Hlýir sumarvindar blása um krónuna.. í bili

Gengi krónu hefur sótt nokkuð í sig veðrið upp á síðkastið þrátt fyrir talsverðan viðskiptahalla. Innstreymi gjaldeyris á sama tíma og gjaldeyriskaup lífeyrissjóða hafa verið lítil skýrir þá þróun og hefur Seðlabankinn í bili tekið við af lífeyrissjóðunum sem gjaldeyriskaupandi. Við gerum ráð fyrir því að meðvindur verði áfram með krónu næsta kastið en þegar frá líður aukast líkur á veikingu hennar jafnt og þétt enda raungengið orðið hátt.


Gengi krónu var tiltölulega stöðugt á síðasta ári þrátt fyrir talsverðan viðskiptahalla. Þótt nokkrar skammtímasveiflur yrðu á seinni helmingi ársins var gengið að jafnaði býsna svipað á árinu 2024 og á árinu þar á undan. Gengi krónu styrktist talsvert frá septemberbyrjun til áramóta þrátt fyrir halla á vöru- og þjónustuviðskiptum á lokafjórðungi ársins. Innstreymi fjármagns til verðbréfafjárfestinga, breyttar væntingar og hóflegt fjárfestingaútflæði eiga líklega mestan þátt í styrkingunni.

Svipuð þróun hefur einkennt fyrri helming þessa árs. Halli á utanríkisviðskiptum hefur verið verulegur það sem af er ári líkt og við fjölluðum nýlega um. Þrátt fyrir það hefur gengi krónu styrkst um tæp 3% gagnvart viðskiptaveginni körfu helstu gjaldmiðla frá ársbyrjun fram í miðjan júní. Sú þróun endurspeglar raunar mismikla styrkingu eftir gagnmyntum. Þannig var gengi krónu nánast það sama gagnvart okkar helstu viðskiptamynt, evrunni, um miðjan júní og í ársbyrjun. Á sama tíma hafði krónan hins vegar styrkst um 2,6% á móti breska pundinu og um ríflega 12% gagnvart Bandaríkjadollar.

Þessi munur endurspeglar þær miklu sveiflur sem hafa verið á innbyrðis gengi evrunnar og dollarans undanfarna fjórðunga, en frá áramótum hefur krossgengi þessara tveggja helstu gjaldmiðla heims farið úr 1,027 evrum fyrir hvern dollara upp í 1,155 evrur á dollarann. Það svarar til tæplega 13% hækkunar evru gagnvart dollar. Sambærilegar hreyfingar hafa orðið á gengi dollarans gagnvart öðrum helstu myntum og endurspeglar því þessi breyting fyrst og fremst veikingu dollarans á heimsvísu. Sú veiking tengist m.a. breyttu mati á efnahagshorfum í Bandaríkjunum, auknum vafa um hversu örugg eign bandarísk ríkisskuldabréf kunni að vera og áhyggjum af sveiflukenndri tollastefnu stjórnvalda.

Töggur í krónu þrátt fyrir viðskiptahalla

En hvað skýrir almenna styrkingu krónu á sama tíma og viðskiptahalli hefur verið jafn mikill og raun ber vitni? Í sem stystu máli hefur hallinn verið fjármagnaður að fullu, ýmist með beinum hætti í erlendri mynt eða með innstreymi gjaldeyris til fjárfestingar og lánveitinga hérlendis.

Til að mynda er talsverður hluti viðskiptahallans undanfarna fjórðunga til kominn vegna mikils innflutnings fjárfestingarvara. Sem dæmi má nefna að innflutningur fjárfestingarvara, að flutningatækjum undanskildum, var um 67% meiri í krónum talið á fyrstu fimm mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Þar munar ekki síst um uppbyggingu hjá gagnaverum en í nýlegri frétt Hagstofunnar kemur fram að „Mikinn vöxt í fjárfestingavörum má að verulegu leyti rekja til umfangsmikils innflutnings tölvuvara hjá fyrirtækjum sem reka gagnaver í landinu.“ Gagnaverin eru í erlendri eigu og fjármögnun þessarar uppbyggingar hefur verið í erlendum myntum. Þessi stórtæka uppbygging þeirra gæti jafnvel haft í för með sér eitthvert gjaldeyrisinnflæði þar sem greiða þarf innlendum aðilum fyrir vinnu og þjónustu í krónum.

Þá fylgdi verulegt gjaldeyrisinnflæði samruna Marel og bandaríska fyrirtækisins JBT sem gerður var upp í ársbyrjun. Gróft áætlað má til að mynda gera ráð fyrir að greiðslur í gjaldeyri til íslenskra lífeyrissjóða hafi numið jafnvirði allt að 50 ma.kr. vegna þessa uppgjörs. Þann 12. júní sl. fengu svo lífeyrissjóðirnir í sinn hlut jafnvirði ríflega 50 ma.kr. í gjaldeyri í tengslum við uppgjör á HFF-bréfum Íbúðalánasjóðs.

Þetta gjaldeyrisinnflæði í lífeyrissjóðina á vafalítið stóran þátt í því hversu hófleg gjaldeyriskaup þeirra hafa verið upp á síðkastið. Fram kom í nýlega birtum Peningamálum Seðlabankans að á fyrsta þriðjungi þessa árs hefðu hrein gjaldeyriskaup sjóðanna samtals numið tæpum 11 ma.kr., sem svarar til 2,7 ma.kr. í mánuði hverjum að jafnaði. Til samanburðar voru mánaðarleg nettókaup lífeyrissjóðanna á gjaldeyri að jafnaði rétt um 7 ma.kr. bæði í fyrra og árið 2023. Líklegt er að á komandi mánuðum verði gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna áfram hófleg í ljósi uppgjörsins á HFF-bréfunum en þeir hafa löngum leikið lykilhlutverk í að ráðstafa hluta af langtímasparnaði landsmanna erlendis og haldið þannig aftur af styrkingu krónu.

Seðlabankinn safnar gjaldeyri í sarpinn

Hófleg gjaldeyriskaup lífeyrissjóðanna um þessar mundir eiga vafalítið sinn þátt í þeirri ákvörðun Seðlabankans að hefja á ný regluleg gjaldeyriskaup í apríl síðastliðnum. Afskipti bankans af gjaldeyrismarkaði hafa verið með minnsta móti eftir að hann hætti um vorið 2021 reglulegri sölu á gjaldeyri sem ráðist var í á faraldurstímanum til að bregðast við rýrum gjaldeyristekjum frá ferðaþjónustu. Þó hefur Seðlabankinn stigið inn í markaðinn þegar einstök fjármagnsviðskipti hafa tímabundið valdið verulegu ójafnvægi í gjaldeyrisflæði. Bankinn stundaði hins vegar regluleg gjaldeyriskaup síðast á fyrri helmingi ársins 2017.

Í tilkynningu Seðlabankans segir (feitletrun okkar):

Meginmarkmiðið með gjaldeyriskaupunum sem nú verða hafin er að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans sem fjármagnaður er innanlands og mæta gjaldeyrisþörf ríkissjóðs. Rúmur gjaldeyrisforði hefur gegnt veigamiklu hlutverki í að viðhalda stöðugleika og auknum viðnámsþrótti þjóðarbúsins. Horfur eru á að hann minnki lítillega að öðru óbreyttu á næstu misserum vegna erlendra greiðslna sem Seðlabankinn sinnir fyrir hönd ríkissjóðs. Seðlabankinn metur það jafnframt svo að ríkjandi aðstæður séu hagstæðar til þess að hefja regluleg kaup og að þau muni ekki hafa teljandi áhrif á gengi krónunnar.

