Halli á þjónustujöfnuði reyndist 5,4 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins. Er þetta einungis í annað skiptið frá ársbyrjun 2009 þar sem halli er á þjónustuviðskiptum við útlönd en 8,3 ma.kr. halli var á jöfnuðinum á sama tímabili í fyrra. Útflutt þjónusta nam 112,9 ma.kr. á fjórðungnum og jókst hún í krónum talið um 90% á milli ára. Á móti keyptu Íslendingar þjónustu erlendis frá fyrir 118,3 ma.kr. á tímabilinu og jukust þjónustukaupin um 75% á milli ára.
Enn halli á viðskiptum við útlönd en bati í vændum
Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum nam 25 milljörðum á fyrsta fjórðungi ársins. Tekjur af ferðafólki eru þó teknar að aukast á ný eftir tekjuhrun í ferðaþjónustunni vegna Covid-19 faraldursins. Útlit er fyrir að halli snúist í afgang á utanríkisviðskiptum í ár og við taki viðskiptaafgangur næstu ár.
Líkt og oftast áður undanfarinn áratug eða svo skiluðu samgöngur, ferðalög og flutningar á milli landa myndarlegum afgangi. Afgangur af viðskiptum tengt samgöngum og flutningum reyndist tæpir 10 ma.kr. en afgangur vegna ferðalaga var tæpir 8 ma.kr. Á móti þessu vó að nærri 15 ma.kr. halli var á þjónustuviðskiptum sem falla undir flokkinn Önnur viðskiptaþjónusta hjá Hagstofunni. Má þar nefna rannsókna- og þróunarþjónustu, tækniþjónustu svo og sérfræði- og ráðgjafarþjónustu ýmiskonar. Einnig var talsverður hali á menningar- og afþreyingarþjónustu sem og tölvutengdri þjónustu. Þá skiluðu gjöld milli landa fyrir notkun hugverka einungis lítilsháttar afgangi en sá liður hefur verið býsna sveiflukenndur undanfarin ár líkt og sjá má á myndinni.
Tekjur af ferðafólki hafa aukist verulega á ný eftir að áhrif Covid-19 faraldursins á ferðavilja og -getu fóru að dvína á síðasta ári. Alls voru tekjur af erlendum ferðamönnum ríflega 52 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi og þar með lítið eitt minni en á lokafjórðungi síðasta árs. Rénun faraldursins hefur hins vegar einnig hleypt miklu lífi í ferðagleði landsmanna og útgjöld vegna utanlandsferða voru ríflega 36 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins. Viðskipti vegna ferðalaga milli landa skiluðu því u.þ.b. 16 ma.kr. afgangi á tímabilinu.
Á heildina litið var 25,4 ma.kr. halli á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Sem fyrr segir var halli á þjónustujöfnuði ríflega 5 ma.kr. en vöruskiptahalli reyndist 20 ma.kr. Hallinn á fjórðungnum var áþekkur og á sama tíma í fyrra en árin þar á undan hafði afgangur af þjónustujöfnuði ávallt vegið upp vöruskiptahalla á fyrsta ársfjórðungi og raunar oft gott betur eins og myndin sýnir.
Ferðaþjónustan sækir í sig veðrið
Fyrir faraldur hafði ferðaþjónustan fest sig í sessi sem stærsta útflutningsatvinnugrein landsins. Til að mynda skapaði greinin 35% af öllum útflutningstekjum þjóðarbúsins árið 2019 sem er svipað hlutfal og sjávarútvegur og áliðnaður skilaði samanlagt. Tekjur ferðaþjónustunnar hrundu svo þegar faraldurinn skall á og tóku vöruútflutningsgreinarnar þá á ný við keflinu sem stærstu uppsprettur gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið. Upp á síðkastið hefur ferðaþjónustan sótt í sig veðrið að nýju og á 1. fjórðungi ársins var hlutdeild tekna af erlendum ferðamönnum 15% af heildartekjum af útflutningi. Tekjur sjávarútvegs (24%) og áliðnaðar (26%) voru þó talsvert þyngri á metunum á tímabilinu.
Ekki má heldur gleyma öðrum þjónustuútflutningi en að ferðaþjónustunni undanskilinni námu tekjur af útflutningi þjónustu 17% af heildarútflutningi á fyrsta fjórðungi ársins. Er þar t.d. um að ræða ýmis konar rannsóknar- og þróunarþjónustu, tækniþjónustu, fjármálaþjónustu, flutningaþjónustu og gjöld fyrir notkun hugverka svo eitthvað sé nefnt. Tekjur af slíkum þjónustuútflutningi hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin ár og eru nú farnar að skipta verulegu máli í öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið.
Þáttaskil í utanríkisviðskiptum í ár
Í nýlegri þjóðhagsspá okkar er fjallað um þróun viðskiptajafnaðar og horfur fyrir komandi misseri. Þar leikur vöru- og þjónustujöfnuður stærsta hlutverkið. Viðskiptahalli nam 2,8% af vergri landsframleiðslu (VLF) í fyrra og var það í fyrsta skipti í níu ár sem halli var á utanríkisviðskiptum. Hins vegar er útlit fyrir bata á utanríkisviðskiptum þetta ár og hin næstu. Í raun má skipta þessu ári í tvennt hvað viðskiptajöfnuðinn varðar. Útlit er fyrir að fyrri helming ársins verði viðskiptahalli ráðandi en á þeim seinni snúist dæmið við og viðskiptaafgangur verði raunin. Má þakka það að stórum hluta vaxandi tekjum af ferðaþjónustu en auk hennar er útlit fyrir auknar tekjur af fiskeldi, uppsjávarveiðum, kísiljárnframleiðslu og ýmiskonar mannauðsfrekri þjónustu svo nokkuð sé nefnt. Má segja að bati á viðskiptajöfnuði haldist í hendur við tilfærslu frá innlendri eftirspurn til útflutnings sem helsta aflvaka hagvaxtar.
Við spáum því að vöru- og þjónustuviðskipti verði á heildina litið í jafnvægi á þessu ári en að afgangur af slíkum viðskiptum muni nema 70-80 ma.kr. á ári næstu tvö árin. Horfur eru því ágætar fyrir utanríkisviðskipti þótt faraldurinn og afleiðingar hans hafi tímabundið snúið afgangi í halla á viðskiptajöfnuði.