Hins vegar hefur raunvaxtastig haldist hátt á markaði ef horft er til þróunar ávöxtunarkröfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa. Á þann mælikvarða eru 3ja ára raunvextir nú 4,1% og 10 ára raunvextir 2,9%. Hafa raunvextirnir á báða þessa kvarða hækkað um 0,2 – 0,3 prósentur og raunvaxtaaðhaldið hvað verðtryggðar skuldir varðar því ekkert gefið eftir það sem af er ári. Sú þróun endurspeglast einnig í vöxtum á verðtryggðum íbúðalánum fjármálastofnana enda byggir verðlagning þeirra að verulegu leyti á markaðsvöxtum.
Síðasta stýrivaxtalækkun ársins að baki?
Sem fyrr segir hlýtur þróun verðbólguvæntinga almennt að verða peningastefnunefndinni nokkurt áhyggjuefni þegar hún kemur næst saman að loknu sumarfríi um miðjan ágúst. Þó ber vissulega að hafa í huga að fleiri þættir en verðbólguvæntingar hafa áhrif þegar þörfin fyrir aðhald peningastefnunnar er metin á hverjum tíma. Þar er hins vegar ekki margt sem rennir stoðum undir það að hætta sé að að aðhaldið sé að draga þróttinn verulega úr efnahagslífinu um þessar mundir.
Í nýbirtri könnun á væntingum stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins kemur til að mynda fram að flestir stjórnendur telja efnahagsástand fremur gott um þessar mundir og fleiri stjórnendur telja að horfur til næstu 6 mánaða séu góðar en þeir sem telja að ástandið muni versna. Stjórnendur fyrirtækja í sjávarútvegi skera sig raunar verulega úr hvað varðar meiri svartsýni en gengur og gerist, sem er skiljanlegt í ljósi áforma um stóraukna skattlagningu á greinina á sama tíma og horfur eru á einhverri lækkun heildar aflamarks á botnfiski milli ára.
Þá er töggur í einkaneyslu landsmanna eins og nýlegar kortaveltutölur, auknar nýskráningar bifreiða til einstaklinga það sem af er ári og verulegur vöxtur í utanlandsferðum eru til vitnis um. Aukinn kaupmáttur launa, tiltölulega sterkur vinnumarkaður og uppsafnaður sparnaður eru meðal áhrifaþátta hér.
Loks hafa horfur fyrir háönn ferðaþjónustunnar batnað upp á síðkastið. Apríl og maí voru nokkuð sterkir í sögulegu ljósi hjá greininni eftir laka ársbyrjun. Eftir sem áður er þó veruleg óvissa um komandi vetur og gæti hann reynst greininni talsverð áskorun.
Í nýlegri verðbólguspá okkar kemur fram að við spáum að jafnaði verðbólgu í kring um 4% efri vikmörk Seðlabankans út þetta ár. Í því samhengi má minna á þá framsýnu leiðsögn peningastefnunefndarinnar frá síðustu vaxtaákvörðun að ekki væru horfur á frekari lækkun stýrivaxta nema verðbólga hjaðnaði frekar frá núverandi gildum.
Við sögðum í viðbrögðum okkar við vaxtaákvörðun maímánaðar að þrátt fyrir hina sérkennilegu blöndu vaxtalækkunar og harðs tóns um þörfina á þéttu vaxtaaðhaldi ættum við von á hálfrar prósentu vaxtalækkun á seinni helmingi þessa árs. Við teljum hins vegar að líkur á frekari lækkun stýrivaxta þetta árið fari þverrandi í ljósi ofangreindrar þróunar, nema þá aðeins ef verðbólga og verðbólguvæntingar láti talsvert undan síga á komandi fjórðungum, nú eða þá að efnahagshorfur snúist umtalsvert til verri vegar.