Íslandsbanki fjárfestir í Meniga fyrir 410 milljónir króna

Íslandsbanki hefur fjárfest fyrir 3 milljónir evra í hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga – tæpum áratug eftir að hafa gerst fyrsti viðskiptavinurinn.


Íslandsbanki hefur fjárfest fyrir 3 milljónir evra, eða sem nemur um 410 milljónum króna, í íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Meniga. Íslandsbanki gerðist fyrsti viðskiptavinur Meniga árið 2009 þegar bankinn innleiddi heimilisbókhaldslausnir Meniga. Árið 2017 víkkaði samstarfið enn frekar þegar fyrirtækin kynntu sameiginlega ‚Fríðu‘, nýtt fríðindakerfi Íslandsbanka. Fjárfestingin verður notuð til að styrkja samstarfið enn frekar og til að bjóða viðskiptavinum betri vörur og þjónustu. 
Fjárfestingin verður kynnt nánar á fjártækni- og bankaráðstefnunni FIN42 í Hörpu í dag, sem skipulögð er af Meniga í samstarfi við Íslandsbanka.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka: “ Það er stefna Íslandsbanka að bjóða viðskiptavinum okkar stöðugt betri þjónustu. Fjárfestingin er liður í að styrkja sambandið við Meniga sem hefur verið einstaklega gott í um áratug og er hluti af stafrænu vegferð okkar þar sem við viljum efla þróun fjártæknilausna framtíðarinnar enn frekar. Við teljum að samstarfið við Meniga spili stórt hlutverk í að bæta notendaupplifun viðskiptavina okkar í gegnum snjallsíma og netbanka.”

“Við erum mjög ánægð að bjóða Íslandsbanka velkominn sem fjárfesti í Meniga og hlökkum til að vinna áfram náið með bankanum. Það er virkilega ánægjulegt að sjá bankann fjárfesta í Meniga í ljósi þess að fyrir rétt tæpum 10 árum varð bankinn fyrsti viðskiptavinur Meniga. Við erum virkilega spennt yfir þeim metnaði sem Íslandsbanki hefur sýnt til að bjóða viðskiptavinum sínum betri þjónustu og notendaupplifun.” segir Georg Lúðvíksson, forstjóri og einn stofnenda Meniga.

Íslandsbanki er þriðji bankinn til að fjárfesta í Meniga á árinu. Í apríl var tilkynnt um þriggja milljóna evra fjárfestingu norræna viðskiptabankans Swedbank í fyrirtækinu og í júní var greint frá því að alþjóðlegi bankinn Unicredit hefði fjárfest í Meniga fyrir sömu upphæð.