Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fjármál við starfslok – Ferlið

Hvað þurfum við að kanna og hvert eigum við að snúa okkur við undirbúning starfsloka?


Þegar styttist í starfslok þarf að huga vandlega að fjármálunum. En hvert eigum við að snúa okkur? Hver eru fyrstu skrefin?

Hér er tillaga sem gæti hjálpað þér af stað.

Lærðu á kerfið

Í stað þess að fá mánaðaleg laun og greiða af þeim skatta og gjöld munum við þurfa að sækja tekjur okkar úr ýmsum áttum. Þær geta borist úr kerfum sem við þekkjum ekki og geta reynst ansi flókin, svo sem frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnum. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þurfum við þó að skilja þessi kerfi, að minnsta kosti grundvallaratriðin.

Safnaðu saman upplýsingum um fjármálin þín

Þetta getur verið nokkuð tímafrekt en er forsenda þess að þú getir tekið upplýstar ákvarðanir um hvernig best sé að nálgast peningana þína.

 • Lífeyrisgáttin hefur að geyma yfirlit nær allra lífeyrisréttinda á landinu.
 • Líttu í heimsókn eða sendu tölvupóst til þeirra lífeyrissjóða sem geyma réttindin þín. Óskaðu eftir upplýsingum um hvaða reglur gilda varðandi hvenær þú getur hafið töku lífeyris, hvaða áhrif það hefur að flýta eða seinka töku, hvernig makalífeyri er háttað og hvort þú þurfir að veita einhverju sérstaka athygli varðandi þín réttindi.
 • Á vef Tryggingastofnunar er afar þægileg og aðgengileg reiknivél. Sláðu inn allar þínar forsendur svo þú fáir hugmynd um þær greiðslur sem þér gætu borist frá stofnuninni.
  - Grein: Svona virka skerðingar TR
 • Skoðaðu yfirlit séreignar þinnar, bæði hvernig hún er ávöxtuð og hversu hárri upphæð þú hefur safnað.
 • Fáðu ráðgjöf sérfræðinga ef þú ert að hugsa um að greiða niður skuldir, ávaxta fé, minnka við þig húsnæði, endurfjármagna lán osfrv. Kannaðu í leiðinni hvort uppgreiðslukostnaður er á lánunum og hver kjörin eru.

Taktu ákvörðun um hvenær og hvernig þú vilt nota peningana þína

Hvenær hentar þér að hefja töku lífeyris? Getur verið að þú viljir flýta eða seinka henni? Sveigjanleikinn er þó nokkur í lífeyriskerfinu og það er um að gera að velta þessu vandlega fyrir sér.

 • Hvenær hentar að sækja um hjá TR? Það hentar alls ekki öllum að sækja um greiðslur á 67 ára afmælisdaginn og í mörgum tilvikum er betra að bíða þar til við höfum hætt að vinna.
  - Grein: Hvenær er best að sækja um hjá TR
 • Hvernig ætlar þú að nota séreignarsparnað og annað sparifé? Við 60 ára aldur er viðbótarlífeyrissparnaður laus til úttektar og þú hagar úttektinni eins og þú vilt. Þú getur tekið út það sem þú þarft, þegar þú þarft á því að halda (með einhverjum fyrirvara þó), í mánaðalegum greiðslum eða einni stórri millifærslu. Hafðu skattþrepin þó í huga og mundu að hvorki ávöxtun né úttekt séreignar skerða ellilífeyrisgreiðslur TR og því kjósa margir að leyfa séreigninni að liggja óhreyfðri þar til þeir þurfa á henni að halda.
  - Grein: Þú þarft ekki að taka út alla séreignina þegar þú hættir að vinna
 • Hvað ef eitthvað kemur upp á? Ef þú ert í sambúð skaltu kanna vel og vandlega hvaða áhrif andlát, alvarleg veikindi eða vera á hjúkrunarheimili kann aða hafa á fjárhaginn. Skipting lífeyris og gagnkvæm umboð svo hægt sé að nálgast sparifé geta aukið fjárhagslegt öryggi.
  - Grein: Skipting lífeyris milli maka
  - Grein: Dvalar- og hjúkrunarheimili

Að sjálfsögðu er hér ekki um tæmandi lista að ræða en vonandi ertu þó einhvers vísari. Íslandsbanki heldur opna fræðslufundi um starfslok með reglulegu millibili sem allir eru velkomnir á og lífeyrisráðgjafar okkar eru alltaf tilbúnir í létt spjall um þennan frumskóg allan. Gangi þér vel!

Bóka tíma hjá lífeyrisráðgjafa

Fjármál við starfslok


Upptaka frá fræðslufundi Íslandsbanka um fjármál við starfslok í janúar 2020

Höfundur


Björn Berg Gunnarsson

Deildarstjóri greiningar og fræðslu Íslandsbanka


Senda tölvupóst