Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Neyslugleði Íslendinga í hámarki í sumarbyrjun

Kortavelta landsmanna í júní var sú næstmesta frá upphafi og skýrir velta utan landsteinanna öran vöxt á milli ára. Vaxandi svartsýni almennings og hægari vöxtur kaupmáttar hefur ekki enn sýnileg áhrif á neysluvilja. Líklegt er þó að heimilin stigi á neyslubremsuna síðar á árinu.


Landsmenn straujuðu greiðslukort sín fyrir ríflega 113 ma.kr. í júní samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Veltan var sjónarmun minni en í maí þegar hún náði sögulegu hámarki. Að teknu tilliti til verðlags- og gengisbreytinga jókst kortaveltan um 10,4% á milli ára í júnímánuði. Sé borið saman við júní árið 2019 áður en faraldurinn sló á neyslu landsmanna er aukningin 19% á þennan mælikvarða.

Líkt og undanfarið skrifast vöxturinn milli ára fyrst og fremst á stóraukna veltu erlendis. Raunar skrapp kortavelta landsmanna innlands saman um ríflega 2% að teknu tilliti til verðbólguþróunar. Aftur á móti tvöfaldaðist nánast veltan erlendis.

Landsmenn ferðaglaðir eftir faraldur

Ferðagleði landsmanna hefur heldur betur rétt úr kútnum eftir dýfu í faraldrinum. Samkvæmt tölum Ferðamálastofnun fóru nærri 66 þúsund landsmenn af landi brott um Keflavíkurflugvöll í júnímánuði. Hafa utanlandsferðir Íslendinga aðeins tvisvar sinnum mælst fleiri á þennan kvarða, í júnímánuðum 2016 og 2018.

Aukin ferðagleði á sinn þátt í örum vexti kortaveltu á erlendri grund en eins og sjá má af myndinni kemur þó fleira til. Viðskipti Íslendinga við alþjóðlegar netverslanir hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og skýra slík viðskipti til að mynda að stórum hluta kortaveltu erlendis þegar faraldurinn stóð sem hæst og fáir landsmenn hættu sér út fyrir landsteinana.

Þrátt fyrir mikla kortaveltu landsmanna á erlendri grundu var júní þó fyrsti mánuðurinn frá september í fyrra þar sem gjaldeyrisinnflæði vegna greiðslukorta var meira en útflæði. Erlendum ferðamönnum hér á landi hefur fjölgað hröðum skrefum undanfarið eins og við fjölluðum nýlega um. Var júní fjölmennasti ferðamannamánuður frá haustinu 2019 og útlit er fyrir myndarlegan ferðamannastraum á komandi mánuðum. Kortaveltan ætti því áfram að orsaka hreint gjaldeyrisinnflæði á gjaldeyrismarkaði og vega gegn halla á vöruskiptum.

Aukin svartsýni þrátt fyrir neyslugleði neytenda

Áhugavert er að sjá hversu mjög hefur dregið í sundur með þróun kortaveltu annars vegar og væntinga neytenda hins vegar. Fylgni þessara stærða er oft umtalsverð og gefa mælingar á Væntingavísitölu Gallup gjarnan góða vísbendingu um skammtímaþróun kortaveltu og þar með einkaneyslu. Síðustu mánuði hefur þróun þessara stærða hins vegar verið býsna ólík: Væntingavísitalan hefur gefið verulega eftir á sama tíma og afar myndarlegur vöxtur hefur nælst í kortaveltu landsmanna. Þótt ekki sé hægt að útiloka að almenningur hyggist halda áfram neyslugleði sinni á sama tíma og svartsýni um efnahagshorfur eykst þykir okkur líklegra að einkaneyslan muni fylgja í kjölfar væntinganna með áþekkum hætti og árin 2018-2019. Eins og sjá má af myndinni óx kortavelta talsvert fram eftir árinu 2018 þótt væntingar væru farnar að minnka en á endanum gaf kortaveltuvöxturinn einnig eftir.

Væntingar almennings hafa væntanlega litast talsvert af þróun verðbólgu undanfarna fjórðunga. Vaxandi verðbólga hefur klipið í kaupmátt heimilanna og viðbrögð Seðlabankans orðið til þess að auka greiðslubyrði lána eða að minnsta kosti minna lántakendur á að þeir lágu íbúðalánavextir sem þeir kunna að hafa fest árin 2020-2021 muni hugsanlega reynast undantekning fremur en regla.

Stigið á neyslubremsuna eftir líflegan fyrri árshelming?

Kortavelta 2. ársfjórðungs ásamt öðrum hagvísum á borð við bifreiðakaup heimila, fjölda utanlandsferða o.fl. gefa skýra vísbendingu um að einkaneysluvöxtur hafi verið allmyndarlegur á fjórðungnum líkt og var á 1. ársfjórðungi. Dekkri væntingar, lakari kaupmáttarþróun og horfur á meira peningalegu aðhaldi munu hins vegar leggjast á eitt að hægja á einkaneysluvextinum eftir því sem lengra líður á árið. Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í maí sl. spáðum við einkaneysluvexti upp á 3,8% á yfirstandandi ári en 2,2% vexti næsta ár. Teljum við þá spá enn vera í fullu gildi.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband