Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Góður ferðaþjónustuvetur að baki og tekjuvöxtur í vændum

Ferðamannaveturinn hefur verið gjöfull á Íslandi og neikvæð áhrif af efnahagsþróun erlendis eru ekki sjáanleg. Áhugi á Íslandsferðum er mikill og útlit er fyrir að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar slái fyrri met í ár. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar leika lykilhlutverk í að draga úr halla á utanríkisviðskiptum í ár.


Brottfarir ferðamanna um Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru 142 þúsund í apríl sl. samkvæmt nýbirtum gögnum Ferðamálastofu. Hefur fjöldinn einungis tvisvar verið meiri í aprílmánuði, þ.e. árin 2017 og 2018.

Bandaríkjamenn tóku í apríl við af Bretum sem fjölmennasta þjóð meðal ferðafólks á Íslandi en Bretarnir voru, líkt og stundum áður, fjölmennastir þjóða hér á landi yfir vetrarmánuðina. Alls voru tæplega 27% ferðamanna í apríl frá Bandaríkjunum. Bretar fylgdu þeim þó fast á hæla með 24% heildarfjöldans og þar á eftir komu Pólverjar (7%), Þjóðverjar (4%) og Frakkar (4%). Þá er heldur farið að fjölga í hópi Kínverja sem sækja landið heim og voru þarlendir ferðamenn tæplega 3% af heildarfjöldanum í apríl.

Frá áramótum hafa 561 þúsund ferðamenn farið af landi brott um Leifsstöð sem jafngildir 63% fjölgun milli ára. Er það í takti við spá okkar frá febrúarbyrjun. Ljóst er að áhyggjur okkar og margra annarra af neikvæðum áhrifum efnahagsmótvinds í Bretlandi og á meginlandi Evrópu á ferðavilja til Íslands hafa góðu heilli ekki raungerst.

Þá eru horfur bjartar fyrir árið í heild. Bókunarstaða hjá ferðaþjónustufyrirtækjum er almennt býsna sterk fyrir komandi háönn og áhugi á Íslandsferðum virðist síst vera að dvína. Í því sambandi má benda á nýlega könnun Evrópska ferðamálaráðsins um ferðaáform Evrópubúa. Um það bil 1,6% svarenda áformaði samkvæmt könnuninni að bregða sér til Íslands næst þegar farið yrði út fyrir landsteinana og er það svipað hlutfall og hjá hinum Norðurlöndunum. Í því sambandi má benda á að síðasta árið fyrir faraldur heimsóttu tæplega 6 milljónir ferðafólks Noreg heim og fyrir Svíþjóð var talan 7,6 milljónir samkvæmt Ferðamálastofnun SÞ.

Við spáðum því í febrúar að ríflega 2,1 milljón ferðamanna myndi sækja Ísland heim í ár. Miðað við framangreindar tölur virðist sú spá enn góð og gild.

Verður 2023 metár í ferðaþjónustutekjum?

Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa heldur betur tekið við sér eftir að ferðatakmörkunum vegna faraldursins var aflétt fyrir rúmu ári síðan. Í fyrra voru útflutningstekjur ferðaþjónustunnar og tengdra greina 448 ma.kr. samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Ekki liggja fyrir tölur um þjónustuútflutning það sem af er ári, að janúar undanskildum. Í janúarmánuði voru tekjur vegna neyslu erlendra ferðamanna hér á landi ríflega 21 ma.kr. Að auki voru útflutningstekjur vegna samgagna og flutninga ríflega 14 ma.kr. en yfir helmingur af slíkum tekjum hefur alla jafna skrifast á flugfargjöld erlendra ferðamanna með innlendum flugfélögum að faraldurstímanum undanskildum.

Út frá fyrirliggjandi gögnum má lauslega áætla að tekjur af erlendu ferðafólki á fyrsta þriðjungi ársins hafi verið á bilinu 130 – 140 ma.kr. Til samanburðar má nefna að vöruskiptahalli var á sama tíma 87 ma.kr. Á árinu í heild gætu slíkar tekjur orðið í kring um 600 ma.kr. en þær urðu mestar 510 ma.kr. árið 2018.

Vissulega falla líka til talsverð útgjöld vegna þjónustukaupa Íslendinga á erlendri grundu. Í janúar var þjónustuinnflutningur til að mynda 45 ma.kr. og þar af skrifuðust tæpir 16 ma.kr. á þjónustukaup landsmanna á ferðalögum erlendis.

Þó er að okkar mati ljóst að um þessar mundir dregur sundur á nýjan leik með tekjum og útgjöldum vegna ferðalaga milli landa og verður gjaldeyrisinnflæði vegna ferðalaga væntanlega umtalsvert í sumar og haust. Það á svo ríkan þátt í því að við væntum þess að betra jafnvægi komist á utanríkisviðskipti þegar líður á þetta ár eftir talsverðan halla á síðasta ári.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband