Þessar vaxtahækkanir sem um ræðir snerta fyrst og fremst þau sem greiða af lánum sem bera óverðtryggða breytilega vexti eða eru með lán á föstum vöxtum sem eru að losna.
Hér má finna nokkrar leiðir ásamt dæmum sem geta hentað til að létta undir mánaðarlegum afborgunum, en slíkar aðgerðir geta hægt á eignamyndun íbúðarhúsnæðis.
Greinin skiptist í eftirfarandi kafla:
- Sameina lán með endurfjármögnun
- Lengja lánstíma upp í 40 ár
- Vaxtagreiðsluþak Íslandsbanka
- Ráðstafa hluta af séreignarsparnaði inn á afborgun óverðtryggðs láns
- Festa vexti til að tryggja fyrirsjáanleika
- Jafnar afborganir vs. jafnar greiðslur
Sameina lán – eru heildarskuldir undir 70% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis?
Ef þú keyptir fasteign fyrir nokkrum árum og tókst bæði óverðtryggt grunnlán og viðbótarlán vegna kaupanna, þá er ekki ósennilegt að eignastaðan þín hafi aukist þar sem höfuðstóll lánanna hefur lækkað og fasteignamatið hækkað undanfarin ár. Ef heildarveðhlutfall (lánshlutfall) er komið undir 70% af fasteignamati eignar kann að vera svigrún til að sameina lánin með endurfjármögnuðu láni á hagfelldari kjörum, sem kemur til með að lækka mánaðarlegar afborganir.
Hagstæðustu kjör húsnæðislána eru ávallt í formi grunnláns hverju sinni við lántöku, sem er innan við 70% af fasteignamati. Flestar lánastofnanir taka mið af gildandi fasteignamati hverju sinni við útreikning á veðhlutfalli/skuldahlutfalli eignar (gott er að kanna það hjá viðeigandi lánveitanda). Fasteignamatið er síðan uppfært 1. júní á hverju ári, en það getur hækkað, lækkað eða staðið í stað. Undanfarin ár hefur fasteignamat hækkað töluvert heilt yfir.