Viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi sá næstmesti frá upphafi

Mikill vöruskiptahalli og rýr þjónustuafgangur réðu mestu um að viðskiptahalli á 1. ársfjórðungi var sá næstmesti frá upphafi í krónum talið. Lækkandi álverð endurspeglast bæði í jákvæðri þróun frumþáttatekna og meiri vöruskiptahalla. Eftir umfangsmikla endurskoðun fyrri gagna mælist nú viðskiptahalli samfellt frá árinu 2021 en horfur eru á bata í utanríkisviðskiptum á komandi misserum.


Viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi þessa árs nam tæplega 60 ma.kr. Er það næstmesti halli sem mælst hefur samkvæmt gögnum Seðlabankans, sem birti gögn um greiðslujöfnuð fjórðungsins ásamt endurskoðun á eldri tölum nú í morgun. Aðeins mældist meiri halli í krónum talið á lokafjórðungi síðasta árs. Þessi mikli halli var viðbúinn í ljósi þess hversu vöruskiptatölur sýndu mikinn halla á fjórðungnum á sama tíma og samdráttur var í fjölda ferðafólks til landsins. Hér ber að geta þess að mikill vöruskiptahalli undanfarna fjórðunga skýrist ekki síst af afar myndarlegum innflutningi fjárfestingarvara. Þær vörur eru að stórum hluta tengdar uppbyggingu í útflutningsgreinum og eru því ekki áhyggjuefni í sjálfu sér.

Vöruskiptahallinn nam ríflega 85 ma.kr. en afgangur af þjónustuviðskiptum var tæpir 20 ma.kr. á fjórðungnum. Þá var hefðbundinn halli upp á ríflega 12 ma.kr. á rekstrarframlögum milli landa en sá undirliður er ávallt í halla og endurspeglar að stórum hluta framlög Íslands til alþjóðasamvinnu ásamt peningasendingum einstaklinga milli landa.

Jákvæður viðsnúningur var hins vegar á jöfnuði frumþáttatekna eftir þrjá samfellda fjórðunga af halla. Afgangur af þessum lið, sem endurspeglar flæði vegna launagreiðslna og endurgjalds fyrir fjármagn (þ.e. vaxtagjöld og hagnað/tap af hlutafé) milli landa, nam ríflega 18 ma.kr.

Skýringuna á þessum viðsnúningi er, líkt og fyrri daginn, að finna í þróun á fjármagnstekjum og -gjöldum vegna beinnar fjárfestingar milli landa. Þar leikur afkoma álveranna þriggja stórt hlutverk, en þau eru öll í erlendri eigu. Í greiðslujafnaðartölum Seðlabankans er afkoma álveranna færð til gjalda vegna beinnar fjárfestingar. Þegar þau skila tapi er þessi tala til frádráttar gjaldamegin og var það raunin í þetta skiptið.

Afkoma álveranna er svo vitaskuld nátengd þróun álverðs á heimsvísu, sem svo endurspeglast einnig í útflutningsverðmæti álafurða. Þannig er oftast talsverð fylgni milli þróunar álverðs annars vegar, og bæði vöruskiptajafnaðar og jafnaðar frumþáttatekna hins vegar.

Breytt mynd af viðskiptajöfnuði síðustu ára eftir endurskoðun

Sem fyrr segir voru sögulegar greiðslujafnaðartölur endurskoðaðar allt aftur til ársins 1995 samhliða birtingu nýrra gagna. Endurskoðunin kom samhliða sambærilegri endurskoðun Hagstofunnar á þjóðhagsreikningum sem við fjölluðum um nýlega. Alla jafna var endurskoðunin í áttina til hagfelldari viðskiptajafnaðar undanfarin 15 ár eða svo. Var það einkum vegna uppfærðs mats á þjónustuviðskiptum sem leiddi í ljós enn meiri afgang af slíkum viðskiptum á tímabilinu en áður hafði verið talið.

Undantekningin er árið 2023 þar sem jöfnuður frumþáttatekna var bókfærður til verri vegar sem nam um 3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Var það einmitt góðkunningi okkar, gjöld vegna beinnar fjárfestingar hér á landi, sem skýrði lungann úr þeirri endurskoðun. Er nærtækt að draga þá ályktun að betri reiknuð afkoma álveranna þriggja skýri þetta þótt það sé ekki nefnt sérstaklega í frétt Seðlabankans.

Þessi endurskoðun gefur þá niðurstöðu að í stað viðskiptaafgangs upp á 0,8% af VLF hafi verið viðskiptahalli sem nam 1,3% af VLF á árinu 2023. Hefur því viðskiptahalli mælst samfellt frá árinu 2021 samkvæmt hinum nýju gögnum Seðlabankans. Þá var viðskiptahalli í fyrra 0,2% meiri í hlutfalli við VLF en áður var talið.

Hafa ber í huga að ekki fylgir gjaldeyrisflæði öllum hreyfingum í viðskiptajöfnuði. Á það ekki síst við um jöfnuð frumþáttatekna þar sem reiknaður hagnaður eða tap af fjármagni endurspeglast ekki nema að hluta í flæði um gjaldeyrismarkað. Svipaða sögu má raunar segja af vöru- og þjónustujöfnuði að hluta, ekki síst þegar kemur að innflutningi á fjárfestingavörum eða t.d. tekjum og gjöldum af afnotum hugverka milli landa. Styrkingu krónu frá sínum veikustu gildum síðla árs 2020 á sama tíma og halli mældist á utanríkisviðskiptum samfellt síðustu 4 ár ber að skoða í því ljósi.

Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar förum við yfir horfur fyrir utanríkisviðskipti. Þar kemur fram að horfur eru á áframhaldandi viðskiptahalla næsta kastið. Vöruskiptahalli verður trúlega áfram verulegur og útlit er fyrir heldur minni afgang af þjónustuviðskiptum en í fyrra. Gerum við ráð fyrir að viðskiptahallinn muni nema 2% af VLF sem jafngildir um það bil 100 mö.kr.

Á seinni tveimur árum spátímans eru hins vegar horfur á þokkalegu jafnvægi á utanríkisviðskiptum. Áætlum við að viðskiptaafgangur nemi 0,2% af VLF árið 2026 og 0,6% af VLF árið 2027.

Batnandi viðskiptajöfnuð má að stórum hluta þakka minni vöruskiptahalla, ekki síst vegna tímabundins viðsnúnings í fjárfestingu og aukins útflutnings afurða hugvitsiðnaðar og fiskeldis. Auk þess áætlum við að þjónustuafgangur aukist lítillega og frumþáttatekjur verði umfram samsvarandi útgjöld á seinni hluta spátímans. Þá hjálpar lítilsháttar bati á viðskiptakjörum einnig til.

Ekki má þó mikið út af bera í undirliggjandi stærðum svo viðskiptahallinn verði ekki þrálátari. Til að mynda gæti meiri styrking krónu á komandi misserum en við gerum ráð fyrir orðið til þess að ýta undir innflutning og veikja samkeppnisstöðu útflutningsgreina okkar á alþjóðavísu. Þá er einnig nokkur hætta á að afleiðingar tollastríðs geti dregið úr spurn eftir útfluttum vörum og ferðalögum hingað til lands.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband