Störf í boði

Á ráðningavefnum getur þú sótt um auglýst störf eða lagt inn almenna starfsumsókn. 

Opna ráðningavefinn

Starfs­fólk Íslandsbanka


Það er viðhorf stjórnenda Íslandsbanka að fjárfesting í starfsfólki sé lykillinn að velgengni bankans og mikilvægt sé að byggja upp fjölbreyttan hóp starfsmanna sem býr yfir ólíkri reynslu, þekkingu og hæfileikum.

Íslandsbanki er krefjandi vinnustaður þar sem samvinna er lykillinn að árangri. Starfsfólk Íslandsbanka er hvatt til að sýna frumkvæði, axla ábyrgð, læra nýja hluti, koma með hugmyndir og sýna það besta sem í því býr. Fjárhagslegur styrkur bankans, ásamt þekkingu og hæfileikum starfsfólksins eru undirstaða fyrirtækisins og grunnurinn að framtíðaruppbyggingu þess.

Gerð feril­skrár


Engar heilagar reglur eru um ferilskrá. Um hana gilda mismunandi venjur eftir því í hvaða landi verið er að sækja um starf. Ferilskráin getur verið eitt mikilvægasta skrefið í atvinnuleitinni, sérstaklega ef hún er það fyrsta sem atvinnuveitandinn sér frá þér. Þess vegna er mikilvægt að vanda vel gerð hennar.

Ferilskrá er hugsuð til að vinnuveitandi geti séð hvort umsækjandi uppfyllir þær meginkröfur sem gerðar eru til starfsins. Ef til viðtals kemur mun gefast tækifæri til að fjalla nánar um það sem stendur í henni.

Ferilskrá er hugsuð til að kynna einstaklinginn; að skýra í grófum dráttum frá menntun, reynslu, áhugamálum og fleiru. Hún er einskonar ævi- og starfságrip í stuttu máli. Sérhver ferilskrá er persónubundin og hægt er að útfæra hana á margvíslegan hátt, þó er gott að halda sig við hefðbundið form í uppröðun upplýsinga. Einfalt og skýrt eru lykilorðin við gerð ferilskrár. Æskilegt er að hún sé ekki meira en ein til tvær síður. Lengd hennar miðast þó við hvort umsækjandi er nýkominn úr námi eða hefur verið lengi á vinnumarkaði.

Hér á eftir er að finna leiðbeiningar um hverjar þessar upplýsingar eru og framsetningu þeirra.

Uppbygging

Skipta má upplýsingum í ferilskrá í fimm megin þætti. Fyrst koma persónuupplýsingar, menntun og starfsferill. Þar á eftir er æskilegt að nefna félagsstörf, áhugamál eða önnur persónutengd atriði, þannig að sá sem les ferilskrána fái skýrari mynd af einstaklingnum. Í lokin þarf að tilgreina umsagnaraðila.

Mikilvægt er að leturgerðin sem notuð er sé skýr og kaflarnir vel afmarkaðir.

Persónuupplýsingar

Helstu persónuupplýsingar sem þurfa að koma fram eru:

  • Fullt nafn
  • Kennitala
  • Netfang
  • Heimilisfang
  • Símanúmer

Þessar upplýsingar eru yfirleitt settar upp í eins konar haus á bréfinu. Hér er einnig gott að skanna inn passamynd.

Undir þennan lið er einnig hægt að setja fleiri upplýsingar, t.d. um fjölskylduhagi, um reykingar eða annað það sem umsækjandi telur að skipti máli. Ef umsækjandi er að sækja um tímabundið starf eða hlutastarf er gott að það komi fram undir þessum lið.

Menntun

Þegar umsækjandi tilgreinir menntun sína er rétt að byrja á því námi sem hann lauk síðast þar sem það vegur væntanlega þyngst. Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram eru skóli, heiti náms, gráða, einkunnir og námstími. Einnig getur verið gott að tilgreina þau fög sem umsækjandi lagði áherslu á í námi. Ef umsækjandi hefur sótt námskeið sem hann telur að muni skipta máli í því starfi sem hann sækir um er upplagt að geta þeirra hér.

Starfsferill

Líkt og þegar getið er um menntun skal byrja á því starfi sem umsækjandi stundaði síðast. Helstu upplýsingar sem þurfa að koma fram eru vinnustaður, stöðuheiti og lengd í starfi. Gott er geta í örfáum orðum um ábyrgðarsvið og helstu verkefni í starfi.

