Hefur aðhald peningastefnunnar minnkað?

Verðbólguvæntingar eru enn hærri á flesta kvarða en heppilegt væri og hafa ekki lækkað undanfarið á suma mælikvarða. Aðhald peningastefnunnar virðist því hafa minnkað eitthvað á síðustu fjórðungum þótt raunvextir séu enn háir. Líkur á frekari lækkun stýrivaxta á seinni helmingi ársins hafa minnkað.


Verðbólguvæntingar leika lykilhlutverk í framkvæmd nútíma peningastefnu enda vilja seðlabankar heims vera framsýnir og haga aðhaldi peningastefnunnar með framsýnum hætti fremur en líta um of í baksýnisspegilinn.

Verðbólguvæntingar er þó torvelt að mæla með nákvæmum hætti. Þó eru í stórum dráttum tvenns konar aðferðir til þess arna: Annars vegar spurningakannanir hjá mismunandi hópum og hins vegar verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Við síðarnefnda mælikvarðann þarf þó að hafa í huga að þættir á borð við óvissu um raunávöxtun óverðtryggðra bréfa og seljanleikaálag á mismunandi skuldabréf hefur þar einnig áhrif.

Á skuldabréfamarkaði hefur verðbólguálag þrálátt  verið umtalsvert hærra en sem nemur 2,5% verðbólguálagi Seðlabankans. Sér í lagi hefur verið seigt í langtímaálagi á þennan kvarða, sem gera má ráð fyrir að endurspegli að stórum hluta langtíma verðbólguvæntingar markaðsaðila auk þáttanna sem nefndir voru að ofan.

Þegar Seðlabankinn hóf vaxtalækkunarferli sitt í október í fyrra var 2ja ára verðbólguálag u.þ.b. 3,7%, 5 ára álag 3,8% og 5 ára álag eftir 5 ár, sem ætti að nema e.k. jafnvægisvæntingar markaðar á verðbólgu til lengri tíma, 4,1%. Við síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans, þann 21. maí sl., var 2ja ára álagið 3,6%, 5 ára álagið 4,0% og 5 ára álagið eftir 5 ár 3,8%. Álagið á þessa kvarða hafði því ekki lækkað í samræmi við 1,75 prósentu lækkun stýrivaxta sem orðið hafði frá því í fyrra haust.

Frá stýrivaxtaákvörðuninni í maí hefur langtíma verðbólguálag á markaði hækkað. 2ja ára álagið var 3,6% þann 20. júní sl., 5 ára álagið 4,0% og 5 ára álagið eftir 5 ár var 4,1%. Rétt er að ítreka að á tiltölulega grunnum og fábreyttum skuldabréfamarkaði eins og hinum íslenska þarf að taka verðbólguálaginu með talsverðum fyrirvara.

Langtíma verðbólguvæntingar enn háar

Ein leið til að reyna að átta sig á hversu mikið aðrir þættir en verðbólguvæntingar vega í verðbólguálagi er einmitt að bera álagið saman við væntingakannanir. Seðlabankinn framkvæmir ársfjórðungslegar kannanir á verðbólguvæntingum markaðsaðila og lætur auk þess, í samstarfi við SA, Gallup framkvæma slíkar kannanir á væntingum heimila og fyrirtækja. Peningastefnunefnd bankans lagði til að mynda í maí nokkra áherslu á að langtímavæntingar fyrstnefnda hópsins hefðu lækkað nokkuð í nýjustu könnuninni sem framkvæmd var snemma í maímánuði. Nýbirtar niðurstöður í könnunum hjá heimilum og stjórnendum fyrirtækja eru hins vegar nefndinni trúlega minna gleðiefni. Í sem stystu máli eru langtímavæntingar þessara aðila til verðbólgu óbreyttar frá könnuninni sem framkvæmd var á 1. ársfjórðungi. Telja stjórnendur fyrirtækja sem fyrr að verðbólga verði að jafnaði 3,5% næstu 5 ár en almenningur að verðbólgan verði 4,0% næstu 5 árin.

Raunar breyttust væntingar þessara aðila til meðalverðbólgu næstu 2 ár heldur ekki á milli kannana og hljóða upp á 3,5% verðbólgu í tilfelli stjórnenda fyrirtækja en 4,0% hjá almenningi. Verðbólguvæntingar almennings til 1 árs lækkuðu hins vegar úr 5,0% í 4,3% í nýjustu könnuninni á meðan fyrirtækjastjórnendur héldu sig við væntingar um 4,0% næsta árið líkt og í könnuninni á 1. fjórðungi. Hvorki almenningur né fyrirtækjastjórnendur virðast því deila aukinni bjartsýni markaðsaðila á skemmri tíma verðbólguhorfur.

Raunar virðist ekki vera fullt samræmi milli þeirrar auknu bjartsýni sem markaðsaðilar virðast bera til langtíma verðbólguhorfa í nýjustu væntingakönnun Seðlabankans og því hvernig þeir verðleggja verðbólguáhættu á skuldabréfamarkaði. Eins og fyrr segir hefur langtíma verðbólguálag lítið gefið eftir undanfarið á sama tíma og væntingarnar til 5 og 10 ára hafa lækkað undanfarið hálft ár. Vissulega kann hærra óvissuálag eða markaðsaðstæður að öðru leyti að skýra þennan mun en hann vekur vissulega athygli.

Raunstýrivextir háir en hafa þokast niður

Í fundargerð maífunda peningastefnunefndar er það nefnt að raunstýrivextir hefðu haldist í 4% undanfarið,  sem væri hæfilegt raunvaxtastig til að ná verðbólgu í markmið, því væri óhætt að lækka stýrivexti um 0,25 prósentur án þess að teljandi breytingar yrðu á taumhaldi peningastefnunnar. Það er því fróðlegt að skoða þróun raunvaxta undanfarið.

Okkur reiknast til að raunstýrivextir miðað við mælikvarða á skammtíma verðbólguhorfur séu á bilinu 3,1% - 4,1% um þessar mundir. Á þennan kvarða hafa raunstýrivextirnir lækkað um 0,7 prósentur það sem af er ári miðað við einfalt meðaltal framangreindra mælikvarða. Stýrivextirnir sjálfir hafa verið lækkaðir um 1 prósentu á sama tíma og virðist því aðhald peningastefnunnar hafa minnkað nokkuð frá áramótum og vera í lægra lagi miðað við framangreint viðmið peningastefnunefndar um 4% raunstýrivexti. Aðhaldið er þó eftir sem áður verulegt á þennan kvarða.

Það er einnig fróðlegt að bera stýrivextina saman við langtíma verðbólguvæntingar þótt vissulega sé þar verið að bera svolítið saman epli og appelsínur hvað tímarammann varðar. Þar má greina keimlíka þróun og í tilfelli skammtímavaxtanna þótt aðhaldið mælist vissulega meira þar sem langtíma verðbólguvæntingar eru þrátt fyrir allt skaplegri en skammtímavæntingarnar.

Okkur reiknast til að miðað við einfalt meðaltal langtíma væntinga séu raunstýrivextir um þessar mundir 3,9%. Í ársbyrjun voru raunvextirnir 5,0% á þennan kvarða og hefur því aðhaldið minnkað nokkuð í takti við lækkun stýrivaxta ef horft er með þessum gleraugum á þróunina.

Hins vegar hefur raunvaxtastig haldist hátt á markaði ef horft er til þróunar ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa.  Á þann mælikvarða eru 3ja ára raunvextir nú 4,1% og 10 ára raunvextir 2,9%. Hafa raunvextirnir á báða þessa kvarða hækkað um 0,2 – 0,3 prósentur og raunvaxtaaðhaldið hvað verðtryggðar skuldir varðar því ekkert gefið eftir það sem af er ári. Sú þróun endurspeglast einnig í vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum fjármálastofnana enda byggir verðlagning þeirra að verulegu leyti á markaðsvöxtum.

Síðasta stýrivaxtalækkun ársins að baki?

Sem fyrr segir hlýtur þróun verðbólguvæntinga almennt að verða peningastefnunefndinni nokkurt áhyggjuefni þegar hún kemur næst saman að loknu sumarfríi um miðjan ágúst. Þó ber vissulega að hafa í huga að fleiri þættir en verðbólguvæntingar hafa áhrif þegar þörfin fyrir aðhald peningastefnunnar er metin á hverjum tíma. Þar er hins vegar ekki margt sem rennir stoðum undir það að hætta sé að að aðhaldið sé að draga þróttinn verulega úr efnahagslífinu um þessar mundir.

Í nýbirtri könnun á væntingum stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins kemur til að mynda fram að flestir stjórnendur telja efnahagsástand fremur gott um þessar mundir og fleiri stjórnendur telja að horfur til næstu 6 mánaða séu góðar en þeir sem telja að ástandið muni versna. Stjórnendur fyrirtækja í sjávarútvegi skera sig raunar verulega úr hvað varðar meiri svartsýni en gengur og gerist, sem er skiljanlegt í ljósi áforma um stóraukna skattlagningu á greinina á sama tíma og horfur eru á einhverri lækkun heildar aflamarks á botnfiski milli ára.

Þá er töggur í einkaneyslu landsmanna eins og nýlegar kortaveltutölur, auknar nýskráningar bifreiða til einstaklinga það sem af er ári og verulegur vöxtur í utanlandsferðum eru til vitnis um. Aukinn kaupmáttur launa, tiltölulega sterkur vinnumarkaður og uppsafnaður sparnaður eru meðal áhrifaþátta hér.

Loks hafa horfur fyrir háönn ferðaþjónustunnar batnað upp á síðkastið. Apríl og maí voru nokkuð sterkir í sögulegu ljósi hjá greininni eftir laka ársbyrjun. Eftir sem áður er þó veruleg óvissa um komandi vetur og gæti hann reynst greininni talsverð áskorun.

Í nýlegri verðbólguspá okkar kemur fram að við spáum að jafnaði verðbólgu í kring um 4% efri vikmörk Seðlabankans út þetta ár. Í því samhengi má minna á þá framsýnu leiðsögn peningastefnunefndarinnar frá síðustu vaxtaákvörðun að ekki væru horfur á frekari lækkun stýrivaxta nema verðbólga hjaðnaði frekar frá núverandi gildum.

Við sögðum í viðbrögðum okkar við vaxtaákvörðun maímánaðar að þrátt fyrir hina sérkennilegu blöndu vaxtalækkunar og harðs tóns um þörfina á þéttu vaxtaaðhaldi ættum við von á hálfrar prósentu vaxtalækkun á seinni helmingi þessa árs. Við teljum hins vegar að líkur á frekari lækkun stýrivaxta þetta árið fari þverrandi í ljósi ofangreindrar þróunar, nema þá aðeins ef verðbólga og verðbólguvæntingar láti talsvert undan síga á komandi fjórðungum, nú eða þá að efnahagshorfur snúist umtalsvert til verri vegar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband