Gerð viðskiptaáætlunar

Góð viðskiptaáætlun hjálpar þér að láta viðskiptahugmynd þína verða að veruleika. Hér finnur þú upplýsingar um helstu atriði sem hafa þarf í huga við gerð góðrar áætlunar.

Mikilvægi viðskiptaáætlana


Ekki skal vanmeta mikilvægi vandaðrar og trúverðugrar áætlunar um hvernig viðskiptahugmynd skal hrundið í framkvæmd. Vel útbúin viðskiptaáætlun varpar sýn á mikilvæg atriði svo fjárfestar, lánveitendur, styrkveitendur og fleiri geti betur tekið upplýsta ákvörðun.

Meginþættir viðskiptaáætlana eru yfirleitt þeir sömu en innihald getur verið ólíkt eftir eðli og umfangi hverrar viðskiptahugmyndar fyrir sig. Gott er að muna að engin ein uppsetning er algild og eðlilegt er að gera breytingar eftir þörfum.

Í upphafi skal endinn skoða

  Samantekt

  Samantektin er líklega mikilvægasti kafli áætlunarinnar og það fyrsta sem lesið er. Hún skal vera hnitmiðuð og innihalda lykilatriði úr hverjum kafla fyrir sig. Þess vegna er best að skrifa hana þegar vinnslu annarra kafla er lokið. Samantektin þarf að gefa skýra mynd af viðskiptaáætluninni í heild og gott er að takmarka hana við eina blaðsíðu. Reyndu að hafa textann grípandi, sannfærandi en jafnframt raunsæjan.

  Lykilatriði
  • Hver er viðskiptahugmyndin og hversu langt er verkefnið komið?
  • Á hvaða markað ætlar fyrirtækið að sækja?
  • Til hvaða markhóps á varan eða þjónustan að ná?
  • Hver er sérstaða vörunnar eða þjónustunnar á markaðnum?
  • Hversu stór er markaðurinn og hverjar eru markaðshorfurnar næstu ár?
  • Hver mun hrinda hugmyndinni í framkvæmd?
  • Hverjar eru lykiltölur fjárhagsáætlana?
  • Hvernig hyggst fyrirtækið fjármagna viðskiptahugmyndina?

Kynntu hugmyndina

  Lýsing

  Að lokinni samantekt þarf að lýsa viðskiptahugmyndinni nánar. Tilgangurinn með slíkri kynningu er að lesendur skilji heildarhugmyndina og hvaða tækifæri hún bjóði upp á. Mikilvægt er að útskýra hvaða ávinning varan eða þjónustan á að skapa fyrir viðskiptavini. Ef varan leysir tiltekin vandamál fyrir viðskiptavini þarf að koma því til skila.

  Viðskiptahugmynd

  Lýsingunni ættu að fylgja upplýsingar um hvernig fyrirtækið hyggst aðgreina sína vöru eða þjónustu frá keppinautum og hvert samkeppnisforskot fyrirtækisins er. Hvar liggja styrkleikarnir? Getur fyrirtækið boðið upp á lægra verð en aðrir eða skapað meira virði fyrir viðskiptavini?

  Að lokum þarf að taka fram á hvaða stigi viðskiptahugmyndin er í dag. Er hugmyndin á hönnunarstigi, í þróun eða komin í framleiðslu?

Stjórnskipulag

  Segðu frá fólkinu

  Segðu frá fólkinu á bakvið viðskiptahugmyndina.

  Kynntu eigendur og  stjórnendur fyrirtækisins og sýndu fram á að þau hafi þá þekkingu sem til þarf svo framkvæma megi viðskiptahugmyndina. Hver er menntun og reynsla lykilstjórnenda og hvert er núverandi hlutverk og ábyrgð þeirra innan fyrirtækisins?

  Sýndu stjórnskipulag fyrirtækisins

  Svaraðu auk þess spurningum á borð við: 

  • Hvert er rekstrarform fyrirtækisins?
  • Þarf að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf, aðstoð eða fræðslu?
  • Hver er framtíðarsýnin?

Upplýsingar um vöruna og framleiðsluferlið

  Varan

  Lýstu vörunni í smáatriðum og þörfum viðskiptavina. Hér gefst tækifæri til að lýsa eiginleikum og gæðum þess sem selja skal og hvaða vöruflokki það tilheyrir. Fangaðu athygli lesandans með því að sýna fram á sérstöðu þinnar vöru með gerð vörulýsingar. Hvaða eiginleikar aðgreina hana frá öðrum vörum eða þjónustu í sama flokki? Af hverju ættu neytendur frekar að kaupa þína vöru eða þjónustu en það sem keppinautar bjóða?

  Þekktu ferlið

  Lykillinn að því að svara þeirri spurningu fyrir þína vöru er að skoða vel þarfir væntanlegra viðskiptavina. Vertu viss um að þörfin fyrir það sem þú býður upp á sé til staðar og útskýrðu í stuttu máli hvaða þarfir verða uppfylltar. Hugaðu að því að nefna meðal annars eftirfarandi:

  • Hvernig er verðlagningu háttað?
  • Hvert er framleiðsluferlið?
  • Hvaða hráefni og tækjabúnað þarf fyrir framleiðsluna?
  • Þarf varan að uppfylla ákveðnar kröfur og gæðastaðla?
  • Hvenær verður varan tilbúin fyrir sölu?

