Síðasta stýrivaxtalækkun ársins?

Vaxtaákvörðun morgunsins var óvenjuleg hvað það varðar að saman fór lækkun vaxta en allharður tónn um þörfina á þéttu vaxtaaðhaldi næsta kastið. Seðlabankinn býst nú við heldur hægari hagvexti en öllu meiri verðbólgu næstu misserin en hann vænti áður. Við teljum þó að lækkun vaxta sé ekki lokið þetta árið og að stýrivextir lækki um að minnsta kosti hálfa prósentu á seinni árshelmingi.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun vaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Nefndin ákvað að lækka vexti um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 7,5% og hafa ekki verið lægri í rúm tvö ár. Allir meðlimir nefndarinnar studdu ákvörðunina. 

Skoðanir greiningadeilda bankanna voru skiptar fyrir ákvörðunina. Við og Landsbankinn spáðum óbreyttum vöxtum en Arion og Kvika spáðu 0,25 prósenta vaxtalækkun. Væntingakannanir Viðskiptablaðsins og Innherja sýndu hins vegar ráðandi væntingar um vaxtalækkun. 

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar: 

  • Verðbólga var 4,2% í apríl og hefur minnkað töluvert frá því sem hún var mest fyrir tveimur árum. 
  • Samkvæmt nýbirtri spá Seðlabankans mun hún haldast nálægt 4% út árið en taka síðan að hjaðna í markmið. 
  • Óvissa um verðbólguhorfur er þó áfram mikil, ekki síst vegna nýlegra vendinga í alþjóðlegum efnahagsmálum. 
  • Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar. Spennan í þjóðarbúinu hefur því minnkað jafnt og þétt eins og sjá má á hægari umsvifum á húsnæðis- og vinnumarkaði. 
  • Enn virðist þó vera nokkur þróttur í efnahagsumsvifum sem endurspeglast m.a. í nýbirtum kortaveltutölum. 
  • Þá mælist töluverð hækkun launakostnaðar og þótt verðbólguvæntingar hafi lækkað eru þær áfram yfir markmiði. 

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar slær býsna harðan tón, er talsvert breytt frá mars og hljóðar svo: 

Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2½% markmiði bankans. (feitletrun okkar). 

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. 

Til samanburðar var framsýna leiðsögnin í mars svohljóðandi: 

Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum. 

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. 

Það er því sleginn nokkuð afdráttarlaus tónn að þessu sinni um að frekari lækkun vaxta verði að óbreyttu aðeins að því marki að verðbólgutakturinn minnki á komandi fjórðungum. Er óvenjulegt að jafn sterkt sé kveðið að orði í framsýnu leiðsögninni en vextir á sama tíma lækkaðir. 

Minni vöxtur, meiri verðbólga 

Ný hagspá Seðlabankans, sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni, er heldur svartsýnni á hagvöxt og verðbólgu en síðasta spá bankans sem út kom í febrúarbyrjun. Spáir Seðlabankinn nú 1,0% hagvexti í ár, 2,5% vexti næsta ár og 2,7% vexti árið 2027. Þó ber að hafa í huga að landsframleiðsla í fyrra reyndist nærri prósentu meiri að raungildi en bankinn áætlaði og efnahagsumsvifin í ár eru því í raun ámóta mikil í hinni nýju spá og í febrúarspánni. 

Þá gerir Seðlabankinn nú að jafnaði ráð fyrir 0,4% meiri verðbólgu á árunum 2025-2027 en í síðustu spá bankans. Verðbólga hjaðnar þó sem fyrr í átt að 2,5% verðbólgumarkmiðinu samkvæmt spánni og næst markmiðið á vordögum 2027 ef spáin gengur eftir.  

Þess má raunar geta að frá því vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í fyrrahaust hafa verðbólguspár bankans sjálfs dökknað allnokkuð. Þannig gerði bankinn í fyrrahaust ráð fyrir því að verðbólga í ár yrði 3,4% og 2,7% á næsta ári.  

Seðlabankinn tekur fram að óvissa um verðbólguhorfur hafi aukist, ekki síst vegna óvissu um framgang tollastríðsins sem stjórnvöld í Bandaríkjunum hóf fyrr á árinu. Óvissan sé þó nokkuð samhverf og því álíka miklar líkur á að verðbólgu sé vanspáð og að henni sé ofspáð. 

Er aðhaldið óbreytt? 

Eins og fram kom að ofan kom samspil vaxtalækkunar og harðrar framsýnnar leiðsagnar okkur nokkuð á óvart. Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina töldu stjórnendur bankans skilaboð peningastefnunefndarinnar hins vegar skýr og ekki til marks um að nefndin hefði breytt um stefnu frá vaxtaákvörðuninni í mars. Í því sambandi má rifja upp þessa klausu úr fundargerð fundar nefndarinnar í mars: 

Raunvextir bankans voru nær óbreyttir frá síðasta fundi en útlit var fyrir að þeir myndu hækka fram að næstu vaxtaákvörðun nefndarinnar vegna áframhaldandi hjöðnunar verðbólgu. Taldi nefndin því vera svigrúm til að lækka meginvexti bankans án þess að draga úr taumhaldi peningastefnunnar. Nefndin var hins vegar sammála um að þörf væri fyrir varkárni við slökun á peningalegu taumhaldi þótt spennan í þjóðarbúskapnum hefði minnkað undanfarið og verðbólga hjaðnað. 

Frá því þessi orð féllu hafa raunvextir ekki hækkað á flesta kvarða eftir því sem okkur reiknast til og raunar lækkað lítillega á einhverja þeirra. Þessi greining nefndarinnar í mars var ekki síst áhrifaþáttur í spá okkar um óbreytta stýrivexti að þessu sinni. Þarna virðist því hafa orðið einhver breyting á mati nefndarinnar í millitíðinni. 

Það hversu langt er í næstu vaxtaákvörðun virðist hafa leikið nokkuð hlutverk í ákvörðun nefndarinnar um að lækka vexti nú. Þrír mánuðir líða á milli ákvörðunar í maí og ágúst. Við teljum þetta langa hlé óheppilegt og ónauðsynlegt, sér í lagi þar sem stórir óvissuþættir á borð við tollastríð og horfur fyrir komandi vetur í ferðaþjónustunni skýrast vonandi nokkuð á komandi mánuðum. Væri heppilegra að minnka þetta bil milli þriðja og fjórða fundar nefndarinnar. 

Líkur á áframhaldandi lækkun vaxta í haust 

Sem fyrr segir kvað nefndin nokkuð afdráttarlaust að orði um að frekari lækkun stýrivaxta væri háð því að verðbólga hjaðnaði frekar. Raunar var enn fastar kveðið að orði á kynningarfundi um að talsverða hjöðnun verðbólgu þyrfti til þess að lækka vexti frekar. Við teljum þetta ekki ákjósanleg skilaboð í ljósi þess að peningastefnan á að vera framsýn og þær aðstæður gætu auðveldlega skapast síðar á árinu að tímabundnir þættir  á borð við veikingu krónu eða verðhækkun erlendis ýti upp verðbólgumælingunni á sama tíma og þættir á borð við væntingar og efnahagsþróun gæfu svigrúm til lækkunar raunvaxta. 

Þótt verðbólguspá Seðlabankans sjálfs gefi ekki tilefni til að ætla að stýrivextir verði lækkaðir frekar fyrr en nokkuð er liðið á næsta vetur teljum við líkur á því að svigrúm skapist fyrir frekari lækkun vaxta síðar á árinu. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 0,5 prósentu vaxtalækkun til viðbótar á seinni árshelmingi og að stýrivextir verði því 7,0% í árslok. Gætu vextirnir jafnvel lækkað heldur meira fram til áramóta ef fram koma skýr merki um að slaki sé farinn að myndast í hagkerfinu. Frekari lækkun vaxta er svo í kortunum á næsta ári samhliða kólnandi hagkerfi og einhverri frekari hjöðnun verðbólgu. 

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband