Athugið

Þessi grein er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hvað hefur áhrif á óverðtryggða íbúðalánið þitt?

Það er gott að gera ráð fyrir því að á einhverjum tímapunkti hækki vextir og vera búin að skoða þau áhrif sem það hefði á mánaðarlegar greiðslur.


Það er ekki auðvelt að kaupa sína fyrstu íbúð og verðið er langt í frá lágt þessa dagana. Ástandið er þó ekki alslæmt því fyrstu kaupendur geta nú tekið lán á mun lægri vöxtum en áður hafa verið í boði og það hjálpar svo sannarlega.

Til þess að mega taka lán þarf að standast greiðslumat. Þar er áætlað hve mikið er hægt að greiða af láni á hverjum mánuði og þar af leiðandi hvaða lán er mögulegt að taka. Nógu erfitt er nú að kaupa sína fyrstu eign og það er því ekki óalgengt að tekið sé eins mikið að láni og mögulegt er. Það getur þýtt að ef eitthvað breytist, við verðum til dæmis fyrir tekjumissi eða vextir lánsins hækka, getur verið erfitt að greiða af láninu.

Eins og staðan er í dag þykir flest benda til þess að vextirnir verði lágir á næstunni en á einhverjum tímapunkti gætu þeir þó farið að hækka. Því er mikilvægt að skoða tvennt:

  • Hvað gæti orðið til þess að vextir hækki?
  • Hvaða áhrif hefði það á fjármálin mín ef ég þyrfti að borga meira í hverjum mánuði?

Veltum aðeins fyrir okkur fyrri punktinum.

Hvenær hækka vextir eða lækka?

Seðlabankinn hefur mikið um það að segja hvaða vextir eru á íbúðalánunum okkar, þó fleira komi vissulega til. Í einfaldri mynd mætti segja að vextir Seðlabankans séu eins og bensíngjöf í bíl. Sé mjög rólegt yfir hagkerfinu er ýtt á bensíngjöfina með því að lækka vexti. Það hvetur fyrirtæki og einstaklinga til að fjárfesta eða taka lán og efla atvinnulífið. Þetta hefur Seðlabankinn gert að undanförnu og er ein helsta ástæða þessara lágu vaxta sem við sjáum nú.

En þegar Seðlabankanum er hætt að lítast á blikuna og of mikill hiti er í hagkerfinu eða verðbólga er kominn á kreik getur hann kosið að taka fótinn af bensíngjöfinni með því að hækka vexti. Þá ætti að draga úr vilja til lántöku og fjárfestinga og  jafnvægi að nást að nýju. Bankarnir elta þessa vexti Seðlabankans að talsverðu leyti og því geta þessar breytingar haft áhrif á íbúðalánin okkar. Lán á breytilegum vöxtum geta breyst hratt en þú getur fengið að vita hjá lánastofnuninni þinni hvenær lán á föstum vöxtum verður endurskoðað.

Eru vextir að fara að hækka aftur?

Þau sem ákveða vexti Seðlabankans telja greinilega góða ástæðu til að þeir séu lágir eins og staðan er í dag. Við erum þó vön því að hér séu vextir talsvert hærri og það er alls ekki útilokað að svo verði aftur. Eins og áður segir er ekki útlit fyrir miklar breytingar á næstunni, en það getur verið fljótt að breytast.

Þó svo margt hafi áhrif á vexti Seðlabankans er verðbólgan sennilega það sem mestu máli skiptir. Hún mælir hve mikið verðlagið á Íslandi hækkar eða lækkar, allt frá eplum til flugferða, hótelgistinga, húsaleigu eða líkamsræktarkorta. Þrátt fyrir að dýrara sé að flytja inn vörur og þjónustu en í upphafi árs, þar sem krónan hefur veikst, er verðbólga enn á þeim slóðum að Seðlabankinn hefur ekki þurft að hækka vexti til að reyna að draga úr henni.. Markmiðið er að hún sé í nánd við 2,5% og þar hefur hún haldið sig að mestu.

Það finnst fæstum verðbólgan spennandi og að fylgjast með þróun hennar fellur eflaust neðarlega í forgasröðun flestra en ef hún skiptir máli fyrir peningana þína gæti það borgað sig að hafa auga á henni. Góð leið er að fylgjast með verðbólguspám. Þú getur skráð þig á póstlista Greiningar Íslandsbanka hér fyrir neðan og fengið verðbólguspá senda í hverjum mánuði.

Hvað ef vextir hækka?

Það er gott að gera ráð fyrir því að á einhverjum tímapunkti hækki vextir og vera búin að skoða þau áhrif sem það hefði á mánaðarlegar greiðslur. Ef afborganir eru þegar mjög háar getur verið erfitt að þola slíka vaxtahækkun en mögulega væri hægt að bregðast við með svokallaðri endurfjármögnun. Þá er gamla lánið greitt niður og nýtt lán tekið, til dæmis verðtryggt, sem mögulega býður nokkru lægri greiðslur í dag gegn því að meira sé borgað síðar. Einnig er hægt að festa vexti á óverðtryggðum lánum til 3ja eða 5 ára með svokallaðri skilmálabreytingu, en þá er greiðslubyrðin nokkuð stöðug. Best er þó alltaf að ráðfæra sig við sérfræðing áður en ráðist er í nokkuð slíkt.

Póstlisti Greiningar

Skráðu þig á póstlistann okkar og fáðu m.a. senda verðbólguspá í hverjum mánuði

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Senda tölvupóst