Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Við spáum prósentu hækkun stýrivaxta í maí

Við spáum 1 prósentu hækkun stýrivaxta þann 24. maí næstkomandi. Þrálát verðbólga, spenna í hagkerfinu og fjörkippur á íbúðamarkaði verða líklega meðal helstu áhrifaþátta á að stíga aftur myndarlegt vaxtahækkunarskref. Það veltur á verðbólgu- og hagþróun í sumar hvort vextir verða hækkaðir frekar á seinni helmingi ársins en horfur eru á fremur háum stýrivöxtum fram undir miðjan áratug.


Við spáum því að stýrivextir Seðlabankans verði hækkaðir um 1 prósentu við næstu vaxtaákvörðun bankans þann 24. maí næstkomandi. Gangi það eftir verða meginvextir Seðlabankans 8,5% og hafa ekki verið hærri frá fyrsta fjórðungi ársins 2010. Hugsanlegt er að smærra skref verði stigið en að sama skapi aukast þá líkur á frekari hækkun vaxta síðar á árinu.

Við síðustu vaxtaákvörðun síðla í mars voru allir meðlimir peningastefnunefndar sammála um að hækka þyrfti vexti og stóð valið á milli 0,75 eða 1 prósentu hækkunar. Nefndin var hins vegar einhuga um að hækka vextina um 1 prósentu í mars.

Helstu rök fyrir umtalsverðri hækkun stýrivaxta í mars:

  • Verðbólguþrýstingur væri enn umtalsverður og mikill kraftur væri í þjóðarbúinu.
  • Innlend eftirspurn reyndist vera þróttmeiri en vænst hefði verið sem ásamt miklum launahækkunum og spennu á vinnumarkaði birtist í auknum kostnaðarþrýstingi.
  • Svo virtist sem stórum hluta af auknum kostnaðarþrýstingi hefði verið velt beint út í verðlag og hætta væri á að sú þróun héldi áfram á komandi mánuðum.
  • Vegna mikillar eftirspurnar væri hætta á að lækkun olíu- og hrávöruverðs á heimsmarkaði frá því í fyrra ásamt lækkun flutningskostnaðar myndi síður skila sér í verðlækkun hér á landi.
  • Verðbólga væri enn að aukast í mörgum viðskiptalöndum.
  • Útlánavöxtur lánakerfisins til fyrirtækja væri enn að aukast þrátt fyrir vaxtahækkanir en meirihluti lána þeirra væri með breytilegum vöxtum.
  • Aðhald fjárlaga á þessu ári yrði líklega minna en gert hefði verið ráð fyrir.
  • Nauðsynlegt væri að ná merkjanlegum árangri hratt í ljósi þess hve útbreidd verðbólga væri, verðbólguvæntingar háar og að stutt væri í næstu kjarasamninga.

Helstu rök fyrir því að taka hóflegra vaxtaskref:

  • Hægt hefði á umsvifum á húsnæðismarkaði og ljóst að aðgerðir bankans hefðu áhrif á markaðinn.
  • Verri alþjóðleg fjármálaleg skilyrði gætu dregið hraðar úr efnahagsumsvifum en ella og gæti verðbólga því hjaðnað hraðar en nú væri áætlað.

Nefndin taldi aðkallandi í mars að tryggja að verðbólga myndi hjaðna hratt og örugglega næstu misseri jafnvel þótt áhrif aðgerðanna á efnahagsumsvif yrðu umtalsverð. Brýnt væri að sporna gegn annarrar umferðar áhrifum kostnaðarhækkana á verðlag sem virtust nú þegar vera komin fram og tryggja að taumhald peningastefnunnar færi hratt vaxandi.

Þrátt fyrir að framsýn leiðsögn peningastefnunefndarinnar væri ekki jafn afdráttarlaus um þörfina á frekari vaxtahækkun og verið hafði í febrúar tóku stjórnendur Seðlabankans skýrt fram í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar að það yrði gert sem gera þyrfti til að koma böndum á verðbólguna á komandi misserum.

Frá síðustu vaxtaákvörðun hefur fátt þróast beinlínis til betri vegar hvað varðar verðbólguhorfur en þó má með góðum vilja tína til nokkra þætti sem bent gætu til þess að vaxtahækkun undanfarinna missera sé farin að hafa allnokkur áhrif.

Hér má sjá yfirlit yfir ýmsa líklega áhrifaþætti á ákvörðun peningastefnunefndar í maí:

Allmikill kraftur er enn í íslenska hagkerfinu

Margt bendir til þess að vaxtartakturinn í hagkerfinu hafi verið allhraður á fyrsta þriðjungi ársins. Ferðaþjónustuveturinn var greininni gjöfull líkt og við fjölluðum nýlega um. Ljóst virðist að ferðaþjónustan er nánast að fullu búin að ná vopnum sínum á nýjan leik eftir faraldur og horfur eru bjartar fyrir komandi fjórðunga. Þá óx kortavelta landsmanna talsvert að raunvirði á fyrstu mánuðum ársins og innflutningstölur benda til þess að talsverður vöxtur hafi verið í fjárfestingu í farartækjum. Atvinnuleysi hefur verið lítið á sama tíma og fólksfjölgun hefur verið umtalsverð og enn virðist skortur á starfsfólki vera nokkuð útbreiddur þótt heldur hafi dregið úr honum frá því í fyrrahaust.

Hins vegar er þessa dagana að fjölga jafnt og þétt vísbendingum um að hægja taki á vexti eftirspurnar eftir því sem líður á árið. Nýlegar væntingakannanir meðal heimila og fyrirtækja sýna að talsvert hefur dregið úr bjartsýni á efnahagshorfur frá síðasta ári. Neytendur hyggjast einnig draga úr stórkaupum á borð við utanlandsferðir, bifreiðir og íbúðarhúsnæði á næstunni miðað við undanfarna fjórðunga á meðan fleiri fyrirtæki hyggja á minni fjárfestingar í ár en hin sem áforma aukna fjárfestingu frá í fyrra. Þá hefur hægt jafnt og þétt á vexti kortaveltu innlendra korta í íslenskum verslunum og raunar skrapp veltan saman að raunvirði í aprílmánuði í fyrsta sinn frá október í fyrra.

Í mars hafði peningastefnunefndin á orði að innlend eftirspurn hefði reynst þróttmeiri en vænst var og spenna á vinnumarkaði væri töluverð. Efnahagsþróunin síðan hefur líklega verið gróft á litið í takti við væntingar nefndarfólks og myndi að okkar mati ekki endilega kalla ein og sér á mikla frekari hækkun vaxta nú ef ekki kæmi fleira til.

Verðbólguhorfur hafa versnað..

Verðbólga hefur reynst býsna þrálát það sem af er ári. Þá virðist verðbólguþrýstingur jafnt og þétt verða almennari og undirliggjandi verðbólga hefur aukist allnokkuð frá ársbyrjun á alla mælikvarða. Þá hefur íbúðaverð tekið að hækka á nýjan leik síðustu mánuði en peningastefnunefndin benti í mars einmitt á breytta þróun á húsnæðismarkaði sem eitt fárra merkja um að vaxtahækkunarferlið væri farið að skila tilætluðum árangri.

Í febrúarbyrjun spáði Seðlabankinn því að verðbólga yrði að jafnaði 7,7% á 2. ársfjórðungi en myndi hjaðna jafnt og þétt í kjölfarið og reynast tæp 6% á lokafjórðungi þessa árs. Samkvæmt nýbirtri verðbólguspá okkar er hins vegar útlit fyrir að verðbólgan á 2. fjórðungi verði 9,7% og að á lokafjórðungi ársins muni hún enn mælast rúmlega 7%.

Líklega mun ný verðbólguspá Seðlabankans sem birt verður í Peningamálum samhliða vaxtaákvörðuninni verða talsvert svartsýnni á verðbólguhorfur næstu fjórðunga en febrúarspáin. Greinilegt er af fundargerð marsfundarins að peningastefnunefndin hefur þá þegar verið farin að efast um febrúarspána en horfurnar hafa síst batnað síðan þá.

..og verðbólguvæntingar eru háar

Væntingar um verðbólgu næstu árin eru enn talsvert hærri en samrýmist 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þó hafa langtímavæntingarnar haldist tiltölulega stöðugar undanfarið á ýmsa mælikvarða. Nýverið birti Seðlabankinn svo niðurstöður úr væntingakönnun meðal markaðsaðila og hækka væntingar þeirra um verðbólgu til lengri tíma litið nokkuð milli mælinga.

Langtíma verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hins vegar lækkað nokkuð frá þeim hæðum sem það náði í byrjun mars. Álagið er þó enn talsvert hærra en 2,5% verðbólgumarkmiðið en þar þarf að hafa í huga að bæði hafa skammtímahorfur áhrif á meðaltal næstu 5-10 ára og eins er óvissuálag á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa, sem er önnur lykilstærðin við útreikning á verðbólguálaginu, trúlega með meira móti þessa dagana.

Vaxtahækkunarvæntingar á skuldabréfamarkaði

Vaxtaferlar á skuldabréfamarkaði endurspegla þessa dagana væntingar um nokkra frekari hækkun stýrivaxta næsta kastið. Þannig er brúuð krafa ríkisbréfa til 2ja ára nú 8,5% en var rétt um 8% eftir síðustu vaxtaákvörðun í mars. Hins vegar gerir markaðurinn sem fyrr ráð fyrir því að vextir taki að hjaðna talsvert á ný þegar líður á áratuginn.

Svipaða sögu segir nýbirt væntingakönnun meðal markaðsaðila. Samkvæmt miðgildum svara við henni vænta markaðsaðilar þess að vaxtahækkunarferli Seðlabankans ljúki með prósentuhækkun á 2. ársfjórðungi og að vextir taki að lækka á nýjan leik á næsta ári.

Þótt óþreyju gæti víða um hvenær áhrif aðhaldssamari peningastefnu komi fram af krafti í hagkerfinu hefur hún skilað sér í hækkun raunvaxta á flesta mælikvarða. Vissulega mælist 12 mánaða taktur verðbólgunnar enn talsvert meiri en sem nemur stýrivaxtaprósentunni um þessar mundir en líkt og við höfum áður fjallað um er sá mælikvarði ekki sérlega lýsandi.

Langtíma raunvextir ríkisbréfa á skuldabréfamarkaði hafa verið tiltölulega stöðugir síðan í fyrrahaust í kring um 2% þrátt fyrir verulegar sveiflur á ávöxtunarkröfu óverðtryggðra ríkisbréfa. Þá hafa raunstýrivextir hækkað jafnt og þétt ef miðað er við framsýna verðbólgumælikvarða þótt þeir séu enn tiltölulega lágir í sögulegu ljósi. Aðhald peningastefnunnar hefur því aukist á þá mælikvarða þótt líklega öllu meira til í ljósi þrálátrar verðbólgu og þanins hagkerfis.

Lýkur vaxtahækkunarferlinu í maí?

Eftir maíákvörðunina tekur við alllangt sumarfrí í peningastefnunni og er næsta vaxtaákvörðun að öðru óbreyttu væntanleg undir lok ágústmánaðar. Verðbólgu- og efnahagsþróunin þangað til mun að okkar mati skera úr um hvort vaxtahækkunarferlinu lýkur nú í maí eða hvort einhverrar viðbótarhækkunar er að vænta á seinni helmingi ársins. Hjaðni verðbólga í takti við nýjustu verðbólguspá okkar og komi fram skýrari merki um hægari eftirspurnarvöxt innanlands eru líkur á að vaxtahækkunarferlinu ljúki fyrir mitt ár. Þar má hins vegar ekki mikið út af bregða svo vextir verði ekki hækkaðir eitthvað til viðbótar á seinni helmingi ársins.

Okkur þykir því fara best á því að orða spána fyrir komandi fjórðunga sem svo að stýrivextir verði að lágmarki 8,5% út árið en óvissan sé fyrst og fremst í þá átt að vextir gætu hækkað eitthvað meira fram að áramótum. Sem fyrr eigum við von á því að vextir taki að lækka á nýjan leik á næsta ári eftir því sem verðbólga hjaðnar og hagkerfið sækir í betra jafnvægi. Líklega verður það vaxtalækkunarferli varfærið framan af og horfur eru á allháum stýrivöxtum fram undir miðjan áratuginn í það minnsta.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.