Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Óvenju mikill viðskiptahalli og heldur lakari erlend staða á fyrsta ársfjórðungi

Viðskiptahalli á fyrsta ársfjórðungi var sá mesti frá fjármálakreppu enda reyndist talsverður halli á öllum helstu undirliðum. Horfur eru á að halli snúist í viðskiptaafgang eftir mitt ár. Erlend staða þjóðarbúsins rýrnaði nokkuð frá áramótum til marsloka og vegur lækkun á erlendum hlutabréfamörkuðum þar þungt ásamt styrkingu krónu.


Viðskiptahalli við útlönd var ríflega 50 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi 2022. Er það mesti viðskiptahalli sem mælst hefur í einum ársfjórðungi frá fjármálakreppunni 2008, séu slitabú föllnu bankanna undanskilin. Aldrei slíku vant var halli á öllum helstu undirliðum viðskiptajafnaðarins samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans, en eins og sjá má af myndinni hefur það ekki gerst í háa herrans tíð. Þessi mikli halli kemur okkur nokkuð á óvart þótt vissulega hafi halli á vöruskiptum (20 ma.kr.) og þjónustuviðskiptum (rúmlega 5 ma.kr.) verið talsverður líkt og við fjölluðum um nýlega. Við þann halla bætist að halli á frumþáttatekjum nam tæplega 16 ma.kr. og rúmlega 9 ma.kr. halli var á rekstrarframlögum til og frá landinu.

Afkomubati í orkufrekum iðnaði eykur þáttatekjuhalla
Mikill halli á frumþáttatekjum er megin skýring á því hversu lakari viðskiptajöfnuðurinn var á fyrsta fjórðungi þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Er það annar fjórðungurinn í röð þar sem verulegur halli er á þessum lið eftir nánast samfelldan afgang frá miðjum síðasta áratug. Í sem stystu máli endurspeglar jöfnuður frumþáttatekna launagreiðslur og fjármagnstekjur eða -gjöld á milli landa. Samkvæmt frétt Seðlabankans er skýringin á miklum halla nú fyrst og fremst bætt afkoma fyrirtækja í erlendri eigu en arðgreiðslur og endurfjárfestur hagnaður til erlendra eigenda íslenskra fyrirtækja kemur fram á gjaldahlið í jöfnuði frumþáttatekna.

Hér er væntanlega meðal annars vísað til álveranna þriggja og kísiljárnverksmiðjunnar við Húsavík. Hagur þessara fyrirtækja hefur vænkast mjög undanfarna fjórðunga með hækkandi verði afurða þeirra á heimsmarkaði. Að sama skapi koma auðvitað vaxandi tekjur þeirra fram á tekjuhlið vöruskiptajafnaðar. Eins og sjá má af myndinni hefur verulegur halli tekið við af talsverðum afgangi afgangi á þáttatekjum vegna beinnar fjárfestingar undanfarið en minni breytingar orðið á þróun annarra undirliða.

Úr halla í afgang eftir mitt ár

Þótt svo mikill viðskiptahalli stingi vissulega nokkuð í augu teljum við ekki ástæðu til að örvænta um ytra jafnvægi þjóðarbúsins. Útflutningsgreinar landsins eru margar hverjar í örum vexti þessa dagana. Á það sér í lagi við um ferðaþjónustuna en einnig fara tekjur sjávarútvegs, fiskeldis og orkufreks iðnaðar vaxandi þótt vissulega vegi hærra verð ýmissa innfluttra afurða nokkuð á móti. Þar á ofan teljum við að eftir því sem á árið líður dragi úr vexti fjárfestingar og einkaneyslu sem uxu hratt á fyrsta ársfjórðungi eins og við höfum fjallað um og þar með hægi á vexti innflutnings fjárfestingar- og neysluvara.

Segja má að skipta megi árinu í tvennt hvað horfur um viðskiptajöfnuð varðar. Líklega reynist allnokkur viðskiptahalli á 2. ársfjórðungi ef marka má þær hagtölur sem gefa vísbendingar um þróun hans. Á seinni helmingi ársins eigum við hins vegar von á því að afgangur taki við af viðskiptahalla. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar spáðum við því að viðskiptajöfnuður yrði nánast í jafnvægi þetta árið. Hinn mikli halli fyrsta fjórðungs gæti þó hnikað horfum fyrir árið allt aðeins niður fyrir núllið. Eftir sem áður eru að mati okkar horfur á að næstu tvö árin verði aftur afgangur af utanríkisviðskiptum líkt og var lengst af undanfarinn áratug.

Erlend staða þjóðarbúsins rýrnar nokkuð

Seðlabankinn birti einnig tölur um erlenda stöðu þjóðarbúsins í marslok samhliða greiðslujafnaðartölum. Hrein erlend staða þjóðarbúsins reyndist jákvæð um 32% af vergri landsframleiðslu (VLF) eða sem nemur 1.076 ma.kr. í lok mars. Aldrei slíku vant versnaði erlenda staðan nokkuð milli fjórðunga en hún nam rúmlega 38% af VLF um síðustu áramót. Þar réði mestu að virði erlendra eigna lækkaði um 302 ma.kr. vegna gengis- og verðbreytinga en á móti lækkuðu erlendar skuldir um 116 ma.kr. af sömu ástæðum.

Hér vegur væntanlega þungt að erlendir hlutabréfamarkaðir hafa verið fjárfestum mótdrægir frá áramótum, m.a. vegna hækkandi vaxtastigs, lakari efnahagshorfa og óvissu um framþróun stríðsins í Úkraínu. Til að mynda lækkaði heimsvísitala MSCI fyrir hlutabréf um ríflega 9% frá ársbyrjun til marsloka. Þessi þróun hefur til dæmis veruleg áhrif á erlendar eignir íslensku lífeyrissjóðanna sem að langstærstum hluta eru bundnar í hlutabréfasjóðum og einstökum hlutabréfum. Styrking krónu hefur auk þess áhrif á virði þessara eigna í krónum talið en í marslok var gengi krónu ríflega 3% sterkara en um áramót. Samsvarandi áhrif verða svo vitaskuld þegar krónan styrkist á skuldahliðinni að því marki sem skuldir gagnvart erlendum aðilum eru í erlendum gjaldeyri.

Erlendar eignir lífeyrissjóða skreppa saman um nærri 200 milljarða

Um síðustu áramót námu erlendar eignir lífeyrissjóða 2.410 ma.kr. en staðan hafði lækkað í 2.224 ma.kr. í lok mars þrátt fyrir að væntanlega hafi sjóðirnir keypt nokkuð af erlendum eignum á fjórðungnum. Þau kaup voru raunar með minna móti á fjórðungnum eins og fjallað var um nýlega á vef Innherja.  Eins og sjá má af myndinni endurspeglast hrein erlend staða þjóðarbúsins annars vegar í ríflega 2.000 ma.kr. hreinni eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum en hins vegar í 739 ma.kr. hreinni eign sem fellur undir liðinn „annað“. Þar vegur þyngst gjaldeyrisforði Seðlabankans. Á móti eru erlendar vaxtaberandi skuldir vegna lána og skuldabréfa 1.380 ma.kr. umfram eignir og bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi að frádregnum samsvarandi fjárfestingum innlendra aðila erlendis er 312 ma.kr. miðað við lok mars síðastliðins.

Þótt aðeins hafi slegið í bakseglin á erlendu stöðunni rétt eins og viðskiptajöfnuðinum er staðan eftir sem áður sterk og horfur fyrir hana allgóðar. Að því gefnu að afgangur taki við af viðskiptahalla á komandi misserum ætti erlenda staðan þannig að styrkjast að nýju, sér í lagi ef erlendir verðbréfamarkaðir rétta aftur úr kútnum með tímanum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband