Íslandsbanki veitir ráð og leiðbeiningar varðandi starfslok og sparnað á lífeyrisaldri. Þú getur pantað ráðgjöf eða spjallað við okkur í síma 440-4900.

Fyrirlestur um fjármál við starfslok


Björn Berg, Deildarstjóri Greiningar og fræðslu Íslandsbanka, ræðir um það sem mikilvægast er að hafa í huga í aðdraganda starfsloka í ársbyrjun 2021.

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri Greiningar og fræðslu


Senda tölvupóst