Framúrsk­ar­andi vinnu­stað­ur

Við störfum í krefjandi umhverfi þar sem verkefnin eru fjölbreytt og síbreytileg. Á sama tíma viljum við bjóða upp á gott og heilbrigt starfsumhverfi þar sem rík áhersla er lögð á jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.

Samheldinn og metnaðarfullur hópur 


Við leggjum mikla áherslu á að vinna saman af eldmóði og fagmennsku og lifa þannig gildin okkar.

Einu sinni á ári kemur allt starfsfólk bankans saman á stefnufundi. Þannig hefur hver og einn áhrif á stefnu og framtíðarsýn bankans. 

En umfram allt viljum við ná árangri og að það sé gaman í vinnunni. Við viljum að fólk fái að takast á við krefjandi verkefni, öðlist tækifæri til að þróast í starfi, finni fyrir sveigjanleika til að geta sinnt fjölskyldu og áhugamálum og líði almennt vel.

Starfsánægja og starfsumhverfi


Ánægt og áhugasamt starfsfólk er grunnurinn að góðri þjónustu. Þar af leiðandi leggjum við mikla áherslu á að skapa umhverfi sem styður við almenna velferð starfsfólks og gott upplýsingaflæði. Mikilvæg atriði í því samhengi eru fræðsla, jöfn tækifæri til starfsþróunar og öflugt félagsstarf.

Starfsumhverfið þarf að vera uppbyggilegt, laust við einelti og mismunun og verðlauna framtakssemi, frumkvöðlahugsun og framsýni.

Á hverju ári eru framkvæmdar vinnustaðagreiningar þar sem allir fá tækifæri til að viðra sínar skoðanir, meta sinn næsta yfirmann og starfsumhverfi sitt. Niðurstöður þessara greininga sýna að starfsandinn í Íslandsbanka er mjög góður og flestir upplifa bankann sem góðan vinnustað.

Heilbrigði og velferð


Við viljum að fólkið okkar sé heilsuhraust og að því líði vel. Þess vegna bjóðum við upp á heilsufarsmælingar, læknisheimsóknir og inflúensusprautur á haustin. Auk þess bjóðum við upp á ferskan og hollan mat og höldum sykurmagni í lágmarki.

Jafnframt höfum við unnið með hugtakið Orkustjórnun. Við höldum námskeið og þjálfum fólkið okkar í stjórnun á líkamlegri, tilfinningalegri og hugrænni orku. Með orkustjórnun nær starfsfólk meiri afköstum á styttri tíma og stuðla þannig að betra jafnvægi á milli vinnu og einkalífs.

Við tökum að sjálfsögðu þátt í heilsutengdum viðburðum á borð við Hjólað í vinnuna, Lífshlaupinu og Reykjavíkurmaraþoninu og hvetjum hvert annað til að taka þátt og styrkja góð málefni.

Frábært félagslíf


Íslandsbanki er lifandi og skemmtilegur vinnustaður, einfaldlega vegna starfsfólksins.

Bankinn og starfsmannafélagið stuðla að sérstaklega öflugu félagslífi. Við höldum árshátíð og jólagleði auk þess sem andinn í vinnunni er með líflegasta móti. 

Áhugamál starfsfólksins hafa einnig verið rík uppspretta félagslífs. Við starfrækjum fjölmarga hópa og klúbba á borð við göngu- og golfklúbb, sem eru alfarið stofnaðir og reknir af starfsfólki.

Starfsmannafélagið heldur utan um fjölskyldur starfsfólks með ýmsum viðburðum. Á sumrin er haldinn fjölskyldudagur þar sem við leikum okkur og njótum þess að eiga eftirminnilega stund saman. Um jólin höldum við jólaball fyrir börnin, jólabingó og svo má lengi telja.

Að lokum má nefna að einstaka deildir og svið eru dugleg að hrista sig saman og skapa þannig líflegt og skemmtilegt vinnuumhverfi.

Fræðsla og þjálfun


Það er nauðsynlegt að viðhalda hæfni og færni með sífelldri endurnýjun á þekkingu. Við bjóðum upp á rúmlega 300 námskeið og fræðslufundi á hverju ári. Meirihluti þeirra er í umsjón annars starfsfólks bankans. Þannig miðlum við sérþekkingu og heildin dafnar. 

Fræðslan er mjög fjölbreytt. Starfsfólki er skylt að sækja ákveðin námskeið starfs síns vegna, t.d. námskeið sem snúa að regluvörslu eða leiðtoganámskeið fyrir stjórnendur. Auk þess er boðið upp á fjölda námskeiða sem snúa að persónulegri styrkingu eða hjálpa starfsfólki að þróast í starfi, t.d. námskeið í verkefnastjórnun, tímastjórnun eða tölvufærni.

Stjórnendur á öllum stjórnunarstigum eru studdir með skipulegri leiðtogaþjálfun. Unnið er markvisst eftir hæfniþáttum stjórnenda Íslandsbanka sem skilgreina færni sem er líkleg til að skila árangri í stjórnun. Leiðtogaþjálfunin hefur það markmið að styrkja stjórnendur í þessum þáttum og hjálpa þeim að ná tökum á leiðtogahlutverki sínu. 

Þeir sem hefja störf hjá bankanum eru yfirleitt vel menntaðir þegar þeir bætast í hópinn, en hafa samt tækifæri til að halda áfram að læra og dafna í starfi. 

Jafnrétti


Jafnrétti er okkur hjartans mál en einn af styrkleikum bankans er mikil áhersla á jafnrétti kynjanna og að nýta til jafns þekkingu og hæfileika alls starfsfólks óháð kyni. Til að tryggja sem jöfnust tækifæri eru störf í auglýsingum ókyngreind. Ef karl og kona eru í lokaúrtaki um starf og þau eru jafn hæf er leitast við að ráða það kyn sem hallar á. Stefnt er að því að hafa sem jafnast hlutfall kynja á sviðum, deildum, nefndum, ráðum og stjórnum sem og í stjórnendastöðum. Í dag eru kynjahlutföll stjórnenda jöfn.

Starfsfólk hefur sambærilega möguleika til starfsþjálfunar, endurmenntunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum, þar sem það á við. Allt starfsfólk, óháð kyni, á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni.

Sveigjanleiki

Starfsfólki er gert kleift að samræma skyldur sínar gagnvart vinnu og fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið og þörf er á. Mismunandi fjölskylduaðstæðum, s.s. vegna veikinda barna eða umönnun aldraðra foreldra, er sýndur skilningur. Reynt er að lágmarka yfirvinnu og leitast er við að atburðir og námskeið séu haldin á vinnutíma þar sem því er við komið. Við endurkomu úr fæðingarorlofi stendur starfsfólki til boða sveigjanlegt starfshlutfall á fyrsta aldursári barnsins.

Jafnlaunavottun

Við erum stolt af því að hafa nú fengið faggilta vottun á jafnlaunastaðalinn ÍST85:2012. Vottunin staðfestir að unnið er markvisst gegn kynbundnum launamun og þannig stuðlað að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Við leggjum áherslu á að jafnlaunakerfi Íslandsbanka tryggi að ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Þessi vottun er eðlilegt framhald af þeirri vinnu sem unnin hefur verið innan bankans undanfarin ár en við fengum Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2016 og Gullmerki PwC 2015.