Spáum óbreyttri verðbólgu í júní

Útlit er fyrir að verðbólga standi óbreytt á milli mánaða og mælist áfram 3,8% í júní. Verðbólgutakturinn mun líklega hjaðna aðeins í sumar en taka svo að aukast á ný með haustinu þegar einskiptisliðir vegna gjaldfrjálsra háskóla og skólamáltíða detta útúr mælingunni.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,5% í júní frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga standa í stað í 3,8%. Það sem skýrir mánaðarhækkunina að mestu er hækkun á húsnæðisliðnum auk árstíðabundinna hækkana á flugverði ásamt þjónustu hótela og veitingastaða. Við spáum því að ársverðbólga muni hjaðna lítillega í sumar en aukast aðeins á ný með haustinu og mælast í kringum vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%) út árið. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 27. júní næstkomandi.

Helstu hækkunarvaldar í júní

Við spáum 0,7% hækkun reiknaðrar húsaleigu í júní (0,14% áhrif á VNV) en liðurinn hefur hækkað nokkuð umfram spár nýverið. Hluta hækkunarinnar má líklega rekja til aukinnar skammtímaleigu þegar háannartími ferðaþjónustu gengur í garð en mun fleiri leigusamningar féllu úr gildi í maímánuði en mánuðina á undan samkvæmt gögnum HMS. Gangi spá okkar eftir mun leiguverð vega þyngst til hækkunar VNV í mánuðinum. Við gerum þó ráð fyrir að hækkun reiknaðrar húsaleigu muni að jafnaði mælast í nágrenni við 0,5% næstu mánuði.

Kunnuglegt stef ómar um flugfargjöldin en þau hækka venjulega yfir sumarmánuðina og þetta árið verður engin breyting á því. Við spáum 5,2% hækkun flugfargjalda í júnímánuði (0,12% áhrif á VNV) og þau vega því næst þyngst til hækkunar VNV í mánuðinum ef spá okkar gengur eftir. Þar er um að ræða áhrif aukinnar eftirspurnar eftir flugferðum enda stór hluti þjóðarinnar á leiðinni í sumarfrí og komur ferðamanna hingað til lands stóraukast á sama tíma af sömu ástæðu. Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkar í verði um 0,67% (-0,02% áhrif á VNV) þar sem lægra heimsmarkaðsverð á olíu á stærstan þátt. Síðustu daga hefur heimsmarkaðsverðið að vísu þokast lítillega upp á við en vegna lækkana undanfarna mánuði gerum við ráð fyrir áframhaldandi lækkun á eldsneytisverði næstu mánuði.

Annar liður sem hækkar alla jafna um sumartímann þegar háönn ferðaþjónustunnar gengur í garð eru hótel og veitingastaðir. Við gerum ráð fyrir 1,9% hækkun (0,10% áhrif á VNV) á milli mánaða sem er svipuð hækkun og í júnímánuði síðustu ár.

Hægir á hækkunum matvælaverðs

Spá okkar hljóðar upp á 0,27% verðhækkun matar- og drykkjar í júní (0,04% áhrif á VNV) en leiðandi dagvöruvísitala ASÍ hækkaði um 0,27% á milli maí og júní. Líklega munu innlendar vörur hafa þar mest áhrif til hækkunar en sterkari króna hefur m.a. haldið aftur af verðhækkunum innfluttra matvæla upp á síðkastið. Gangi spáin eftir er um að ræða minnstu verðhækkanir matvöru frá því í nóvember í fyrra þegar 0,04% lækkun mældist í liðnum. Líklega hafa áhrif launahækkana sem tóku gildi á fyrri hluta árs komið fram að mestu leyti ásamt áhrifum annarra kostnaðarhækkana. Við eigum þó ekki von á því að matvælaverð lækki að ráði á næstunni né standi í stað en væntum hægari verðhækkana en sést hafa nýverið.

Verðbólguhorfur á næstunni

Miðað við spá okkar mun ársverðbólga haldast óbreytt á milli mánaða og mælast áfram 3,8% í júní. Ársverðbólga hefur ekki mælst minni síðan í lok ársins 2020. Við gerum ráð fyrir að ársverðbólgan muni hjaðna áfram lítillega í sumar og mælast lægst 3,5%. Verðbólgutakturinn mun svo aukast aðeins með haustinu þegar einskiptisliðir frá síðasta hausti vegna gjaldfrjálsra háskóla og skólamáltíða detta útúr mælingunni. Bráðabirgðaspáin fyrir næstu mánuði lítur svona út:

  • Júlí: 0,2% hækkun VNV (3,5% ársverðbólga) - Útsöluáhrif vega á móti hækkun flugverðs.
  • Ágúst: 0,3% hækkun VNV (3,7% ársverðbólga) - Útsölulok en flugverð tekur að lækka. Niðurfelling skólagjalda í háskólum detta út úr ársmælingunni.
  • September: 0,2% hækkun VNV (4,2% ársverðbólga) - Áframhaldandi útsölulok og lækkun flugverðs. Ýmsar gjaldskrárhækkanir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir detta úr út ársmælingunni.

Gangi spá okkar eftir mun verðbólga því mælast 4,2% í september. Verðbólga mun svo vera í kringum vikmörk verðbólgumarkmiðsins (4%) út árið samkvæmt spá okkar. Við erum örlítið svartsýnni varðandi nærhorfurnar en í síðustu spá. Helsta ástæðan er að í bráðabirgðaspá gerðum við ráð fyrir minni hækkun í júní en mælingin leiddi í ljós. Stærsta óvissan varðandi næstu mánuði er að okkar mati reiknaða húsaleigan, en erfitt hefur reynst fyrir greiningaraðila að spá fyrir um þann lið sem síðustu mánuði hefur hækkað meira en spár gerðu ráð fyrir.

Á næsta ári eigum við von á því að verðbólga gangi áfram niður en láti svo til staðar numið rétt undir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans, í kringum 3,5%, sem er prósentu yfir verðbólgumarkmiðinu sjálfu. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 3,6% árið 2026 og 3,5% árið 2027.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.