Markaðs- og samkeppnisgreining

  Innihaldslýsing

  Skilgreindu markaðinn og lýstu samkeppninni.

  Í þessum kafla sýnir þú fram á þekkingu þína á markaðnum og samkeppninni. Það er mikilvægt að greiningin haldist í hendur við aðra kafla áætlunarinnar. Sem dæmi getur markaðs- og samkeppnisgreiningin leitt í ljós að eftirspurn eftir ákveðinni vöru er mikil en framboð lítið. Þannig veitir greiningin frekari rökstuðning fyrir því að þörf sé fyrir vöruna.

  Eiginleikar

  Eiginleikar, hönnun, markaðssetning og dreifileiðir vörunnar ættu einnig að taka mið af markaðsgreiningunni svo eitthvað sé nefnt. Því má segja að nauðsynlegt sé að framkvæma markaðsgreininguna samhliða þróun viðskiptahugmyndarinnar, þó kaflinn sé staðsettur á eftir upplýsingum um vöruna innan viðskiptaáætlunarinnar. Svaraðu meðal annars eftirfarandi spurningum:

  • Hver eru helstu einkenni markaðarins sem fyrirtækið ætlar að sækja á?
  • Hvernig er verðlagningu háttað á markaðnum?
  • Hver er líklegur vöxtur og þróun markaðarins næstu ár?
  • Hver er markhópurinn fyrir vöruna, hvar er hann staðsettur og hvernig er kauphegðun hans?
  • Hverjir eru helstu samkeppnisaðilar á markaðnum og hver eru einkenni þeirra?
  • Hvaða miðla og sölu- og dreifileiðir nota samkeppnisaðilar til að ná til markaðarins?
  • Hvernig er hægt að ná forskoti gagnvart samkeppnisaðilum?

Markaðsáætlun


Mótaðu stefnu og aðgerðaáætlun í markaðsmálum.

Rekstraráætlanir

  Áætlun

  Áætlaðu stofnkostnað, tekjur og gjöld eftir bestu getu.
  Þegar markaðsáætlun er tilbúin er hægt að setja fram rökstutt mat á stofnkostnaði, rekstrarkostnaði og sölutekjum. Saman varpa áætlanirnar ljósi á hversu mikið fjármagn reksturinn þarf áður en hann fer að skila tekjum og hversu arðbær viðskiptahugmyndin kann að verða.

  Raunsæi

  Það borgar sig að hafa áætlanir vandaðar og raunsæjar.
  Vanir fjárfestar sjá strax þegar frumkvöðlar hafa unnið heimavinnuna sína vel. Auk þess getur vanmat eða ofmat á tekju- og kostnaðarliðum valdið rekstrarörðugleikum síðar meir, til dæmis ef viðskiptahugmyndinni er ekki tryggt nægt upphafsfé.

Stofnkostnaðaráætlun

Áætla þarf hvað það kostar að koma rekstrinum af stað og hvernig stofnkostnaðurinn skal fjármagnaður.

Stofnkostnaður fer eftir gerð og umfangi viðskiptahugmyndar en algengir kostnaðarliðir eru eftirfarandi:

 • Stofnun og skráning fyrirtækis samkvæmt gjaldskrá RSK
 • Uppsetning á viðskiptaáætlun. Hægt er að sækja um styrk fyrir vinnu við viðskiptaáætlun hjá Tækniþróunarsjóði
 • Húsnæði og tækjabúnaður
 • Framleiðslukostnaður vöru eða kostnaður við að veita þjónustu
 • Markaðskostnaður

Kostnaðar- og tekjuáætlun


Þegar stofnkostnaður liggur fyrir er hægt að innleiða hann í heildar kostnaðar- og tekjuáætlun. Algengt er að birta yfirlit yfir áætlaðan kostnað og tekjur fyrir fyrstu 12-36 mánuði rekstrarins. Frádráttur kostnaðar frá tekjum sýnir að lokum rekstrarniðurstöðuna, þ.e. hagnað eða tap.

Það er eðlilegt að rekstur skili ekki hagnaði á fyrstu mánuðum og að sama skapi getur fjármögnun nýs rekstrar tekið langan tíma. Í rauninni er mjög mismunandi hvenær rekstur fer að skila hagnaði og fer það allt eftir tegund rekstrar. Þess vegna er mikilvægt að kynna sér upplýsingar úr samanburðarhæfum rekstri þegar þú leggur mat á hvort þín áætlun sé raunhæf.

Hér er meira efni fyrir þig

Haltu áfram að vafra, að ýmsu er að huga þegar fyrstu skrefin við að hefja rekstur eru stigin. Hér eru fleiri síður sem geta hjálpað þér við að koma viðskiptahugmynd þinni í framkvæmd.