Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fjármögnun fyrirtækja og samskiptin við bankann

Það er gott að vita hvert ferlið og hvað þarf helst að hafa í huga þegar fjármagna á rekstur.


Fjármagn virkar sem ákveðinn hraðall þegar hrinda á viðskiptahugmynd af stað eða færa út kvíarnar í núverandi rekstri.  Aðgangur að fjármagni auðveldar allt ferlið hvort sem til stendur að fjármagna kaup á framleiðslutækjum, stækkun á lager, nýtt markaðsátak til að auka við sölustækkun á húsnæði eða nýsköpun í rekstri.  Í þessum pistli er ætlunin að fara með almennum hætti yfir fjármögnun fyrirtækja og hverju má eiga von á í samskiptum sínum við bankann.

Í grófum dráttum eru fyrirtæki, þ.e. eignirnar sem skapa eiga tekjur fyrirtækisins, annaðhvort fjármögnuð með eigin fé frá eigendum eða lánsfé. Þetta sýnir sig hvað best í uppsetningu efnahagsreiknings fyrirtækja þar sem:  

EIGNIR = SKULDIR + EIGIÐ FÉ

Ákveðnir kostir og gallar fylgja hvorri leið sem farin er en oft er það ákveðinn meðalvegur þarna á milli sem er hagkvæmasta leiðin í fjármögnun á þínum rekstri. Lykillinn í allri fjármálastjórn fyrirtækja er að sjálfsögðu að lágmarka kostnað og hámarka arðsemi en huga samt vel að því að ekki verði lausafjárskortur í rekstrinum. Lausafjárskortur er alltaf slæmur þó hann vari bara í skamman tíma, en ef hann er viðvarandi getur hann orðið bæði erfiður viðureignar og dýrkeyptur. Þess vegna er mikilvægt að gera ráð fyrir og ná að hafa  svigrúm til að mæta áföllum og viðhalda þeim eignum sem skapa tekjur fyrirtækisins.

Fjármögnun fyrirtækja


Upptaka frá fræðslufundi Íslandsbanka um fjármögnun fyrirtækja

Fjármögnun með eigin fé og lánsfé

Þær leiðir sem standa fyrirtækjum til boða þegar kemur að fjármögnun  eru mjög fjölbreyttar og allar hafa þær sína kosti og jafnframt galla. Því getur verið misjafnt eftir eðli rekstrar hvaða leið hentar best. Það er mikilvægt að hvert og eitt fyrirtæki hámarki arðsemi sína út frá eigin rekstri. Fjármögnun þarf að miðast út frá áherslum eigenda hvað varðar framtíðarsýn þeirra, áætlanir um vöxt og ekki síst eftir því hversu mikla áhættu þeir eru tilbúnir að taka í rekstrinum sínum.

Eigið fé

Fjármögnun með eigin fé hefur þá kosti umfram lánsfé að ekki þarf að greiða af því reglulega vexti eða  standa skil á afborgunum þess. Það er því talað um að eigið fé sé „þolinmóðara“ en lánsfé. Þeir sem leggja félagi til eigin fé, t.d. í formi hlutafjár, eru í flestum tilvikum að horfa til þess að ávaxta það til lengri tíma. Ávöxtun slíks eigin fjár er því í formi hækkunar á virði fyrirtækisins og/eða útgreiðslum arðs til eigenda. Gallarnir við eigin fé eru aftur á móti þeir að eigendur sem leggja fyrirtæki til fé vilja þá iðulega (og eðlilega) hafa eitthvað um reksturinn að segja; hafa á honum skoðun, fá að taka þátt í ákvörðunum um reksturinn og gera tilkall til hlutdeildar í hagnaði og verðmætaaukningu fyrirtækisins.