Persónutengd atriði

Auk ofangreindra upplýsinga getur umsækjandi getið um annað sem skiptir máli, eins og tölvukunnáttu, tungumálakunnáttu, áhugamál, félagsstörf og markmið. Ef umsækjandi hefur ákveðnar skoðanir á því hvers konar verkefnum hann hefur áhuga á, eða telur sig vera sterkan á ákveðnum sviðum, er gott að geta þess í fáeinum orðum til að lesandi átti sig á því hvar innan fyrirtækisins kraftar hans myndu nýtast best.

Umsagnaraðilar

Vinnuveitendur óska eftir umsögn um umsækjanda frá aðilum sem geta nefnt bæði styrkleika hans og veikleika. Varast skal þó að gefa upp náin skyldmenni eða vini, þar sem þeir eru ekki í aðstöðu til að gefa hlutlausa umsögn. Umsagnaraðilar ættu að vera a.m.k. tveir og skal gefa upp nafn þeirra, stöðu og símanúmer. Ef atvinnuleit á að fara leynt í byrjun þarf að koma fram ef umsagna skuli ekki leita án samráðs við umsækjanda.

Starfs­viðtöl


Þegar kemur að því að meta umsækjendur í störf er algengt að valinn hluti umsækjenda sé boðaður í atvinnuviðtal.

Megin tilgangi atvinnuviðtals má skipta í þrjá þætti:

  • Auka við þær upplýsingar sem fyrir liggja um menntun og fyrri reynslu.
  • Leggja mat á hvers kyns eiginleika sem gert er ráð fyrir að tengist frammistöðu í starfi.
  • Kynna starfið og starfsheildina fyrir umsækjanda.

Mikilvægt er að líta á viðtalið sem tækifæri fyrir báða aðila til að miðla og safna upplýsingum. Umsækjandi ætti því að mæta í viðtalið með það að leiðarljósi að tilgangur viðtalsins er sá að aðilar kynnist betur hvor öðrum. Umsækjandi ætti því að vera tilbúinn að greina bæði frá styrkleikum sínum og veikleikum. Enginn er fullkominn og engum er greiði gerður með því að fá starf sem hann ræður ekki við.

Í viðtali byrjar vinnuveitandi yfirleitt á því að kynna megin innviði fyrirtækisins og hvað það hefur upp á að bjóða. Einnig er farið nánar yfir þær upplýsingar sem fram komu í atvinnuumsókn umsækjanda. Vinnuveitandi spyr gjarnan spurninga sem hjálpa honum að meta umsækjanda í ljósi verkþátta þess starfs sem á að fara að ráða í og einnig út í þá eiginleika sem viðkomandi þarf að hafa.

Áður en mætt er í viðtalið

Umsækjandi skal að sjálfsögðu gæta þess að mæta á réttum tíma og vera snyrtilegur til fara. Æskilegt er að umsækjandi hafi kynnt sér fyrirtækið eins vel og kostur er t.d. með því að skoða vef þess, ræða við starfsmenn innan þess ef hann þekkir einhverja og lesa umfjöllun um það í fjölmiðlum. Með þessu er hann betur í stakk búinn til að átta sig á því hverju fyrirtækið er að sækjast eftir og þar af leiðandi að koma á framfæri hvað af því hann hefur sjálfur upp á að bjóða.

Mjög gott er að undirbúa nokkrar spurningar um hvaðeina sem umsækjanda langar að vita um fyrirtækið og starfið sem hann sækist eftir. Undirbúningur umsækjanda fyrir viðtal segir nokkuð til um það hversu vel hann býr sig fyrir þau verkefni sem hann tekst á við í starfi og einkalífi. Spurningar umsækjanda eru ekki síður mikilvægar en spurningar vinnuveitanda og geta átt þátt í að vekja frekari áhuga vinnuveitandans. Til að koma í veg fyrir að spurningar gleymist er ágætt að punkta þær niður á minnisblað.

Augljóst er að ekki fá allir starfið sem komast í atvinnuviðtal. Umsækjandi sem ekki fær starf ætti þó að vera ánægður með að hafa komist í viðtal, líta á það sem viðurkenningu og nýta sér reynsluna í því næsta.