Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Júní var fjölmennasti ferðamannamánuður í tæp 3 ár

Erlendir ferðamenn í nýliðnum júní voru fleiri en þeir hafa verið frá haustinu 2019. Ferðaþjónustan er að öðlast fyrri sess sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins eftir faraldur. Horfur eru á að erlendir ferðamenn verði í kring um 1,6 milljónir í ár.


Brottfarir erlendra ferðamann um Keflavíkurflugvöll voru ríflega 176 þúsund í júní síðastliðnum samkvæmt nýbirtum tölum frá Ferðamálastofu. Júní var þar með fjölmennasti ferðamannamánuðurinn á þennan kvarða frá september 2019, tæpu hálfu ári áður en Covid-19 faraldurinn skall af fullum þunga á heimsbyggðinni með tilheyrandi áhrifum á ferðaþjónustu hér sem annars staðar. Sé litið til júnímánaða undanfarinn áratug voru ferðamenn í nýliðnum júní um 90% af fjöldanum sem hingað kom júní 2019 og mánuðurinn sá fimmti fjölmennasti frá því ferðaþjónustunni fór að vaxa verulegur fiskur um hrygg.

Talsverð breyting hefur orðið á samsetningu ferðafólks hingað til lands eftir þjóðerni frá því faraldurinn reið yfir. Hafa Bandaríkjamenn verið nokkru stærri hluti þeirra sem sækja landið heim síðustu tvö ár en var að jafnaði árin þar á undan. Í júní voru ferðamenn frá Bandaríkjunum ríflega 30% af heildarfjölda ferðafólks og báru þar höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir. Næstir á eftir þeim komu Þjóðverjar (12% af heild) og í kjölfar þeirra Frakkar (6%), Bretar (6%), Pólverjar (4%) og Ítalir (4%). Þá má geta þess að ferðafólk frá Norðurlöndunum var samtals um 10% þeirra sem sóttu Ísland heim í júnímánuði.

Til samanburðar má geta þess að árið 2019 var ríflega 23% erlendra ferðamanna á Íslandi frá Bandaríkjunum og tæp 7% frá Þýskalandi. Bretar voru hins vegar rúm 13% heildarfjöldans og Kínverjar 7% það ár. Ferðafólk frá Kína hefur verið sjaldséð hér á landi frá upphafi faraldurs enda hafa kínversk stjórnvöld viðhaft strangar ferðatakmarkanir til og frá landinu. Á fyrri árshelmingi voru Kínverjar einungis 1,5% þeirra sem sóttu Ísland heim. Þess má geta að fólk frá Hong Kong og Taíwan er talið með fólki frá meginlandi Kína í gögnum Ferðamálastofu.

Bandaríkjamenn virðast gera betur við sig hérlendis en ýmsar aðrar þjóðir og er hlutfallsleg fjölgun þeirra því góðar fréttir fyrir tekjur ferðaþjónustunnar. Í nýbirtri skýrslu Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) kemur fram að kortavelta erlendra ferðamanna hér á landi í júní hafi verið sú mesta í júnímánuði frá upphafi. Alls nam veltan rúmum 28 ma.kr. og var 38,5% hennar frá Bandaríkjamönnum komin. Hækkandi gengi Bandaríkjadollars undanfarið gagnvart helstu gjaldmiðlum hefur aukið kaupmátt ferðafólks frá Bandaríkjunum á erlendri grundu og þar á meðal hérlendis. Til að mynda hefur dollarinn styrkst gagnvart íslensku krónunni um ríflega 6% frá áramótum en á sama tíma hefur gengi evru lækkað um tæp 6% og gengi breska pundsins um nærri 7% gagnvart krónu.

Ferðaþjónustan aftur í fyrsta sætið

Á 2. fjórðungi þessa árs komu samtals ríflega 391 þúsund ferðamenn til landsins um Keflavíkurflugvöll. Var fjórðungurinn þar með sá fjölmennasti frá lokafjórðungi ársins 2019. Auknum ferðamannastraumi fylgja vaxandi gjaldeyristekjur eins og nærri má geta. Samkvæmt gögnum Hagstofu voru útflutningstekjur vegna ferðalaga og farþegaflutninga með flugi 107 ma.kr. á þriðja fjórðungi síðasta árs en á því tímabili komu 370 þúsund ferðamenn til Íslands. Þá sýna nýbirtar tölur RSV að kortavelta erlendra ferðamanna hérlendis var tæplega 62 ma.kr. á 2F 2022 en á 3F 2021 var slík velta 66 ma.kr.

Það er því nærtækt að álykta sem svo að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar hafi verið álíka miklar á 2F þessa árs og á 3F 2021 enda ferðamenn öllu fleiri. Til samanburðar voru útflutningstekjur af sjávarafurðum og fiskeldi tæplega 101 ma.kr. og útflutningstekjur áliðnaðar 104 ma.kr. á tímabilinu. Ferðaþjónustan er samkvæmt þessu óðum að öðlast fyrri sess sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins og gerum við ráð fyrir því að hún taki fram úr fyrrnefndum vöruútflutningsgreinum í tekjuöflun á 3. ársfjórðungi.

Horfur á áframhaldandi fjölgun ferðafólks næsta kastið

Í Þjóðhagsspá okkar sem birt var í maí síðastliðnum spáðum við því að 1,5 - 1,6 milljónir ferðamanna muni sækja landið heim á þessu ári. Gangi spá okkar eftir er það svipaður fjöldi og var hér um miðjan síðasta áratuginn. Á næsta ári gerum við ráð fyrir 1,9 milljón ferðamönnum og 2,1 milljónum árið 2024.

Ferðamenn í maí og júní reyndust heldur fleiri en við höfðum gert ráð fyrir í spá okkar og horfur fyrir seinni hluta sumars eru einnig öllu betri en við áætluðum. Við teljum því líklegt að ferðamenn verði nær 1,6 milljónum í ár en hins vegar eru sem fyrr nokkrar blikur á lofti um hversu hröð fjölgun þeirra verður í kjölfarið.

Hægari fjölgun ferðamanna þegar frá líður í spá okkar skrifast meðal annars á hærra raungengi, sem gerir Ísland dýrara í samanburði við aðra áfangastaði, svo og horfur á hægari vexti eftirspurnar á heimsvísu sem dregur líklega nokkuð úr ferðavilja og -getu almennings bæði austan hafs og vestan. Efnahagshorfur á heimsvísu hafa raunar dökknað nokkuð frá því spáin var gefin út þótt þess sjáist góðu heilli lítil sem engin merki í ferðavilja hingað til lands enn sem komið er.

Undanfarin misseri virðist ferðahegðun fólks sem hingað kemur hafa breyst með þeim hætti að hver ferðamaður dvelur hér að jafnaði öllu lengur en var síðustu árin fyrir faraldur. Teljum við góðar líkur á að tekjur á hvern ferðamann verði áfram að jafnaði nokkru hærri á komandi misserum en var að meðaltali á síðasta áratug. Ferðaþjónustan mun samkvæmt þessu aftur festa sig í sessi sem stærsta útflutningsgrein landsins og á hraður vöxtur í greininni að okkar mati stóran þátt í þeim viðsnúningi frá viðskiptahalla til -afgangs sem við teljum vera framundan í þjóðarbúinu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband