Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ársuppgjör 2018

Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr afkomunni.


Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka á árinu 2018

  • Hagnaður eftir skatta var 10,6 ma. kr. (2017: 13,2 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 6,1% á ársgrundvelli (2017: 7,5%).
  • Hagnaður af reglulegri starfsemi var 12 ma. kr. (2017: 13,8 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 8,0% á ársgrundvelli (2017: 9,9%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru 31,9 ma. kr. (2017: 30 ma. kr.) sem er um 6,5% hækkun á milli ára og var vaxtamunur sami og í fyrra eða 2,9%.
  • Hreinar þóknanatekjur voru 12,2 ma. kr. (2017: 13,8 ma. kr.) sem er 11% lækkun á milli ára hjá samstæðu en þóknanatekjur móðurfélags og Íslandssjóða hækkuðu um 6% á milli ára.
  • Virðisbreyting fjáreigna skilaði 1,6 ma. kr. hagnaði á tímabilinu sem er sambærilegt við fyrra ár.
  • Stjórnunarkostnaður hækkaði lítillega á milli ára og nam 27,7 ma. kr. (2017: 27 ma. kr.).
  • Kostnaðarhlutfall samstæðu í lok árs 2018 var 66,3% samanborið við 62,5% á sama tímabili í fyrra, á meðan kostnaðarhlutfall móðurfélags var 60,4% en langtímamarkmið bankans er 55%.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 12% (91,4 ma. kr.) á árinu og voru 846,6 ma. kr. í lok árs 2018. Ný útlán voru 239 ma. kr. á árinu.
  • Innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 2,1% eða 11,9 ma. kr. á árinu og námu 579 ma. kr. í lok árs 2018.
  • Lausafjárstaða bankans er sterk bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum og umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Við árslok var lausafjárhlutfallið (LCR) 172% (2017: 142%) og fjármögnunarhlutfallið (NSFR) 114% (2017: 117%).
  • Vogunarhlutfall var 14,6% við árslok samanborið við 16,2% við lok árs 2017, sem telst hóflegt bæði í innlendum og erlendum samanburði.
  • Stjórn bankans leggur til að 5,3 ma. kr. af hagnaði ársins 2018 verði greiddir í arð til hluthafa. Greiðslan samsvarar um 50% af hagnaði ársins 2018 og er í línu við langtímastefnu bankans um 40-50% arðgreiðsluhlutfall.
  • Bankinn birtir ársskýrslu og áhættuskýrslu á sama tíma og ársreikning fyrir árið 2018.

Hægt er að nálgast gögnin hér:

Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs (4F18)

  • Hagnaður eftir skatta var 1,4 ma. kr. (4F17 3,1 ma. kr.).  Arðsemi eigin fjár var 3,2% á ársgrundvelli (4F17: 6,9%).
  • Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 2,1 ma. kr. (2017: 3,6 ma. kr.) og var arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) 5,3% á ársgrundvelli (4F17: 10,3%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru 8,3 ma. kr. (2017: 7,3 ma. kr.) og var vaxtamunur 3% (4F17:2,8%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 3,5 ma. kr. (4F17: 3,6 ma. kr.).

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

"Á árinu 2018 var stafræn þróun í forgangi hjá okkur í Íslandsbanka þegar við innleiddum nýtt grunnkerfi sem er stærsta tækniverkefni bankans frá stofnun og kynntum til leiks fjölmargar nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini okkar.

Við erum glöð að mælast aftur hæst hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu á Íslandi og sjötta árið í röð hlýtur Íslandsbanki Íslensku ánægjuvogina. Við munum halda áfram að bjóða trausta og framúrskarandi þjónustu og gera viðskiptavinum okkar kleift að sinna bankaviðskiptum sínum, hvar og hvenær sem er.

Sterkur vöxtur var í lánabókinni sem jókst um 12% á árinu og við sáum kröftuga aukningu í fyrirtækjalánum en kannanir hafa einmitt sýnt fram á forystu Íslandsbanka þegar kemur að ánægju með þjónustu til fyrirtækja.Við höfum markað okkur stöðu sem leiðandi aðili í sambankalánum auk þess sem fyrirtækjaráðgjöf og gjaldeyrismiðlun bankans áttu frábært ár og dótturfélag okkar Íslandssjóðir setti á laggirnar fyrsta innlenda græna skuldabréfasjóðinn.

Afkoma bankans og Íslandssjóða var ágæt á árinu og skilaði samstæðan hagnaði upp á 10,6 ma. kr. en erfiður rekstur annarra dótturfélaga dró heldur úr afkomunni. Fjármögnun bankans var vel heppnuð á árinu og er lausafjárstaðan sterk í bæði íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum, áhætta bankans er áfram hófleg og henni vel stýrt.

Undanfarin ár höfum við einblínt á að nútímavæða bankann og byggja upp ábyrga viðskipta- og áhættumenningu. Við ætlum að halda þeirri vegferð áfram á nýju ári með því að ráðast í stefnumótun sem við erum viss um að muni skila sér í enn betri banka til hagsbóta fyrir samfélagið allt. 

Við fögnum útgáfu nýrrar hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út í lok síðasta árs sem staðfestir hve miklar umbætur hafa átt sér stað í íslensku bankakerfi á undanförnum árum.  Hvítbókin bendir einnig á þunga skattbyrði íslensks bankakerfis sem hefur fyrst og fremst bitnað á íslenskum neytendum og vonumst við til að sjá breytingar hvað þetta varðar."

Helstu atriði úr rekstri fjórða ársfjórðungs (4F18)

Fjárfestatengsl

Símafundur með markaðsaðilum á ensku kl. 9.30
Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn 14. febrúar kl. 9.30. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans.

Fundurinn verður á ensku.
Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Afkomufundur á íslensku kl. 10.30

Afkomufundur með innlendum markaðsaðilum verður haldinn 14. febrúar, kl. 10.30 í höfuðstöðvum Íslandsbanka að Hagasmára 3, 201 Kópavogi á 9. hæð. Fundurinn verður á íslensku.

Vinsamlegast skráið ykkur á afkomufundinn með pósti á: ir@islandsbanki.is

Myndband


Hér má sjá myndband þar sem Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka segir frá uppgjörinu:

Nánari upplýsingar veita


Gunnar Magnússon

Fjárfestatengsl


Senda póst
+354 440 4665

Edda Hermannsdóttir

Samskiptastjóri


Senda póst
+354 440 4005