Í upphafi er gott að gera drög að viðskiptaáætlun sem lýsir fyrirhugaðri starfsemi fyrirtækisins og áætluðum tekjum þess. Viðskiptaáætlun getur innihaldið allt frá umfangsmiklu og margslungnu excel skjali niður í örfáar línur á blaði, allt eftir því hvort um er að ræða flókinn eða einfaldan rekstur.
Þegar áætlun um reksturinn liggur fyrir er gott að ráðfæra sig við löggiltan endurskoðanda, bókara eða lögmann varðandi val á rekstrarforminu. Helstu atriði sem ólík eru milli rekstrarforma eru ábyrgð eigenda, skattlagning, stofnkostnaður, lágmarkshlutafé, kröfur um skráningu og bókhald og reglur um ákvarðanatöku innan fyrirtækisins.
Einkahlutafélög (ehf.) eru langalgengust rekstrarforma á Íslandi og skipta þau tugum þúsunda. Aðrir möguleikar geta þó hentað þínum rekstri betur og eru þeim helstu gerð skil hér að neðan.