Lánsfé

Lánsfé hefur aftur á móti þá kosti að lánveitandinn hefur ekki áhrif á stjórnun fyrirtækisins eða daglegan rekstur þess. Sömuleiðis má líta á það sem kost þegar lánsfé er borið saman við eigin fé að við uppgreiðslu lána lýkur sambandinu við lánveitanda er varðar lánið. Hann er því úr sögunni ef svo má segja. Frá sjónarhóli eigenda eru ókostirnir við lánsfé aftur á móti þeir að greiða þarf bæði vexti af láninu og reglulegar afborganir sem veitir minni sveigjanleika þegar sveiflur verða í rekstrinum. Einnig þarf að leggja bankanum til tryggingar fyrir endurgreiðslu lána sem hluthafar fara ekki fram á.

Það er erfitt að segja til um það með almennum hætti hver sé hin fullkomna blanda eigin fjár og lánsfjár í fjármögnun fyrirtækja.

Hvernig hugsar bankinn?

Við sem störfum við fyrirtækjaþjónustu hjá bankanum fáum inn á borð til okkar mjög fjölbreytt og oft afar áhugaverð verkefni. Við erum til þjónustu reiðubúin að rýna öll mál með viðskiptavinum okkar og aðstoða fyrirtæki sem til okkar leita eftir þörfum þegar kemur að fjármögnun þeirra. Ferlið, frá því að fyrirtæki leitar til bankans og þar til að lánið er greitt út, getur tekið frá því að vera nokkrir dagar til þess að taka mánuði allt eftir því hversu flókin málin eru. Sem dæmi um einfalt lán má nefna yfirdrátt eða lán á grundvelli skuldabréfs fyrir tiltölulegra lágri upphæð (sem er vitanlega afstætt eftir því um hvað ræðir). Flóknari lánveitingar eru lán þar sem um er að tefla hærri fjárhæðir og geta þær krafist allnokkurs undirbúnings og vinnu bæði af hálfu fyrirtækisins og starfsmanna bankans. Þær þurfa að fara fyrir Lánanefnd bankans og hljóta þaðan afgreiðslu og geta jafnvel kallað á flókna skjalagerð sem loks þarf að þinglýsa hjá embættum sýslumanna. Þrátt fyrir fjölbreytileika á lánveitingum til fyrirtækja er ferillinn allt að einu sá sami í grunninn  og sömuleiðis þau gögn og upplýsingar sem skila þarf til bankans.

Hvenær þarf fjármagn?

Fjárþörf verður til hjá fyrirtækjum þegar forsvarsmenn og eigendur telja að reksturinn þurfi aukið fjármagn af einhverjum ástæðum. Í flestum tilvikum er um að ræða áform um fjárfestingu af einhverjum toga t.d. til þess að auka við vörur í sölu og í því skyni að flytja inn aukið magn eða auka fjölbreytni með nýjum tegundum eða vörumerkjum, fjármagna vöxt í framleiðslu, fjárfestingar í húsnæði, mögulega fara úr leiguhúsnæði í eigið húsnæði, kaup á nýjum tækjum eða tólum eða  fjármögnun framkvæmda. Í einhverjum tilvikum er óskað eftir lánveitingu til þess að fjármagna taprekstur eða áföll í rekstrinum. Slíkum beiðnum þarf eðli þeirra samkvæmt að fylgja aukinn rökstuðningur  hvað varðar sýn um viðsnúning rekstrar til framtíðar. Þegar forsvarsmenn huga að fjárfestingum í rekstrinum þarf að skoða með hvaða hætti best er að fjármagna viðkomandi fjárfestingu líkt og komið var inn á hér að ofan. Hluta af þessari fjárþörf er hægt að leita til bankans með en í flestum tilvikum þarf og er e.t.v. réttara að fjármagna með fleiri en einum hætti. Sem dæmi mætti nefna að hluti yrði fjármagnaður úr sjóðum fyrirtækisins, með auknu hlutafé hvort sem það er frá núverandi hluthöfum eða frá nýjum fjárfestum sem koma að félaginu eða t.d. með láni frá eigendum. Það sem uppá vantar er svo hægt að leita með til bankans.

