Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Einkaneysla, fjárfesting og ferðaþjónusta knúðu hagvöxt í ársbyrjun

Líflegur vöxtur innlendrar eftirspurnar ásamt bata í ferðaþjónustunni skýra bróðurpartinn af hröðum vexti landsframleiðslu á fyrsta fjórðungi ársins en mikill innflutningsvöxtur vegur á móti. Landsframleiðslutölurnar bera þess merki að hagkerfið er nú óðum að jafna sig eftir faraldurinn. Horfur eru á að útflutningsgreinar dragi hagvaxtarvagninn í vaxandi mæli eftir því sem líður á árið.


Verg landsframleiðsla (VLF) óx um 8,6% að raungildi á fyrsta fjórðungi ársins frá sama tímabili í fyrra. Þetta sýna nýlega birtar tölur Hagstofunnar. Er það hraðasti hagvöxtur á þennan mælikvarða í ríflega 5 ár, en rétt er að halda því til haga að ársfjórðungslegir þjóðhagsreikningar geta sýnt talsvert miklar sveiflur í einstökum fjórðungum auk þess sem hér er um bráðabirgðatölur að ræða. Tölurnar ríma hins vegar ágætlega við aðra hagvísa frá fyrsta ársfjórðungi sem hafa bent til þess að mikill gangur væri í hagkerfinu og áhrif Kórónukreppunnar færu ört dvínandi.

Myndarlegur vöxtur var bæði í innlendri eftirspurn og útflutningi. Fjármunamyndun óx þannig um rúm 20%, einkaneysla um nærri 9% og útflutningur um rúm 28%. Á móti vó hins vegar mikill innflutningsvöxtur, en innflutningur jókst í magni mælt um tæp 34% á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra. Framlag utanríkisviðskipta til vaxtar var því neikvætt þrátt fyrir hraðan vöxt útflutnings enda kallar hraður vöxtur bæði fjárfestingar og einkaneyslu á stóraukin innflutt aðföng.

Fjárfesting atvinnuvega í uppsveiflu

Fjármunamyndun tók hressilegan vaxtarkipp á 2. fjórðungi seinasta árs eftir djúpa dýfu fyrsta ár faraldursins.  Alls óx fjárfesting um tæplega 14% árið 2021. Áfram var verulegur gangur í fjárfestingu á 1. fjórðungi þessa árs. Það á sér í lagi við um fjármunamyndun atvinnuvega, sem jókst um rúm 38% á tímabilinu. Í frétt Hagstofu kemur fram að talsvert var fjárfest í flugvélum á tímabilinu að að flugvélum, skipum og stóriðjutengdri starfsemi frátöldu var vöxturinn samt sem áður rúm 19% á milli ára. Þá jókst fjármunamyndun hins opinbera um 1,4% á sama tíma.

Athygli vekur hins vegar að nærri 7% samdráttur mældist í fjármunamyndun í íbúðarhúsnæði á upphafsfjórðungi ársins. Samdráttur hefur mælst í íbúðafjárfestingunni samfellt frá miðjun síðasta ári en samtals minnkaði slík fjárfesting um ríflega 4% í fyrra. Þessi þróun er nokkurt áhyggjuefni í ljósi þess ójafnvægis og íbúðaskorts sem ríkt hefur á íbúðamarkaði undanfarið. Ekki teljum við þó rétt að túlka þessar tölur of sterkt að sinni enda eru ýmsar vísbendingar um að vaxandi kraftur sé í íbúðafjárfestingu og þykir okkur líklegt að vöxtur taki við af samdrætti fyrr en síðar.

Hraður vöxtur ferðaþjónustu eftir faraldurslægð

Ferðaþjónustan hefur sótt verulega í sig veðrið það sem af er ári, líkt og við höfum fjallað um í Korninu. Ferðamenn hér á landi voru 245 þúsund á fyrsta fjórðungi ársins, 20falt fleiri en á sama tíma 2021, og tekjur af erlendum ferðamönnum námu samtals 52 ma.kr. á tímabilinu. Þessi aukning vó þungt í nærri 81% vexti þjónustuútflutnings á milli ára. Þá óx vöruútflutningur um tæp 9% í magni mælt á milli ára. Alls jókst útflutningur vöru og þjónustu um rúm 28% sem fyrr segir.

Innflutningur hafði þó vinninginn hvað vöxtinn varðar á fyrsta ársfjórðungi. Vöruinnflutningur jókst um rúmlega 21% á tímabilinu frá sama tíma í fyrra og er það svipaður vaxtartaktur og verið hefur undanfarna fjórðunga. Framangreind flugvélakaup vógu talsvert þungt í aukningunni nú en fjárfesting í farartækjum hefur nánast samsvarandi en öfug áhrif á innflutningstölur og eru áhrif þeirra á hagvaxtartölur því lítil. Enn hraðari var svo aukning þjónustuinnflutnings enda tók ferðagleði landsmanna mikinn fjörkipp eftir verulegan samdrátt meðan faraldurinn geisaði á árunum 2020 og 2021. Alls óx þjónustuinnflutningur um nærri 69% á milli ára. Líkt og í þjónustuútflutningum var um hraðasta ársvöxt að ræða frá því Hagstofan tók að mæla ársfjórðungslega þjóðhagsreikninga árið 1995. Þar þarf þó vitaskuld að hafa í huga að ferðalög til og frá landinu lágu að mestu leyti niðri fyrir ári síðan, hvort sem um var að ræða Íslendinga eða erlenda ferðamenn.

Einkaneysluvöxtur á útivelli

Einkaneysla landsmanna tók hressilega við sér á síðasta ári, studd af vaxandi kaupmætti, batnandi atvinnuástandi, hagfelldu vaxtastigi, eignaverðshækkun, uppsöfnuðum sparnaði í faraldrinum og vaxandi bjartsýni á endalok hans eftir að bólusetningar fóru á fullan skrið. Hámarki náði neysluvöxturinn á lokafjórðungi síðasta árs, en þá mældist hann tæplega 13% að raungildi frá sama tíma 2020. Hefur einkaneysluvöxtur ekki mælst hraðari frá árinu 2005 en líkt og um þjónustuviðskiptin þarf að hafa í huga hversu sérstakar aðstæður voru mestan part ársins 2020.

Fyrrnefnd ferðagleði landans á fjórðungnum endurspeglast að sögn Hagstofu í því að verulegur hluti neysluvaxtarins tengdist erlendum ferðalögum og neysluútgjöldum utan landsteinanna. Bílakaup landsmanna jukust einnig umtalsvert á fjórðungnum frá sama tíma 2020 en samdráttur mældist hins vegar í ýmsum liðum sem höfðu verið áberandi hluti neyslu landsmanna í heimahúsum eins og húsbúnaði og innréttingum. Þá bera tölurnar með sér að landsmenn gerðu sér frekar glaðan dag á innlendum og erlendum öldurhúsum en heimavið, enda skrapp áfengissala til heimabrúks saman milli ára.

Úr eftirspurnardrifnum vexti í útflutningsdrifinn vöxt

Í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar gerum við ráð fyrir því að hagvöxtur reynist 5% á yfirstandandi ári. Eftir því sem á árið líður verður útflutningur í vaxandi mæli burðarás hagvaxtar en að sama skapi hægir á vexti innlendrar eftirspurnar, bæði fjárfestingar og neyslu. Tölur Hagstofu fyrir fyrsta fjórðung ríma því ágætlega við spá okkar fyrir árið 2022.

Á næsta ári spáum við 2,7% vexti og verður útflutningur á ný helsta rót vaxtar þótt bæði hægi á vexti útflutnings sem og innlendrar eftirspurnar á milli ára. Á lokaári spátímans, 2024, spáum við 2,6% hagvexti. Verður þá farið að draga verulega úr útflutningsvextinum og aðhaldssamari hagstjórn ásamt framboðsskorðum hægir á vaxtartaktinum í hagkerfinu.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband