Nýsköpunarstyrkir

Að hljóta styrk getur skipt sköpum þegar kemur að því að láta viðskiptahugmynd eða verkefni verða að veruleika. Fjölmargir styrkir standa einstaklingum og fyrirtækjum í nýsköpun til boða en miklu máli skiptir að sækja um í sjóði sem hentar þínu verkefni og að vinna styrkumsóknina vandlega.

Allt um styrki


Frumkvöðlar og fyrirtæki á Íslandi hafa aðgang að fjölda innlendra og alþjóðlegra sjóða sem styðja við nýsköpun. Styrkir geta verið kærkomin uppspretta fjármagns fyrir viðskiptahugmyndir á fyrstu stigum og reynast oft nauðsynlegt tól til að brúa bilið þar til rekstur hefur sjóðstreymi og aðgang að lánsfé. Hér finnur þú gagnlegar upplýsingar um styrki og umsóknarferlið.

Ferli styrkumsóknar

    Hvar sæki ég um styrk?

    Það fyrsta sem huga þarf að þegar sóst er eftir styrk er að taka saman lista yfir þá sjóði sem viðskiptahugmyndin þín á erindi í. Styrkir eru almennt sniðnir að ákveðnum tegundum verkefna eða atvinnugreinum og skilyrði sett fyrir þátttöku samkvæmt því.

    Opinberir sjóðir

    Gott er að byrja leitina að hentugum sjóðum á vefsíðu Rannís. Opinberir sjóðir á sviði nýsköpunar auk sambærilegra sjóða á vegum ESB og Norðurlandanna eru í umsjón Rannís hérlendis. Á síðunni finnur þú yfirlit yfir sjóði eftir flokkum og upplýsingar um umsóknarfresti.

    Það getur líka verið mjög gagnlegt að leita uppi vettvangi fyrir frumkvöðla á netinu og á samfélagsmiðlum. Þar er oft að finna hagnýt ráð og upplýsingar um opnanir og umsóknafresti í sjóðum.

    Styrkjaumhverfið breytist í sífellu og því er mikilvægt að hafa augun opin fyrir tækifærum sem geta stutt við þína viðskiptahugmynd. Auk opinberra sjóða bjóða ýmis fyrirtæki og samtök upp á styrki til nýsköpunar. Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka hefur til að mynda úthlutað rúmlega 90 milljónum til nýsköpunar- og þróunarverkefna síðustu tvö ár.

Úthlutunarreglur

    Uppfylla reglur

    Þegar þú hefur tekið saman lista yfir möguleg styrkjatækifæri borgar sig að lesa vel yfir úthlutunarreglur sjóðanna. Það getur sparað þér mikinn tíma að tryggja að hugmyndin þín eigi erindi í viðkomandi sjóði áður en vinna hefst við styrkumsóknina. Jafnvel reyndustu frumkvöðlar hafa lent í því að umsókn þeirra sé hafnað vegna þess að hún uppfyllir ekki reglur eða formkröfur.

    Mikilvægt er að athuga hvort gerð sé krafa um mótframlag til verkefnisins í úthlutunarreglunum. Með mótframlagi er átt við fjármuni sem styrkþegi þarf að veita í verkefnið til móts við styrkinn. Ef beðið er um mótframlag þarftu að athuga hvort þú getir staðið straum af því áður en umsókn er skilað inn.

    Úthlutunarreglur

    Úthlutunarreglur eru mismunandi allt eftir tegund og umfangi styrkja. Þess vegna getur verið að þú sendir ekki sömu umsókn til mismunandi styrkveitenda, heldur þarf að vera blæbrigðamunur milli umsókna með tilliti til áherslna hvers sjóðs. Sem dæmi veitir Íslandsbanki styrki með tilliti til áherslna bankans í tengslum við Heimsmarkmið SÞ. Úthlutunarreglur Frumkvöðlasjóðs Íslandsbanka má nálgast hér.

Styrksumsókn

    Umsókn

    Fyrst og fremst skiptir máli að byrja umsóknina tímanlega og fara vandlega eftir leiðbeiningum við skrifin. Gott er að byrja á að renna í gegnum umsóknarformið og athuga hvaða upplýsingar þarf að útvega fyrir skil. Styrkumsóknir eru mislangar og í mörgum tilfellum er beðið um viðskiptaáætlun sem krefst töluverðs undirbúnings og tíma.

    Innihaldslýsing

    Flestir sjóðir nota jafningjamat við úthlutun styrkja. Þá eru umsóknir bornar saman á samkeppnisgrunni af úthlutunarnefnd og styrkir veittir eftir gæðum umsókna með hliðsjón af úthlutunarreglum og markmiðum viðkomandi sjóðs. Hafðu í huga að úthlutunarnefndir lesa mikinn fjölda umsókna á stuttum tíma.

    Því þarf að fylla út alla liði umsóknarinnar með hnitmiðuðum texta og lykilupplýsingum. Ef vísað er um of í fylgiskjöl er ekki víst að nefndarmenn hafi tíma til að fara í fara í gegnum þau í leit að grunnupplýsingum.

Hvað er horft til við mat á umsóknum


Ráðgjöf og aðstoð

    Fáðu athugasemdir

    Gott er að fá samstarfsfólk, vini, fjölskyldu eða jafnvel alveg ótengdan aðila til að lesa umsóknina yfir áður en hún er send inn. Mun meiri hætta er á mistökum ef aðeins einn aðili sér um gerð umsóknarinnar. Fáðu athugasemdir varðandi innihald, uppsetningu, málfar og stafsetningu umsóknarinnar.

    Mundu að það er samkeppni um fjármagnið í sjóðum og framsetning og fagmannleiki skipta máli við að selja úthlutunarnefndinni viðskiptahugmyndina.

    Í mörgum tilfellum þekkja frumkvöðlar vöruna eða þjónustuna sem þau leggja upp með mjög vel en hafa ekki endilega reynslu af því að útbúa ítarlegar styrkumsóknir.

    Viðskiptaáætlun

    Oft þarf að skila inn viðskiptaáætlun með tilheyrandi útreikningum og fyrir frumkvöðla sem ekki hafa reynslu af því getur verið gott að fá utanaðkomandi ráðgjöf. Mögulegt er að ráða ráðgjafa sem sérhæfa sig í umsóknum í samkeppnissjóði.

    Einnig er mögulegt að leita uppi sjóði sem gera minni kröfur í umsóknarferlinu og styrkja frumkvöðla til að útbúa viðskiptaáætlun, til dæmis fyrirtækjastyrkurinn Fræ undir Tækniþróunarsjóði og sjóðurinn Atvinnumál kvenna. Rannís býður líka upp á sóknarstyrki fyrir frumkvöðla til að sækja um í alþjóðlega nýsköpunarsjóði.