Lánsbeiðni og samskipti við bankann

Þegar óska á eftir láni hjá bankanum, leggja fram lánsbeiðni, er mikilvægt að fram komi  allar þær upplýsingar sem eru til þess fallnar að varpa ljósi á núverandi rekstur fyrirtækisins. Tilgreina þarf ástæður þess að fyrirtækið óskar eftir lánveitingu og hvaða áhrif vænst er að það hafi  á reksturinn. Þessi gögn eru að miklu leyti þau sömu og forsvarmenn fyrirtækjanna nota sjálfir til að leggja mat fjárfestinguna svo að gerð lánsumsóknar ætti í flestum tilvikum að vera lítil viðbótarvinna. Til þess að bankinn fái glögga mynd af stöðu fyrirtækisins og áhrifum viðkomandi fjárfestingar á rekstur þess þarf jafnframt að skila til bankans ákveðnum gögnum sem nánar verða rakin hér að neðan. Góð lánsbeiðni þarf í öllum tilvikum að innihalda fjárhagsupplýsingar sem gefa núverandi mynd af rekstrinum og rekstrarsögu þess sem og rekstraáætlun sem gefur ákveðna mynd af rekstrinum til framtíðar. Þetta á við óháð því hvaða fjárhæð það er sem óskað er að taka að láni.

Fjárhagsupplýsingar

Upplýsingar um fjárhag fyrirtækisins er í flestum tilvikum nýjasti ársreikningur þess og þarf hann því alltaf að fylgja með beiðni um lán. Ef langt er liðið á reikningsárið getur verið að ársreikningur síðastliðins árs gefi ekki nógu góða eða rétta mynd af rekstri fyrirtækisins í dag. Nærtækt dæmi er heimsfaraldur Covid sem hefur gert fjölda ársreikninga ársins 2019 nær úrelta þannig að þeir segja lítið sem ekkert til um stöðu fyrirtækja síðari hluta ársins 2020 þegar þetta er ritað.  Ársreikningur 2020 er á hinn bóginn að sjálfsögðu ekki tilbúinn og því er í slíkum tilvikum nauðsynlegt að styðjast við 6 eða 9 mánaða uppgjör - hér fyrir árið 2020 sem gefur í allflestum tilvikum mun betri mynd af fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Lykilatriðið í þessu er að fyrir liggi sem best gögn um stöðu fyrirtækisins á þeim tíma sem lánsbeiðnin er metin. Ef um nýtt fyrirtæki er að ræða er stundum útbúinn svonefndur stofnefnahagsreikningur sem gefur þá ákveðna mynd af fjárhag þess áður en fyrsti ársreikningurinn lítur dagsins ljós.

Rekstraráætlun

Rekstraáætlun þarf alltaf að fylgja lánsbeiðnum en þær gefa bæði bankanum og ekki síður stjórnendum fyrirtækja ákveðna mynd af rekstrinum til framtíðar. Með því að gefa sér tíma og búa til rekstraráætlun fást mjög góðar upplýsingar um reksturinn, upplýsingar og yfirlit yfir fastan kostnað fyrirtækisins sem og breytilegan og eins þjónar slík áætlun iðulega góðu hlutverki sem tæki til að áætla hvað þarf í reynd að hafa í tekjur yfir tiltekið tímabil til að standa undir rekstrinum og ekki síst til að ná markmiðum eigenda. Rekstraráætlun getur verið allt frá umfangsmiklu og margslungnu excel skjali niður í örfáar línur á servíettu, allt eftir því hvort um er að ræða flókin rekstur, t.d. flugfélags eða einfaldan rekstur, til að mynda unglingspilt sem ætlar að selja slátt á grasi yfir sumarið. Í báðum tilvikum er þó afar mikilvægt að gera ákveðna áætlun til að átta sig á því hvert stefnir, á hvað þarf að selja þjónustuna og hvar væri hægt að hagræða. Það eykur líkurnar á því að hægt sé að skipuleggja reksturinn til framtíðar og sjá fyrir möguleg áföll þannig að unnt verði að bregðast við þeim strax. Þá er rekstraráætlun einnig handhægt tól til að meta áhrif fjárfestinga á rekstur, til dæmis til að meta áhrif kaupa á nýrri breiðþotu í stað þeirrar gömlu eða þess að fjölga sláttuvélum úr einni í tvær.

Upplýsingar og gögn með lánsbeiðni

Þó svo að ársreikningar og rekstraráætlanir séu almennt gögn sem gefa mjög góða mynd af stöðu mála þarf í flestum tilvikum allt að einu frekari upplýsingar og gögn, allt eftir því hver lánsbeiðnin er. Gott er að ráðfæra sig við bankann strax í upphafi til þess að fá nánari upplýsingar um hvaða gögn væri rétt að útvega og afla. Öll eiga gögnin það sameiginlegt að þjóna þeim tilgangi að varpa ljósi á tilgang fjárfestingarinnar og áhrif hennar á reksturinn. Þarna getur verið um að ræða margs konar upplýsingar, í reynd allt milli himins og jarðar en í dæmaskyni um algengustu gögnin mætti nefna tækjalista, birgðalista, samþykktir félagsins, lista yfir hluthafa og margt fleira. Myndir og teikningar af ýmsum toga hjálpa líka mikið við að skýra málið. Ef haldið er áfram með dæmin hér að framan þá þyrfti lánsbeiðni vegna fyrirhugaðra kaupa á breiðþotu að fylgja upplýsingar um kaupverð hennar, framleiðsluár, gerð og ástand þotunnar, söluyfirlit og upplýsingar um tryggingar svo eitthvað sé nefnt. Rekstraráætlunin sjálf myndi svo taka á kostnaði við rekstur hennar, þjálfum flugmanna, breytinga á leiðakerfi og mögulegar tekjur af sölu sæta með öllum þeim breytum sem því fylgja. Hægt er að gera eina rekstraráætlun fyrir hverja breytu, t.d. eina þar sem öll sæti eru seld eða aðra þar sem einungis helmingur sæta eru seld og þannig teikna upp með hjálp rekstraráætlunar tvær sviðsmyndir af tilkomu nýju þotunnar í fyrirtækið. Slík sviðsmyndagreining getur einnig verið afar gagnleg við mat á fýsileika fjárfestinga. Með lánsbeiðni vegna kaupa á sláttuvél gæti dugað að senda bankanum greinargerð um vænt áhrif fjárfestingarinnar og staðfestingu á eigin fé.

Lánsform

Form lánveitingarinnar sjálfrar ræðst í stórum dráttum af því verkefni sem verið er að fjármagna hverju sinni og þeim tryggingum sem bankanum eru veittar. Þumalputtareglan er að eignir eru fjármagnaðar í samræmi við líftíma þeirra. Skammtímafjármögnun er þannig hugsuð til styttri tíma en eins árs á meðan langtímafjármögnun er til lengri tíma en eins árs. Veðhlutföll, eða það hlutfall kaupverðs sem fjármagna á, og lánstími fara eftir eðli fjárfestingarinnar. Kaup á fasteignum eru einatt fjármögnuð með útgáfu veðskuldabréfa til lengri tíma þar sem á lánstímanum eru greiddir af höfuðstól reglulega vextir og afborganir. Hins vegar þarf innflutningur á vörum einungis fjármögnun til skemmri tíma eða fyrir það tímabilið sem varir á meðan verið er að flytja vörurnar til landsins og selja. Form birgðafjármögnunar af þessu tagi gæti því verið yfirdráttarheimild eða rekstrarlán með þeim hætti að af því yrðu greiddir vextir þar til lánveitingin greiðist upp með andvirði sölunnar á vörunum. Þessi tími getur verið frá nokkrum dögum til að mynda ef um er að ræða innflutning á ávöxtum, allt upp í einhverja mánuði ef flytja á inn tækjabúnað s.s. skurðgröfur og selja. Kaupandi skurðgröfunnar getur svo leitað til Ergo, tækjafjármögnunar Íslandsbanka, og fjármagnað skurðgröfuna með langtímaláni í takti við líftíma hennar.

Lánsbeiðni

 • Fjárfesting
  o   Fasteign
  o   Bíll / tæki
 • Vöntun á lausafé
  o   Kröfufjármögnun
  o   Birgðafjármögnun
 • Byggingaverkefni
  o   Framkvæmdalán
 • Ábyrgðir
  o   Innlendar ábyrgðir
  o   Erlendar ábyrgðir

Verðtryggt eða óverðtryggt?

