Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Hóflegur viðskiptahalli og batnandi erlend eignastaða á fyrsta fjórðungi

Viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi var hóflegri en vænst var. Horfur eru á að viðskiptaafgangur taki við af halla á komandi misserum. Hrein erlend eignastaða er tekin að batna að nýju eftir dýfu á síðasta ári og skýtur mikilvægri stoð undir krónuna og hagkerfið allt.


Viðskiptahalli var 10,1 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Er það heldur minni halli en við væntum og í raun ágæt byrjun á árinu hvað þetta varðar. Vöruskiptahalli var tæpar 46 ma.kr. og halli á rekstrarframlögum gagnvart útlöndum 12 ma.kr. Á hinn bóginn voru hreinar þjónustutekjur ríflega 21 ma.kr. og frumþáttatekjur skiluðu ríflega 26 ma.kr. afgangi.

Reiptogið milli þjónustuafgangs og vöruskiptahalla er gamalkunnug staða í utanríkisviðskiptum okkar enda hefur það verið almenna reglan undanfarinn áratug eða svo. Þar vegur ferðaþjónustan jafnan þungt þjónustumegin, enda skilaði greinin ríflega 94 ma.kr. tekjum á fyrsta fjórðungi ársins. Þær tekjur ná svo hámarki á þriðja ársfjórðungi enda hefur ávallt verið afgangur af viðskiptajöfnuði á þeim fjórðungi frá árinu 2010.

Álverin sveifla frumþáttatekjunum

Myndarlegur afgangur af frumþáttatekjum milli landa annan ársfjórðunginn í röð vekur athygli. Fjórðungana þar á undan hafði mælst allnokkur halli á þessum lið og töldu ýmsir að afgangur þar heyrði jafnvel sögunni til. Það er þó ekki raunin og verður forvitnilegt að fylgjast með þessum lið á komandi fjórðungum.

Í sem stystu máli endurspeglar jöfnuður frumþáttatekna flæði launagreiðslna og fjármagnstekna til og frá landinu. Eins og sést af myndinni eru það fyrst og fremst fjármagnstekjur og -gjöld vegna beinnar fjárfestingar milli landa sem ráða sveiflunni milli tímabila í þessum lið. Þar vegur þungt afkoma álveranna, sem eru alfarið í erlendri eigu.

Það er því forvitnilegt að bera saman þróun á álverði og jöfnuði þáttatekna undanfarin ár. Fylgnin þar á milli virðist býsna sterk og kemur því þróunin í þáttatekjunum ágætlega heim og saman við þá miklu sveiflu sem varð á álverði, og þar með afkomu álvera í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu.

Álverð undanfarið hefur ratað á svipaðar slóðir og fyrir innrás og, viti menn, svipaða þróun má greina í þáttatekjujöfnuði þótt sveiflan þar sé vissulega talsvert sterkari. Það er þó vitaskuld ekki svo að hátt álverð hafi neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn í heild enda eru hreinar tekjur þjóðarbúsins af álverunum að nokkrum hluta tengdar álverði í gegn um raforkusölu íslenskra orkufyrirtækja. Hátt álverð skilar sér í auknu útflutningsverðmæti áls en á móti kemur sá hluti af hærra verði sem ekki verður eftir í þjóðarbúinu heldur skilar sér til erlendra eigenda álvera fram í þáttatekjunum.

Við spáum batnandi viðskiptajöfnuði

Tölur Seðlabankans koma ágætlega heim og saman við nýbirta þjóðhagsspá okkar. Þar spáum við bata á viðskiptajöfnuði eftir tveggja ára viðskiptahalla. Gerum við ráð fyrir að viðskiptahalli á þessu ári muni nema 0,7% af VLF en að næstu tvö ár verði afgangur af utanríkisviðskiptum sem nemi u.þ.b. 1,5% á hvoru ári. Hagfelldari utanríkisviðskipti endurspegla að mestu færslu á vaxtarbroddi hagkerfisins frá innlendri eftirspurn yfir í útflutning og þar á kröftugur vöxtur í ferðaþjónustu stóran hluta að máli.

Erlend staða þjóðarbúsins styrkist

Seðlabankinn birti samhliða greiðslujafnaðartölunum gögn um erlenda stöðu þjóðarbúsins fram til loka mars sl. Hrein erlend staða þjóðarbúsins í marslok var jákvæð um 1.022 ma.kr. sem jafngildir ríflega 26% af VLF. Erlendar eignir voru 5.120 ma.kr. en erlendar skuldir alls 4.098 í lok mars. Erlenda staðan styrktist nokkuð á fjórðungnum og hefur alls batnað um sem nemur 208 ma.kr. frá septemberlokum í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs rýrnaði hreina erlenda staðan hins vegar um 463 ma.kr. og á hún því talsvert í land með að ná fyrra hágildi.

Hvað skýrir svo þessa sveiflu á hreinni eignastöðu þjóðarbúsins gagnvart útlöndum? Í sem stystu máli er sterkasti áhrifaþátturinn þróun á hlutabréfamörkuðum. Hlutabréf lækkuðu umtalsvert hérlendis sem erlendis lengst af á árinu 2022. Eins og sést af myndinni er nettóstaða þjóðarbúsins töluvert mismunandi eftir hinum ýmsu eignaflokkum. Hreina eignin endurspeglast fyrst og fremst í umtalsverðri hreinni eign í hlutabréfum og verðbréfasjóðum, að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða, sem og í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Á móti skuldum við umheiminum talsvert umfram eign í skuldaskjölum og lánaskuldum og einnig er bein erlend fjárfesting hér á landi nokkru meiri en sem nemur beinni fjárfestingu Íslendinga erlendis.

Rétt eins og meðbyr á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum átti sinn þátt í að bæta erlendu stöðuna frá árinu 2017 fram til ársloka 2021 hafði hin snarpa lækkun á sömu mörkuðum framan af síðasta ári áhrif til lækkunar á beinni og óbeinni erlendri verðbréfaeign landsmanna. Með jákvæðari straumum á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum hefur svo staðan aftur horfið til betri vegar.

Það er íslensku þjóðarbúi býsna mikilvægt að búa að jafn sterkri erlendri stöðu og raun ber vitni undanfarin ár eftir áratuga neikvæða erlenda stöðu allt fram á síðasta áratug. Með tíð og tíma ættu hreinar fjármagnstekjur inn í landið að endurspegla þessa sterku stöðu auk þess sem aukinn stöðugleiki íslensku krónunnar í samanburði við fyrri tíð hvílir að talsverðu leyti á trausti umheimsins á getu okkar til að standa við erlendar skuldbindingar í bráð og lengd.

Líklega mun erlenda staðan styrkjast enn frekar á komandi árum. Þar kemur bæði til að horfur eru á bættum viðskiptajöfnuði og eins er ólík samsetning eigna og skulda, þar sem hlutafjáreign vegur umtalsvert þyngra eignamegin, til þess fallin að hækka eignahliðina umfram skuldahliðina í gegnum gengishækkun verðbréfa á alþjóðavísu. Ytra jafnvægi þjóðarbúsins er því býsna heilbrigt og horfur fyrir að svo verði áfram tiltölulega bjartar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband