Líkt og við röktum nýverið hóf Seðlabankinn regluleg gjaldeyriskaup á ný í apríl síðastliðnum. Fyrst í stað námu þessi kaup 6 m.EUR á viku en 12. júní tilkynnti bankinn að kaupin yrðu tvöfölduð og myndu eftir það nema 12 m.EUR á viku, eða sem nemur u.þ.b. 1,7 ma.kr. á núverandi gengi. Tilgangur kaupanna er að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans sem minnkaði nokkuð á fyrri hluta faraldurstímans þegar bankinn seldi gjaldeyri inn á markað til þess að bæta upp lítið gjaldeyrisinnflæði frá ferðaþjónustunni. Hrein sala Seðlabankans á gjaldeyri á því tímabili, eða frá mars 2020 fram til apríl 2021, nam alls jafnvirði 172 ma.kr. en frá þeim tíma fram til apríl síðastliðins hafði Seðlabankinn á víxl beitt gjaldeyriskaupum og -sölu til að minnka skammtímasveiflur á markaði.
Seðlabankinn í aðalhlutverki á gjaldeyrismarkaði í júní
Gjaldeyriskaup Seðlabankans í júní voru þau umfangsmestu í rúm þrjú ár. Kaup bankans, ásamt gjaldeyriskaupum lífeyrissjóða hafa haldið aftur af styrkingu krónu undanfarið og minnkað hættu á skarpri veikingu krónu síðar.
Miðað við nýjustu gögn bankans hafa gjaldeyriskaup hans í júní verið enn meiri en ætla mátti miðað við framangreind regluleg kaup. Alls keypti Seðlabankinn evrur á gjaldeyrismarkaði fyrir 16 ma.kr. í júní, að því gefnu að bankinn hafi ekki keypt meira en sem nam reglulegum kaupum síðustu tvo viðskiptadaga mánaðarins. Regluleg gjaldeyriskaup Seðlabankans námu alls 5,2 ma.kr. eins og búast mátti við í ljósi tilkynninga bankans. Meira kemur á óvart að auk þeirra greip bankinn inn í gjaldeyrismarkað a.m.k. fjóra daga í mánuðinum. Samtals keypti bankinn evrur fyrir sem nemur 10,8 ma.kr. í júní að frátöldum reglulegu gjaldeyriskaupunum.
Þess má geta að hlutdeild Seðlabankans í heildarveltu á millibankamarkaði með gjaldeyri var tæp 50% í júní síðastliðnum og hefur hlutur bankans í heildarveltunni ekki verið hærri frá desember2020 þegar faraldurinn stóð sem hæst. Í krónum talið hefur Seðlabankinn ekki keypt meiri gjaldeyri í einum mánuði frá apríl 2022.
Gefið í gjaldeyriskaupin með hækkandi sól
Á fyrri helmingi ársins keypti seðlabankinn gjaldeyri á millibankamarkaði fyrir alls ríflega 28 ma.kr. með ofangreindum fyrirvara um síðustu daga júnímánaðar. Rúmur helmingur þeirra gjaldeyriskaupa átti sér stað í júní. Eins og sjá má af myndinni hafði Seðlabankinn ekki afskipti af gjaldeyrismarkaði fyrr en í lokaviku marsmánaðar þegar hann greip tvívegis inn í markað og keypti gjaldeyri fyrir samtals 3,4 ma.kr. Það sem eftir stendur af heildarfjárhæðinni, tæplega 25 ma.kr., kom því til vegna gjaldeyriskaupa á 2. ársfjórðungi.
Auk þess meginmarkmiðs gjaldeyriskaupanna að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans horfði bankinn til þess að aðstæður á markaði væru heppilegar fyrir gjaldeyriskaup, ekki síst í ljósi þess að lífeyrissjóðirnir hafa í tvígang fengið verulegar fjárhæðir í gjaldeyri vegna uppgjörs, annars vegar vegna kaupa JBT á Marel sem gerð voru upp í janúarbyrjun og hins vegar vegna samkomulags ríkissjóðs við eigendur HFF-skuldabréfa Íbúðalánasjóðs. Stærðargráða gjaldeyrisinnflæðis í sjóðina vegna þessa var líklega í kring um 100 ma.kr. í heildina. Það er svo skondinn þráður í þessari sögu að samkvæmt Peningamálum Seðlabankans í maí kemur hluti þessa fjár úr gjaldeyrisforða Seðlabankans, fer því stutta hringferð út í sjóðina og aftur inn í bankann með inngripum hans.
Lífeyrissjóðir eru alla jafna allstórir kaupendur gjaldeyris á hverjum tíma þar sem þeir hafa jafnt og þétt verið að auka erlendar eignir sínar, bæði vegna hreins innflæðis í sjóðina og eins til þess að auka vægi erlendra eigna í heildaeignasöfnum sínum. Á síðasta ári námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða þannig 84 ma.kr. og árið 2023 voru þau 83 ma.kr. Með öðrum orðum námu mánaðarleg gjaldeyriskaup sjóðanna 7 ma.kr. að jafnaði í mánuði hverjum þessi tvö ár.
Á fyrsta þriðjungi þessa árs námu mánaðarleg gjaldeyriskaup sjóðanna hins vegar aðeins tæpum 3 ma.kr. að jafnaði og virðist ljóst að fyrrgreint gjaldeyrisinnflæði í þá hefur haft áhrif á gjaldeyriskaup þeirra á markaði. Í maí brá hins vegar svo við að lífeyrissjóðirnir bættu talsvert í gjaldeyriskaup sín á nýjan leik og námu þau tæpum 8 ma.kr. Ekki liggja enn fyrir tölur um gjaldeyrisviðskipti lífeyrissjóða í júní.
Krónan í sumarskapi en róðurinn gæti þyngst í vetur
Þrátt fyrir veruleg og vaxandi samanlögð gjaldeyriskaup Seðlabankans og lífeyrissjóða á markaði hefur krónan verið í nokkrum styrkingarfasa að jafnaði þetta árið. Í lok júní hafði gengi krónu styrkst um ríflega 5% frá áramótum miðað við körfu helstu viðskiptamynta. Styrkingin er mismikil eftir myntum enda töluverð umbrot verið á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum. Þannig nemur styrkingin gagnvart evru (og danskri krónu) rúmum 2% á tímabilinu á meðan styrkingin gagnvart pundi er tæp 6% á sama tíma og styrkingin gagnvart Bandaríkjadollara ríflega 15%.
Þessi styrking er enn athyglisverðari í ljósi þess að verulegur halli var á utanríkisviðskiptum framan af ári. Viðskiptahalli var þannig tæpir 60 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins og fram komin gögn um vöruskipti ásamt vísbendingum um þróun þjónustujafnaðar benda til þess að hallinn hafi einnig verið töluverður á öðrum fjórðungi.
Nokkrar líklega skýringar er hægt að tína til á þessari þróun krónu:
- Verulegur hluti viðskiptahallans það sem af er ári er fjármagnaður erlendis beint eða óbeint og hefur því ekki í för með sér gjaldeyriskaup á markaði.
- Framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabankanna var með minna móti í upphafi háannar ferðaþjónustunnar í samanburði við síðustu ár. Þær gjaldeyristekjur sem streyma inn á háönn þetta árið eru því enn óseldar að mestu og líklegri til að valda styrkingu jafn óðum og þeim er skipt í krónur til þess að greiða laun og annan kostnað.
- Trúlega hefur talsvert innflæði verið í innlenda fjárfestingarkosti erlendis frá, bæði í vaxtaberandi eignir á borð við ríkisbréf og eins hlutafé.
Ætla má að styrking krónunnar á fyrri helmingi ársins hefði verið talsvert meiri ef Seðlabankinn hefði ekki gripið inn í markaðinn í þeim mæli sem raunin er. Þótt einhverjir kunni að velta því fyrir sér hvort ekki væri heppilegra fyrir bankann að fá frískari meðbyr frá sterkari krónu í baráttu sinni við verðbólguna teljum við að slíkt væri á endanum skammgóður vermir. Vísbendingar eru um að hátt raungengi krónu sé vaxandi áskorun fyrir útflutningsgreinar og talsverð óvissa er um vöxt og viðgang helstu útflutningsgreina, til að mynda ferðaþjónustu og sjávarútvegs, þegar kemur fram á næsta vetur. Eins og fram kemur í þjóðhagsspá okkar frá maí síðastliðnum gerum við ráð fyrir að þegar fram í sækir gefi gengi krónu eftir. Rísi krónan verulega á komandi mánuðum eykst að sama skapi hættan á því að fall hennar verði snarpara og sársaukafyllra þegar þar að kemur.