Lán geta ýmist borið verðtryggða eða óverðtryggða vexti. Einungis er unnt að bjóða upp á verðtryggða vexti af lánum ef lánstíminn er lengri en fimm ár. Rétt er að benda á að Íslandsbanki býður reglulega upp á námsekið og fyrirlestra um ólík lánsform sem er tilvalið fyrir þá sem vilja fræðast og kynna sér betur kosti og galla verðtryggingar. Mælir undirritaður eindregið með því fræðsluefni.

Ný fyrirtæki

Fjármögnun nýrra fyrirtækja með lánsfé getur oft á tíðum reynst erfið. Það segir sig sjálft að vegna þess að slíkur rekstur  er ekki kominn með mikla reynslu og því að öllu jöfnu meiri áhætta fólgin í því að spá fyrir um árangur og arðsemi til framtíðar. Eðlilegast er því að eigendur og fjárfestar fjármagni upphaf rekstrar með eigin fé sem er í eðli sínu þolinmóðara og því auðveldara að mæta áföllum svona fyrstu misserin í rekstri.

Niðurstaða fengin

Lánsbeiðnir eru misflóknar í eðli sínu og fjárhæðirnar misháar enda þarfirnar afar fjölbreyttar. Ljóst má vera að engin tvö mál eru alveg eins. Sá tími sem tekur að vinna einstakt lánamál, bæði innan bankans og hjá fyrirtækinu sem óskar lánins getur því tekið frá einhverjum dögum upp í vikur og jafnvel mánuði í þeim allra flóknustu. Það fer eftir fjárhæðum og umfangi almennt í hvaða farveg mál fara innan bankans. Við mat á lánsbeiðni er horft til allra þátta sem tengjast málinu. Lánveitingin þarf í fyrsta lagi að standast lánareglur bankans en einnig þau viðmið sem bankinn hefur sett sér hvað varðar ábyrgar og sjálfbærar lánveitingar, sem hægt er að lesa nánar um á vef okkar. Viðskiptasaga fyrirtækisins og eigenda þess er rýnd og stuðst er við upplýsingar af vanskilaskrá sem og lánshæfismat CreditInfo. Það er okkar trú að traust og trúnaður á milli bankans og forsvarsmanna fyrirtækisins sé frumforsenda að farsælu samstarfi.

Fjármálafyrirtæki eru í engu undanskilin þeirri samfélagslegu ábyrgð sem á okkur öllum hvílir og í reynd hvílir á þeim enn ríkari ábyrgð til þess að  mæta sívaxandi kröfum um aukna sjálfbærni í rekstri og því er lögð á það áhersla að samhliða því að mæta kröfum nútímans verði hugað að komandi kynslóðum með tilliti til umhverfis- og samfélagsmála. Innan bankans er kappkostað að horfa í auknum mæli til UFS-viðmiða (umhverfisþáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum) við áhættustýringu sem og mikill áhugi er fyrir aukinni nýtingu grænna fjármögnunarkosta.

Íslandsbanki leggur áherslu á að vera í góðum samskiptum við fyrirtæki í viðskiptum við bankann og að vera í fararbroddi við að veita góða þjónustu og ráðgjöf til viðskiptavina. Góð samskipti og þekking á rekstri  viðskiptavina auðvelda alla þjónustu við fyrirtæki og fjármögnun þeirra. Það er okkur mikilvægt að viðskiptavinir okkar viti að alltaf er hægt að leita til okkar og ræða það sem efst er á baugi hverju sinni.

Kynntu þér upplýsingar okkar um fjármögnun reksturs


Fjármögnun á vef Íslandsbanka

Fyrirtækjum bjóðast ýmsar leiðir í fjármögnun, bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum.

  Kynntu þér fjármögnun Íslandsbanka

  Tækja - og bílafjármögnun Ergo

  Ergo hjálpar viðskiptavinum við að taka upplýsta ákvörðun þegar þeir kaupa bíl, ferðavagn eða atvinnutæki.

   Kynntu þá fjármögnun Ergo