Er barn á leiðinni?

Alls kyns undirbúningur fylgir því að eignast barn og þá borgar sig að huga að fjármálunum. Það getur verið kostnaðarsamt að eignast barn en við bjóðum upp á ýmsa þjónustu þegar kemur að fjármálum og barneignum.

Lækkun á greiðslubyrði  í fæðingar­orlofi

Við bjóðum upp á lækkun á greiðslubyrði húsnæðislána í allt að 12 mánuði ef þú átt von á barni og ert á leiðinni í fæðingarorlof

Til að sækja um  lækkun á greiðslubyrði lána vegna fæðingarorlofs þarftu að senda okkur greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði. Við skoðum málið og látum þig svo vita þegar þú getur mætt til okkar og skrifað undir skilmálabreytingu á láninu. Kostnaður vegna skilmálabreytingar er samkvæmt verðskrá bankans hverju sinni.

Húsnæðisvernd

Fjölskyldan er eitt það mikilvægasta í lífinu og því skiptir máli að geta tryggt sínum nánustu fjárhagslegt öryggi við andlát.

Húsnæðisvernd er lánalíftrygging fyrir viðskiptavini með húsnæðislán hjá bankanum. Húsnæðisverndin tryggir aðstandendum þínum bætur ef þú fellur frá. Þú ákveður þá tryggingafjárhæð sem greiðist inn á húsnæðislánið þitt við fráfall. Allir á aldrinum 18-49 ára geta sótt um líftrygginguna og gildir hún til 70 ára aldurs. 

Fæðingarorlof


Þú átt rétt á fæðingarorlofi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Lengd orlofsins fer eftir því hvenær barnið fæðist, en nýlega hafa orðið breytingar á lengd orlofsins.

Fæðingarorlof

Orlofsréttur hvors foreldris um sig eru 6 mánuðir. Af þeim má þó framselja 6 vikur.

Við fæðingu barns verða mæður að taka 2 vikur. Annars er foreldrum frjálst að ákveða hvenær orlofið er tekið, en það fyrnist þó við tveggja ára aldur barnsins.

Foreldrar í vinnu sækja um orlof 6 vikum fyrir áætlaðan fæðingardag en foreldrar í námi eða utan vinnumarkaðar þurfa að sækja um með 3 vikna fyrirvara. Umsóknarferlið fer að mestu fram rafrænt á síðu Fæðingarorlofssjóðs og þar má finna allar frekari upplýsingar.

    Skoða nánar fæðingarorlof

    Fæðingarorlofsgreiðslur

    Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verða aldrei hærri en 80% af þínum tekjum og ekki hærri en 600.000 kr. Sjóðurinn reiknar meðaltekjur þínar yfir 12 mánuði, 18-6 mánuðum fyrir fæðingarmánuð og verða greiðslurnar miðaðar við þær. Einnig er hægt að dreifa greiðslunum yfir lengra tímabil.

    Í námi, minna en 25% starfi eða utan vinnumarkaðar átt þú rétt á svokölluðum fæðingarstyrk frá Fæðingarorlofssjóði. Til að eiga rétt á hámarksgreiðslum þurfa námsmenn að vera í 75-100% námi og standast kröfur um námsframvindu. Ekki er hægt að dreifa greiðslum til námsmanna yfir lengra tímabil.

    Notaðu reiknivél á vef Vinnumálastofnunar til að kynna þér betur upphæðirnar sem í boði eru:

      Reikna fæðingarorlofsgreiðslur

      Barnabætur


      Barnabætur þarf ekki að sækja um sérstaklega, þær eru tekjutengdar og greiðast þar sem barnið á lögheimili. Ef foreldrar eru giftir eða í sambúð skiptast bæturnar á milli þeirra, en ef foreldrar eru ekki í sambúð fær sá sem býr á lögheimili barnsins bæturnar. 

      Fæðingarstyrkur


      Sum stéttarfélög greiða félagsmönnum sínum fæðingarstyrk við fæðingu barns. Úthlutunarreglur og upphæðir styrksins eru mismunandi eftir stéttarfélögum. Þú skalt endilega kynna þér rétt þinn hjá þínu stéttarfélagi. Auk þess er oft veittur sérstakur ættleiðingastyrkur.

      Ýmiss kostnaður

      Það er ekki ódýrt að eignast barn.

      Á Íslandi er mæðravernd ókeypis en ef foreldrar velja að fara í snemmsónar og á undirbúningsnámskeið kostar það. Athugaðu hvort stéttarfélagið þitt niðurgreiði slík námskeið.

      Einnig þurfa foreldrar að eiga ýmsa hluti við komu barns, það er misjafnt hvað foreldrum finnst nauðsynlegt að eiga en hlutir á borð við bílstól, rúm, föt og bleyjur þurfa allir foreldrar að eiga. Ungabörn nota föt og ýmsa aðra hluti í skamman tíma svo kannaðu hvort það sé möguleiki að fá í láni hjá skyldmennum og vinum eða kaupa hlutina notaða. Það getur sparað þér talsverðar fjárhæðir.

      Að spara fyrir lækkandi tekjum

      Í fæðingarorlofi verður þú óumflýjanlega fyrir tekjutapi þar sem þú færð í mesta lagi 80% af laununum þínum.

      Í fæðingarorlofi verður þú óumflýjanlega fyrir tekjutapi þar sem þú færð í mesta lagi 80% af laununum þínum. Þú getur reiknað út þær greiðslur sem þú færð í orlofi á síðu Fæðingarorlofssjóðs. Ef þú sérð ekki fram á að geta orðið fyrir tekjutapi í orlofi er mikilvægt að byrja að spara sem fyrst. Reiknaðu út hverjar greiðslurnar verða og hvað þú þarft að spara mánaðarlega til að spara fyrir þessum tekjumissi. 

      Kynntu þér reglubundinn sparnað en það er markvissasta og árangursríkasta sparnaðarleiðin sem völ er á.

      Sparaðu fyrir börnin


      Gott er að nýta fleiri en einn sparnaðarkost en þannig má dreifa áhættunni og auka ávöxtunarmöguleika til framtíðar. Hægt er að ganga frá málunum með einföldum og þægilegum hætti hér á vefnum.