Neyslulán
Ertu með yfirdrátt, raðgreiðslur, greiðsludreifingu, smálán eða önnur neyslulán? Slíkt mun gera þér erfiðara að spara þar sem þú þarft að greiða vexti til viðbótar við að greiða lánin til baka. Reyndu, ef kostur er, að greiða upp öll slík lán eins hratt og hægt er, þá verður ódýrara og auðveldara að spara í framhaldinu.
Finndu sparnað í neyslunni
Þegar við erum búin að skrá okkur í séreignarsparnað og losa okkur við neyslulánin getur peningaleysi samt gert okkur erfitt fyrir. Við höfum mismikið svigrúm fyrir sparnað og stundum virðast launin okkar hreinlega gufa upp.
Ef svo er skaltu skoða hvort einhverja fjármuni sé að finna í neyslunni þinni. Notaðu lausnir á borð við Meniga, líttu á yfirlitið þitt og skrifaðu niður í hvað peningarnir fara. Hversu háar fjárhæðir fara í hverjum mánuði í eitthvað sem væri ekki mikið mál að draga úr eða sleppa? Hvað gætir þú sparað mikið á því?
Dæmi um slíkan sparnað er að segja upp ónotuðum áskriftum, endurnýja raftæki sjaldnar, kaupa notað í staðinn fyrir nýtt, leggja bílnum eða útbúa sinn eigin mat í stað þess að kaupa tilbúinn.
Hér er dæmi um ódýra valkosti við að kaupa sér hádegismat og kvöldmat. Gómsæt samloka og banani sem kostar ekki nema 411 krónur og ostafyllt tortellini með heimalagaðri tómatsósu á 477 krónur.