Gengisútreikningur íslensku krónunnar breytist 15. apríl

Núna um helgina verður innleidd hjá færsluhirðum um heim allan svokölluð ISO staðlabreyting á því hvernig gengi íslensku krónunnar er skráð. Breytingin felur í sér að hætt verður að nota tvo aukastafi við útreikning gengisins. 


Þannig kemur Mastercard til með að taka af aukastafi núna á laugardaginn 15.apríl, kl. 19:05 og því kynnu viðskiptavinir bankans þá að verða varir við ranga upphæð við kaup á vöru og þjónustu í íslenskri mynt á þeim tíma, hafi færsluhirðar ekki uppfært uppgjör sitt á réttum tíma.

Unnið hefur verið að því að áhrif breytinga á viðskiptavini verði sem allra minnst og heilt yfir ætti breytingin að ganga í gegn án þess að fólk verði hennar vart. En verði fólk vart við að röng upphæð birtist, sem myndi þá lýsa sér í tveimur auka núllum, ýmist til hækkunar eða lækkunar, þá bendum við á eftirfarandi:

  • Ef hætt er við að kaup vöru eða þjónustu þarf ekkert að aðhafast.
  • Ef haldið er áfram með kaup á vöru/þjónustu og rukkað er um ranga upphæð þarf fólk að bíða eftir því að færsla sé gerð upp (að hún hætti að vera á bið) og leita þá til seljanda vörunnar um leiðréttingu á upphæðinni, eða senda inn endurkröfubeiðni til Íslandsbanka.
  • Lendi viðskiptavinur bankans í greiðsluvanda við það að færsla á bið sé röng er hægt að leita til Neyðarþjónustu Íslandsbanka í síma 440-4000.

Áhrifa þessara breytinga gætir víðar. Til dæmis hefur PayPal þegar tilkynnt um stöðvun á allri notkun debet- og kreditkorta dagana 14. til 18. apríl. Því þurfa viðskiptavinir að bíða með kaup og óskir um endurgreiðslu með greiðslukortum á því tímabili.