Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjóðhagsspá Íslandsbanka 2023-2025: Skin og skúrir

Greining Íslandsbanka spáir fyrir um þróun efnahagsmála 2023-2025


Íslenskur efnahagur hefur rétt myndarlega úr kútnum eftir skarpt samdráttarskeið í kjölfar faraldursins. Á síðasta ári var hagvöxtur 6,4% og hefur vöxturinn ekki verið hraðari frá árinu 2007. Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur mælist 3,1% á þessu ári, sem er svipaður vöxtur og í síðustu spá. Útflutningsvöxtur vegur þyngst í hagvextinum í ár en hlutur innlendrar eftirspurnar í vextinum minnkar verulega miðað við síðustu tvö ár. Von er á 2,4% hagvexti á næsta ári og 2,8% vexti árið 2025.

Útlit er fyrir bata í utanríkisviðskiptum þegar líða tekur á spátímann eftir umtalsverðan viðskiptahalla síðustu ár. Hagfelldari utanríkisviðskipti ásamt fleiri þáttum auka líkur á styrkingu krónunnar þegar frá líður. Í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 8% sterkari í lok spátímans en hún var í ársbyrjun 2023.

Verðbólga hefur reynst þrálát en lætur undan síga á spátímanum, sér í lagi vegna rólegri íbúðamarkaðar og stöðugra verðlags erlendis. Það dregur hægt og sígandi úr spennu á vinnumarkaði og horfur eru á að kaupmáttur launa taki að vaxa á ný á næsta ári. Þrálát verðbólga kallar á talsvert aðhald Seðlabankans og útlit er fyrir að stýrivextir muni ná hámarki í 9,5% síðar á þessu ári. Hægfara vaxtalækkunarferli gæti hafist snemma árs 2024.

Þjóðhagsspá Greiningar má nálgast hér

Stikl­að á stóru

  • Hagvöxtur - Spáð er 3,1% hagvexti árið 2023, 2,4% 2024 og 2,8% 2025.

  • Utanríkisviðskipti- Viðskiptahalli nemi 0,7% af landsframleiðslu í ár en verður hóflegur 2024 og 2025.

  • Verðbólga- Verðbólga hafi toppað í febrúar og fari hjaðnandi. Verði að meðaltali 8,7% árið 2023, 5,3% árið 2024 og 3,7% 2025.

  • Vinnumarkaður- 3,4% meðaltalsatvinnuleysi í ár. 3,9% 2024 og 4,0% 2025.

  • Vextir - Stýrivextir nái hámarki í 9,5% fyrir lok þessa árs. Hægfara vaxtalækkun hefst snemma árs 2024.

  • Krónan- Horfur á að gengi krónu verði 8% hærra í lok spátímans en það var í ársbyrjun 2023.

Póstlisti Greiningar

Ekki missa af greiningum okkar á því helsta sem snertir efnahagslífið og skráðu þig á póstlistann okkar!

Höfundar þjóðhagsspár


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband