Raunvöxtur kortaveltu í maí og útlit fyrir kröftugan einkaneysluvöxt á næstunni

Kortavelta heldur enn áfram að aukast þar sem erlend kortavelta sækir í sig veðrið. Nýjustu kortaveltutölur bera með sér merki um áframhaldandi aukningu einkaneyslu en hún jókst talsvert á fyrsta fjórðungi ársins. Horfur eru á áframhaldandi vexti einkaneyslu á næstu árum.


Allnokkur raunvöxtur kortaveltu mældist í maí og heildarvelta innlendra greiðslukorta var 141,5 ma.kr. í mánuðinum. Enn og aftur mældist raunvöxtur í veltu innanlands jafnt sem erlendis þar sem aukningin erlendis var talsvert meiri í prósentum talið, þróun sem hefur verið sterk undanfarin misseri. Kortaveltutölur síðustu mánaða hafa sýnt skýr merki um aukna einkaneyslu en bílakaup hafa einnig tekið við sér á árinu eins og lesa má úr gögnum um nýskráningar bifreiða til einstaklinga. Viðsnúningur í kaupum heimila á varanlegum neysluvörum ásamt stöðugum raunvexti kortaveltu benda til þess að einkaneysla vaxi umtalsvert á árinu.

Enn sækir kortavelta erlendis í sig veðrið

Kortavelta heimila innanlands jókst um 3,3% á milli ára leiðrétt fyrir verðlagi í maí síðastliðnum. Erlendis mældist vöxturinn nokkru meiri leiðrétt fyrir verðlagi og gengi, eða 18,1%. Á heildina litið var raunvöxtur kortaveltu heimila 6,4% í maímánuði. Framlag kortaveltu innanlands var 76,7% og framlag veltu utanlands 23,3% en síðustu misseri hefur framlag veltunnar innanlands dalað þar sem það var um og yfir 80% þar til fyrir um tveimur árum síðan.

Brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll voru 66.722 í maí samkvæmt gögnum Ferðamálastofu sem jafngildir rúmlega fjórðungi fleiri brottförum en á sama tíma í fyrra. Aukin ferðagleði og kortavelta erlendis haldast því í hendur.

Hvers vegna er kortavelta að aukast?

Nokkrir þættir hafa stuðlað að aukinni kortaveltu síðustu misseri. Kortavelta heimila erlendis hefur aukist mun hraðar en veltan innanlands en ferðagleði landans eftir heimsfaraldur ásamt aukinni erlendri netverslun stuðla aðallega að þeim vexti. Þá hafa kaup heimilanna á varanlegum neysluvörum dregist verulega saman í hávaxtaumhverfi síðustu ára og líklega hefur hluti fjármuna sem hefði verið varið í slík kaup leitað í aðrar tegundir einkaneyslu. Þjóðhagsreikningar síðasta árs gefa sterka vísbendingu um slíkt enda jókst einkaneysla aðeins um 0,8% í fyrra þrátt fyrir nánast samfelldan raunvöxt kortaveltu allt árið.

Háir vextir hafa hvatt til sparnaðar heimila sem mælist sögulega hár um þessar mundir. Sparnaðarstig heimila er ríflega 12% yfir meðaltali áranna 2015-2019 og fjárhagsstaða þeirra er sterk. Samhliða auknum sparnaði hafa vaxtatekjur heimilanna tekið fram úr vaxtagjöldum og hafa mælst meiri en vaxtagjöld síðastliðin tvö ár.

Flest bendir til áframhaldandi aukningar einkaneyslu næstu árin

Kortavelta hefur aukist að raunvirði alla mánuði ársins en aukning veltu erlendis í apríl var sú mesta frá upphafi. Þar hafa væntanlega áhrif af mismunandi tímasetningu páska milli ára bæst við myndarlegan undirliggjandi vöxt. Síðastliðin ár hafa heimilin haldið að sér höndum eftir því sem hátt vaxtastig fór að bíta. Í ár er hins vegar útlit fyrir nokkuð kröftugan vöxt einkaneyslu en við spáðum því í nýlegri þjóðhagsspá okkar að einkaneysla myndi aukast um 2,7% í ár, miðað við gögn um einkaneyslu á fyrsta fjórðungi ásamt nýbirtum kortaveltutölum teljum við líklegt að sú spá sé nærri lagi og einkaneysluvöxturinn verði nokkuð myndarlegur í ár.

Nýskráningar bíla hafa tekið við sér eftir ládeyðu síðasta árs og koma til með að vega til aukinnar einkaneyslu að okkar mati. Þá eiga kaup á öðrum varanlegum neysluvörum einnig eftir að taka við sér samhliða því að hluti þess mikla sparnaðar sem safnast hefur upp leitar út í aukna einkaneyslu þó óvíst sé hve hratt það gerist og að hvað miklu leyti. Veltur það vitaskuld ekki síst á umfangi vaxtalækkana á spátímanum en okkar spá hljóðar upp á 7,0% stýrivexti í lok árs og 5,0 - 5,5% í lok spátímans.

Á næsta ári eigum við von á áframhaldandi vexti en aðeins hægari þó og spáum 2,1%. Árið 2027 áætlum við að einkaneysla aukist um 2,6% samhliða lægri vöxtum og auknum kaupmáttarvexti.

Höfundur


Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband