Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Viðskiptaafgangur tók við af halla á öðrum ársfjórðungi

Viðskiptaafgangur á öðrum fjórðungi ársins vó að stærstum hluta upp halla á fyrsta fjórðungi og var því nánast jafnvægi á utanríkisviðskiptum á fyrri helmingi ársins. Myndarlegt ferðaþjónustuvor og afgangur af frumþáttatekjum eiga þar stóran hluta að máli og vega upp verulegan halla á vöruskiptum. Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur styrkst talsvert frá áramótum og almennt eru horfur um ytra jafnvægi þjóðarbúsins góðar.


Viðskiptaafgangur á öðrum fjórðungi ársins nam 7,5 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Er það jákvæður viðsnúningur í utanríkisviðskiptum eftir nokkurn halla undanfarna 2 ársfjórðunga. Öflug uppsveifla í ferðaþjónustu skýrir þá þróun að stærstum hluta. Afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd, þar sem ferðaþjónustan er fyrirferðarmikil, nam tæpum 88 ma.kr. á fjórðungnum en vöruskiptahalli var hins vegar rúmir 84 ma.kr. á sama tíma. Þá var 17 ma.kr. afgangur af jöfnuði frumþáttatekna en halli á hreinum rekstrarframlögum til og frá landinu nam 13 ma.kr.

Það munar um minna í utanríkisviðskiptunum þegar ferðaþjónustan nær vopnum sínum á nýjan leik eins og verið hefur allt frá vordögum 2022. Alls skilaði greinin 160 ma.kr. útflutningstekjum á öðrum ársfjórðungi og á fyrri helmingi ársins voru heildar útflutningstekjur hennar 256 ma.kr. Hámarki þetta árið ná svo tekjur greinarinnar á þriðja ársfjórðungi og má því búast við talsvert myndarlegum þjónustuafgangi á yfirstandandi fjórðungi.

Enn mælist afgangur af jöfnuði frumþáttatekna

Afgangur hefur mælst á jöfnuði frumþáttatekna þrjá ársfjórðunga í röð eftir nokkurn halla fjórðungana á undan. Frumþáttatekjur eru skilgreindar sem tekjur og gjöld milli landa vegna launagreiðslna og ávöxtunar af fjármunum.

Eins og sjá má af myndinni hafa hreinar fjármagnstekjur vegna beinnar fjárfestingar milli landa haft mest áhrif á þróun heildarjafnaðar frumþáttatekna undanfarin ár. Voru slíkar tekjur tæpir 23 ma.kr. nettó á fyrri árshelmingi. Þá má greina áhrif af hækkandi vöxtum á heimsvísu í þessum tölum þar sem gjaldeyrisforði Seðlabankans er farinn að skila allnokkrum vaxtatekjum, en vaxtatekjur bankans af forðanum námu tæpum 11 ma.kr. á fyrri helmingi ársins. Þá voru hreinar tekjur af verðbréfafjárfestingu 14 ma.kr. og flæði vegna launagreiðslna jákvætt um ríflega 2 ma.kr. Á móti vó tæplega 10 ma.kr. útflæði vegna annarra fjárfestinga en að upp eru taldar hér að framan.

Líkt og við höfum áður fjallað um skýrist sveiflan í hreinum fjármagnstekjum af beinni fjárfestingu að miklu leyti af afkomu álveranna þriggja sem eru alfarið í erlendri eigu. Versnandi afkoma þeirra samhliða lækkandi álverði skilar sér þannig í bata á þessum hluta jafnaðar fjármagnstekna.  Þó er vitaskuld ekki öll sagan þar með sögð enda lækka útflutningstekjur af álútflutningi að sama skapi. Heildaráhrif af sveiflum í álverði á viðskiptajöfnuðinn hafa þó farið minnkandi á undanförnum árum eftir því sem smærri hluti orkusamninga við álverin hefur byggt á þróun álverðs.

Utanríkisviðskipti nánast í jafnvægi á fyrri árshelmingi

Á fyrri helmingi ársins var halli á viðskiptajöfnuði rétt um 4 ma.kr. Er það mikil breyting til batnaðar frá undanförnum árum en á fyrri hluta síðasta árs var hallinn nærri 74 ma.kr. og árið 2021 var hallinn 63 ma.kr. á sama tíma. Líklegt er að allnokkur viðskiptaafgangur mælist á þriðja ársfjórðungi ef marka má hagvísa sem bera merki um afar myndarlega háönn í ferðaþjónustunni þetta árið.

Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í lok maí gerðum við ráð fyrir lítilsháttar viðskiptahalla í ár en nokkrum viðskiptaafgangi næstu tvö ár. Miðað við fram komnar tölur kann spáin fyrir þetta ár að hafa verið í svartsýnni kantinum og jafnvægi eða lítilsháttar afgangur af viðskiptajöfnuði gæti orðið niðurstaðan í ár.

Hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins fara vaxandi

Seðlabankinn birti einnig tölur yfir erlenda stöðu þjóðarbúsins í júnílok. Var hrein eign landsmanna erlendis 1.158 ma.kr. um mitt ár, sem samsvarar tæplega 29% af vergri landsframleiðslu (VLF) undanfarinna fjögurra ársfjórðunga. Á fyrri helmingi ársins batnaði hreina staðan um 217 ma.kr. og skýrist sú þróun jöfnum höndum af auknum erlendum eignum og minni erlendum skuldbindingum.

Þróun alþjóðlegra hlutabréfamarkaða hefur talsverð áhrif á hreinu erlendu stöðuna á hverjum tíma enda er erlend hlutabréfafjárfesting innlendra aðila að frádreginni hlutabréfaeign erlendra aðila uppistaðan í hreinni erlendri eignastöðu landsmanna. Meðvindur hefur ríkt á erlendum mörkuðum það sem af er ári og jókst verðmæti erlendrar verðbréfafjárfestingar, sem að stórum hluta endurspeglast í eign lífeyrissjóðanna í erlendum hlutabréfum og tengdum sjóðum, um 237 ma.kr. á fyrri hluta ársins.

Alls námu hreinar erlendar eignir í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum 2.420 ma.kr.  í júnílok og á sama tíma stóð liðurinn Annað, sem að stofni til endurspeglar hreinan gjaldeyrisforða Seðlabankans, í 609 ma.kr. Bein fjárfesting erlendra aðila hérlendis var hins vegar 583 ma.kr. umfram sams konar fjárfestingu landsmanna erlendis og þá námu hreinar skuldir þjóðarbúsins vegna lána og skuldabréfa 1.288 ma.kr.

Horfur um ytra jafnvægi þjóðarbúsins allgóðar

Horfur um ytra jafnvægi þjóðarbúsins eru allgóðar um þessar mundir. Ágætar líkur eru á að jafnvægi eða hóflegur afgangur einkenni viðskiptajöfnuðinn á komandi misserum enda útflutningstekjur í vexti, sér í lagi á þjónustuhliðinni á sama tíma og líklega hægir á innflutningsvexti tengdum neyslu og fjárfestingu innanlands.

Það, ásamt samsetningu erlendra eigna og skulda þjóðarbúsins, þýðir svo að horfur eru á að erlend staða þjóðarbúsins styrkist frekar en hitt. Traust ytra jafnvægi þjóðarbúsins er litlu opnu hagkerfi með smáan, fljótandi gjaldmiðil afar mikilvægt styrkleikamerki og fela því hinar nýju tölur Seðlabankans í sér jákvæð tíðindi fyrir þjóðarbúskapinn að mati okkar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband