Úthlutunarreglur fyrir Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka


1. gr. – Auglýst eftir umsóknum

Sjóðurinn auglýsir eftir umsóknum um styrki og úthlutar einu sinni á ári, en er heimilt að úthluta fé oftar ef sérstakt tilefni gefst til.

Í auglýsingu styrkja skal koma fram:

  • Upplýsingar um tilgang og stefnu sjóðsins
  • Úthlutunardagur
  • Umsóknarfrestur
  • Upphæðir sem hægt er að sækja um
  • Að umsóknareyðublöð verði aðgengileg á www.islandsbanki.is

Umsókn skal vera á rafrænum eyðublöðum sjóðsins. Með umsóknum skal fylgja, eftir því sem við á, greinargóð lýsing á verkefninu, verk- og tímaáætlun, ítarleg fjárhagsáætlun (kostnaðar- og tekjuáætlun), upplýsingar um aðra fjármögnun verkefnis, ársreikningur og upplýsingar um eignarhald og rekstrarform.

2. gr. - Trúnaður og meðferð persónuupplýsinga

Umsóknir og þau viðhengi sem henni fylgja flokkast sem trúnaðargögn. Gögnin eru eingöngu notuð við mat á umsóknum og eru ekki aðgengileg öðrum en stjórnarmönnum sjóðsins og úthlutunarnefnd sem stjórn skipar. Öll umsóknargögn eru varðveitt í málaskrám sjóðsins. Ávallt skal verða að ósk umsækjanda um að eyða öllum gögnum sem tengjast umsókn viðkomandi eigi engar takmarkanir á þessum réttindum við.

3. gr. – Úthlutunarnefnd

Stjórn sjóðsins er heimilt að skipa úthlutunarnefnd sem fer yfir umsóknir og gerir tillögur til stjórnar um úthlutun styrkja.

Úthlutunarnefnd eða stjórn sjóðsins skal, eftir því sem tilefni er til, bera umsóknir undir sérfræðinga á því sviði sem sótt er um.

4. gr. - Úthlutanir úr sjóðnum

Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um úthlutun styrkja úr sjóðnum. Úthlutanir skulu vera í samræmi við tilgang og markmið sjóðsins. Tilgangur sjóðsins er að styrkja frumkvöðlaverkefni og nýsköpun í íslensku samfélagi sem hafa heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi.

Stjórn sjóðsins eða úthlutunarnefnd, sé hún skipuð, skulu tilkynna styrkþegum um styrkveitingu. Ekki skal tilkynna um styrkþega á vefsíðu bankans fyrr en styrkþegar hafa undirritað samning, skv. 5. gr. reglna þessara.

5. gr. - Samningur við styrkþega

Gera skal við styrkþega sérstakan samning sem eftir atvikum kveður á um fyrirkomulag greiðslu, skil á skýrslum og eftirfylgni, t.a.m. gerð framvindu-, áfanga- og/eða lokaskýrslna.