Þetta mat Seðlabankans var á rökum reist með hliðsjón af þróun krónunnar síðan og í raun hafa þessi kaup trúlega að einhverju leyti haldið aftur af því að krónan styrktist meira en orðið er frá áramótum. Kaupin námu framan af samtals 6 m. evra í viku hverri.

Frá apríl fram undir miðjan júní keypti Seðlabankinn samtals gjaldeyri að jafnvirði 7 ma.kr. Þann 12. júní tilkynnti bankinn hins vegar að gjaldeyriskaupin yrðu tvöfölduð næsta kastið, úr 6 m. evra í viku hverri upp í 12 m. evra. Miðað við núverandi gengi evru samsvarar það tæpum 7 ma.kr. á mánuði, eða sem samsvarar nokkurn veginn mánaðarlegum gjaldeyriskaupum lífeyrissjóðanna á árunum 2023-2024 eins og fyrr segir.

Meðvindur með krónu í bili en líkur á hóflegri veikingu síðar

Horfur eru á tiltölulega sterkri krónu fyrst um sinn. Háönn ferðaþjónustu er framundan og framvirk gjaldeyrisstaða er með minna móti sem bendir til þess að stórum hluta gjaldeyristekna sumarsins verði skipt í krónur. Samkvæmt gögnum Seðlabankans var hrein framvirk gjaldeyrisstaða viðskiptabankanna 104 ma.kr. í lok apríl. Til samanburðar var hreina framvirka staðan 161 ma.kr. í apríllok fyrir ári og tæpir 175 ma.kr. á sama tíma 2023. Hrein framvirk gjaldeyrisstaða bankanna endurspeglar hversu mikinn gjaldeyri viðskiptavinir þeirra hafa þegar samið um að selja á fyrirfram ákveðnu gengi á komandi mánuðum.

Þá eru líkur á áframhaldandi innflæði tengt verðbréfakaupum og öðrum fjárfestingum auk þess sem lífeyrissjóðir munu líklega kaupa fyrir fremur hóflegar fjárhæðir næsta kastið eins og fyrr segir.

Hins vegar virðist svigrúm til frekari styrkingar krónu án neikvæðra áhrifa á utanríkisviðskipti vera uppurið eins og fremur þrálátur viðskiptahalli er til marks um. Þó ber að hafa í huga að eins og lýst er hér að framan endurspeglar viðskiptahallinn undanfarið að töluverðum hluta miklar fjárfestingar, ekki síst í útflutningsgreinum. Hallinn er því minna áhyggjuefni en ella og raunar gerum við ráð fyrir því að betra jafnvægi komist á utanríkisviðskipti frá og með næsta ári.

Þó verður ekki litið fram hjá því að raungengi krónu nálgast söguleg hágildi. Raungengi endurspeglar það hversu „dýrt“ Ísland er í alþjóðlegum samanburði, eða m.ö.o. hversu samkeppnishæft þjóðarbúið er þegar tillit er tekið til verðlags og launakostnaðar. Þótt þjóðarbúið geti trúlega búið við hærra raungengi án ytra ójafnvægis þessa dagana en áður eru því takmörk sett hversu dýrt Ísland getur orðið í samanburði við umheiminn áður en hátt gengi veldur útflutningsgreinum verulegum búsifjum og raskar ytra jafnvægi þjóðarbúsins.

Við teljum að eftir því sem á spátímann líður aukist líkur á því að gengi krónu gefi eftir frá núverandi gildum. Spá okkar hljóðar upp á að gengi evru gagnvart krónu verði nærri 144 í lok þessa árs, í kring um 147 í árslok 2026 og í grennd við 150 í lok spátímans. Það jafngildir um að bil 4% veikingu krónu frá núverandi gildum. Væntanlega eiga svo skammtímasveiflur eftir að setja mark sitt á gengi krónu hér eftir sem hingað til, þótt talsvert hafi dregið úr flökti á gengi krónu síðustu misserin frá því sem áður var.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband