Samkvæmt nýlegum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var hagvöxtur 2,6% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þótt vöxturinn hafi verið fremur hóflegur á íslenska vísu er hér þó um að ræða hraðasta hagvöxt á einum fjórðungi frá þriðja ársfjórðungi 2023. Vöxturinn var að stærstum hluta drifinn áfram að kraftmiklum vexti fjárfestingar en aukin neysla og útflutningur studdi einnig við vöxtinn. Á móti vó hins vegar kraftmikill innflutningsvöxtur eins og oft vill verða þegar mikill gangur er í fjárfestingu sem kallar á mikinn innflutning aðfanga.
Kraftmikil fjárfesting veigamikil í myndarlegum hagvexti
Allmyndarlegur hagvöxtur á upphafsfjórðungi ársins var drifinn af fjárfestingu og einkaneyslu en neikvætt framlag utanríkisviðskipta vó á móti. Víðtæk endurskoðun á þjóðhagsreikningum síðustu áratuga flækir nokkuð túlkun á nýjustu tölum. Útlit er fyrir stigvaxandi hagvöxt á komandi misserum.
Fjármunamyndun óx alls um 18% á upphafsfjórðungi ársins. Mikill vöxtur var bæði í fjárfestingu atvinnuvega og íbúðafjárfestingu en hóflegur vöxtur var einnig í fjárfestingu hins opinbera. Hagstofan nefnir þó að um síðasttalda liðinn ríki veruleg óvissa. Þyngst vó tæplega 20% vöxtur atvinnuvegafjárfestingar en fram kemur í frétt Hagstofunnar að þar hafi fyrst og fremst verið um að ræða mikinn innflutning á tölvubúnaði fyrir gagnaver. Ársfjórðungstölur um fjárfestingu eru ávallt verulega sveiflukenndar en á heildina litið hefur verið talsverður kraftur í fjárfestingu atvinnuveganna allt frá vordögum 2021.
Þá jókst íbúðafjárfesting á milli ára um rúm 22% á fjórðungnum. Aukinn kraftur hefur færst í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði undanfarna fjórðunga eftir samfelldan samdrátt allt frá miðju ári 2021 fram á haustið 2023. Er það jákvæð þróun í ljósi þess hversu mikil undirliggjandi spurn hefur verið eftir íbúðarhúsnæði þótt aðhaldssöm peningastefna og ströng lánþegaskilyrði hafi haldið aftur af eftirspurnarþrýstingi upp á síðkastið.
Einkaneysla sækir í sig veðrið
Einkaneysla hefur sótt í sig veðrið undanfarið eftir tímabundinn samdrátt á seinni helmingi ársins 2023. Á fyrsta fjórðungi þessa árs mældist vöxtur hennar 2,3% að raungildi milli ára. Hefur vöxturinn ekki verið meiri í rúm tvö ár. Þessi allmyndarlegi vöxtur kemur þó ekki á óvart í ljósi þess að hagvísar á borð við kortaveltutölur og nýskráningar bifreiða bentu til þess að heimilin væru að losa um pyngjuna eftir talsverða aðhaldssemi í heimilisrekstrinum allt frá vorinu 2023 og fram á mitt síðasta ár.
Fram kemur í frétt Hagstofunnar að aukin kaup heimila á varanlegum neysluvörum á borð við bifreiðar sem og neysla tengd útgjöldum landsmanna á ferðalögum hafi einkennt þróunina í ársbyrjun. Mun hægari vöxtur var hins vegar í öðrum helstu þáttum einkaneyslunnar. Þá má nefna að kaupmáttur launa jókst um 3% á milli ára á fjórðungnum. Búast má við að einkaneyslan haldi áfram að sækja í sig veðrið á komandi fjórðungum enda er atvinnuleysi enn hóflegt, uppsafnaður sparnaður einstaklinga talsverður, kaupmáttur launa fer vaxandi og væntingar heimila hafa tekið við sér á ný eftir skammvinna dýfu í apríl.
Framlag utanríkisviðskipta neikvætt
Útflutningur tók við sér á fyrsta fjórðungi eftir samfelldan samdrátt í fimm fjórðunga þar á undan. Þar réði mestu að allmyndarlegur vöxtur mældist á þjónustuútflutningi en hann gaf umtalsvert eftir í fyrra. Alls óx þjónustuútflutningur um ríflega 7% en á sama tíma jókst vöruútflutningur um 2,5% milli ára. Þarna skipta raunar grunnáhrif miklu þar sem þjónustuútflutningurinn skrapp saman um nærri 11% á fyrsta fjórðungi 2024 á meðan vöruútflutningur jókst um tæplega 6% á sama tíma.
Athygli vekur að þjónustuútflutningur tengdur ferðaþjónustu jókst um tæp 5% í krónum talið þrátt fyrir að erlendum farþegum sem fóru brott af landinu um Keflavíkurflugvöll hafi fækkað um nærri 9% milli ára samkvæmt gögnum Ferðamálastofu. Vafi hefur leikið á áreiðanleika talningar ferðafólks á Keflavíkurflugvelli, sem og raunar gagna um gistinætur útlendinga, eins og talsvert hefur verið fjallað um á vefmiðlinum ff7. Bendir þróun þjónustutekna af ferðamönnum til þess að meiri gangur hafi verið í ferðaþjónustunni á upphafsmánuðum ársins en talningin á Keflavíkurflugvelli segir til um.
En þótt útflutningi hafi vaxið fiskur um hrygg á upphafsfjórðungi ársins var þó mun meiri kraftur í vexti innflutnings. Þar vegur ekki síst þungt veruleg aukning á innflutningi fjárfestingarvara þar sem fyrrnefnd fjárfesting gagnavera á stóran þátt. Vert er að hafa í huga að takmarkað gjaldeyrisflæði fylgir slíkri fjárfestingu þar sem hún er fjármögnuð erlendis.
Á heildina litið var því framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar neikvætt á fjórðungnum líkt og það hefur verið frá ársbyrjun í fyrra.
Víðtæk endurskoðun á þjóðhagsreikningum fyrri ára
Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta ársfjórðung birti Hagstofan endurskoðaða þjóðhagsreikninga allt aftur til ársins 1995. Talsverðar breytingar urðu á ýmsum liðum þjóðhagsreikninganna við þessa endurskoðun. Til að mynda telur Hagstofan nú að VLF hafi skroppið saman um 0,7% að raungildi í fyrra en fyrstu bráðabirgðatölur hljóðuðu upp á 0,5% hagvöxt. Þá er hagvöxtur áranna 2022-2023 sömuleiðis metinn lítið eitt minni en áður var talið en vöxturinn 2021 er nú metinn öllu meiri og samdrátturinn 2020 minni en fyrri tölur gáfu til kynna.
Þessi endurskoðun hefur áhrif á túlkun nýjustu talna. Til að mynda þarf að hafa til hliðsjónar að 2,6% hagvöxtur fyrsta ársfjórðungs er vöxtur frá nokkuð veikari grunni í fyrra en áður var talið. Má því segja að efnahagsumsvif séu ekki eins sterk um þessar mundir og spenna í hagkerfinu minni en ætla hefði mátt við fyrstu sýn. Þá má nefna að Seðlabankinn gerði í nýlega birtum Peningamálum ráð fyrir einungis 0,1% hagvexti á fyrsta ársfjórðungi en þar var að sjálfsögðu miðað við fyrri tölur og spá bankans er því nær lagi en ætla mætti í fljótu bragði. Þó sýnist okkur bankinn hafa verið heldur hóflegur í mati sínu á vextinum í ársbyrjun.
Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar er farið yfir sviðið hvað varðar hagvaxtarhorfur næstu missera. Þar ber raunar að hafa í huga að hagvaxtarspá þessa árs byggir á fyrri tölum Hagstofunnar og vöxturinn kann því að reynast meiri í ár fyrir vikið.
Við spáum því að hagvöxtur mælist 1,9% á þessu ári. Vaxandi einkaneysla á drýgstan þátt í þeim vexti en einnig leggst allmyndarlegur fjárfestingarvöxtur og hóflegur vöxtur útflutnings á vaxtarárarnar.
Næstu tvö ár eru horfur á að jafnt og þétt bæti í vöxtinn. Teljum við að hagvöxtur verði 2,3% árið 2026 og 2,9% árið 2027. Við spáum því að einkaneysla og útflutningur knýi vöxtinn bæði árin og munurinn á vaxtartaktinum milli þeirra skýrist að stærstum hluta af fjárfestingu, sem skreppur saman í spá okkar á næsta ári en tekur við sér á ný árið 2027.
Þótt spáin sé tiltölulega hagfelld geta ýmsir óvissuþættir breytt horfunum umtalsvert á komandi fjórðungum. Má þar nefna tollastríðið sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hófu snemma á þessu ári og sér ekki fyrir endann á. Fjallað er um möguleg áhrif tollastríðsins í viðauka við spána en í grunnspá okkar er gert ráð fyrir því að ekki verði gengið mikið lengra í að reisa tollamúra en þegar hefur verið gert. Þá ríkir enn ófriður bæði austast í Evrópu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Ekki er útséð um hvort ófriðaröldurnar muni magnast á næstu misserum.
Af innlendum óvissuþáttum má sem fyrr nefna framvindu eldsumbrota á Reykjanesi. Þá gætu tafir á aukinni orkuöflun síðar á spátímanum dregið úr fjárfestingarvexti þegar frá líður. Samspil framboðs og eftirspurnar á íbúðamarkaði er einnig óvissu háð þegar fram líða stundir. Loks má nefna að mannfjöldaþróun getur ráðið miklu um hvort spenna verður viðvarandi á íbúðamarkaði en í spánni gerum við ráð fyrir að hreinn aðflutningur fólks til landsins verði mun hægari en verið hefur síðustu ár.