Vaxtagreiðslu­þak

Vaxtagreiðsluþak er þjónusta sem veitir þeim viðskiptavinum sem slík ákvæði hafa í skilmálum óverðtryggðra húsnæðislána skjól fyrir sveiflum í greiðslubyrði við hækkun vaxta.

Hvernig virkar vaxtagreiðslu­þak?

  • Þú velur vaxtagreiðsluþakið sjálf(ur). Það verður þó að vera yfir 7,5% ársvöxtum, sem er lágmarkið fyrir grunnlán en 8% fyrir viðbótarlán.

  • Ef vextir lánsins hækka umfram það vaxtagreiðsluþak sem þú hefur valið tekur vaxtagreiðslan mið af því þaki, en sú upphæð sem ber á milli ríkjandi vaxta skv. vaxtatöflu og vöxtum reiknuðum samkvæmt vaxtagreiðsluþaki leggst við höfuðstól lánsins.

  • Þeir vextir sem leggjast við höfuðstól koma til greiðslu á þeim gjalddögum sem eftir eru af láninu (dreifast á lánstímann).

  • Vaxtagreiðsluþak hentar þeim lántakendum sem vilja jafna greiðslubyrðina í hækkandi vaxtastigi.

Dæmi um virkni þjónustunnar:


A.

Þegar vextir láns eru lægri en (eða jafnir og) það vaxtagreiðsluþak sem lántaki velur tekur vaxtagreiðsla mið af ríkjandi vaxtatöflu.

Dæmi: Vextir láns þróast frá 6,15% til 7,40% en skilgreint vaxtagreiðsluþak er 7,5% ársvextir

=> allir áfallnir vextir eru greiddir og engir vextir lagðir við höfuðstól

B.

Þegar vextir eru hærri en það vaxtagreiðsluþak sem lántaki hefur valið tekur vaxtagreiðsla mið af vaxtagreiðsluþakinu en mismunur á þakinu og gildandi vöxtum leggst við höfuðstól lánsins.

Dæmi: Vextir láns eru 11% en vaxtagreiðsluþak er 7,5% ársvextir

=> greiddir vextir eru 7,5% en 3,5% ársvextir eru lagðir við höfuðstól og koma til greiðslu með afborgunum út lánstímann

Kostir og ókostir


Berðu saman kosti og ókosti vaxtagreiðsluþaks.

Kostir

Ókostir

Dregur úr óvissu um greiðslubyrði óverðtryggðra húsnæðislána og veitir lántakendum öryggi

Ef vextir fara umfram vaxtagreiðsluþakið er hluta af vaxtagreiðslunni frestað í stað þess að hún sé greidd á hverjum gjalddaga

Auðveldar lántakendum að vera á óverðtryggðum lánaskilmálum þrátt fyrir hærra vaxtastig

Höfuðstóll lánsins verður hærri en hann ella hefði orðið ef vextir lánsins eru umfram vaxtagreiðsluþakið

Hraðari eignamyndun samanborið við verðtryggð húsnæðislán að því gefnu að vaxtaþróun sé í samræmi við þróun verðbólgu á hverjum tíma

Heildarvaxtakostnaður lánsins hækkar þegar höfuðstóll hækkar

Lántaki velur sjálfur hvar vaxtagreiðsluþakið umfram 7,5% ársvexti (8% fyrir viðbótarlán) liggur og getur því stillt greiðslubyrðina af miðað við sína eigin greiðslugetu

Til lengri tíma litið hækkar greiðslubyrði lánsins þegar að vöxtum er bætt við höfuðstól, en þó hóflega þar sem afborganir höfuðstóls dreifast á þá gjalddaga sem eftir eru af lánstímanum

Dæmi


Núgildandi vextir

Greiðsla með vaxtagreiðsluþaki

Lánsfjárhæð

35.000.000 kr.

35.000.000 kr.

Lánstími

40 ár

40 ár

Tegund afborgunar

Jafnar greiðslur

Jafnar greiðslur

Vextir til greiðslu á gjalddaga

11%

7,5%*

Greiðslubyrði á 1. gjalddaga

325.033 kr.

222.950 kr.

* Mismunurinn á vöxtum, þ.e. 7,5% og 11% leggjast ofan á höfuðstól lánsins og dreifist yfir lánstímann, 102.083 kr. á fyrsta gjalddaga í þessu dæmi.

Vaxtagreiðslu­þak


Horfðu á myndbandið þar er vaxtagreiðsluþak útskýrt á einfaldan hátt.

Spurt og svarað