Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Fleiri heimili og fyrirtæki pakka í vörn

Nýlegar væntingakannanir meðal íslenskra heimila og fyrirtækja benda til þess að í vaxandi mæli sé verið að pakka í vörn á þeim bæjum. Dregið hefur úr skorti á starfsfólki hjá stærri fyrirtækjum og mörg vænta þau minni fjárfestingar í ár en í fyrra. Hægari vöxtur innlendrar eftirspurnar er hluti að jafnvægisaðlögun eftir þenslutíma.


Væntingavísitala Gallup (VVG) sýnir að almenningur hefur dregið umtalsvert úr væntingum sínum til stöðu og horfa í efnahagslífinu frá ársbyrjun 2022. Undanfarið hafa væntingar fólks þó verið tiltölulega stöðugar sjónarmun undir jafnvægisgildinu 100, en það gildi endurspeglar jafnvægi milli þeirra sem eru jákvæðir á stöðu og horfur og hinna sem eru svartsýnir á hverjum tíma. Í mars mældist VVG tæp 90 stig sem er lægsta gildi hennar frá ágúst í fyrra. Voru það fyrst og fremst væntingar um stöðuna eftir 6 mánuði sem tóku dýfu frá febrúarmælingu Gallup.

Dregur úr bílakaupum það sem af er ári

Gallup birti einnig nýlega niðurstöður úr ársfjórðungslegri könnun á áætluðum stórkaupum almennings. Vísitala stórkaupa lækkaði nokkuð milli mælinga enda dró úr öllu í senn: áætluðum utanlandsferðum, fyrirhuguðum bifreiðakaupum og áformum um íbúðakaup. Hvað bifreiðakaup varðar rímar lækkun þeirrar undirvísitölu undanfarna fjórðunga við nýbirtar tölur Bílgreinasambandsins um sölu nýrra bifreiða, en sala nýrra fólksbíla til einstaklinga skrapp saman um ríflega 6% á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra. Þess má geta að á síðasta ári seldust 6.907 nýir fólksbílar til einstaklinga og samsvaraði það ríflega 13% aukningu á milli ára.

Væntingavísitalan og stórkaupavísitalan gefa allgóða vísbendingu um komandi þróun í einkaneyslu landsmanna. Nýleg þróun þeirra styður því við þá skoðun okkar, sem birtist í þjóðhagsspá í febrúarbyrjun, að umtalsvert hægari vöxtur einkaneyslu sé í kortunum eftir hraðasta vöxt hennar í 17 ár í fyrra.

Minni sóknarhugur í fyrirtækjum

Samtök atvinnulífsins birtu nýverið frétt um niðurstöður úr ársfjórðungslegri væntingakönnun meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins. Líkt og hjá íslenskum heimilum hefur mat fyrirtækjastjórnenda á aðstæðum og horfum í hagkerfinu lækkað talsvert undanfarin misseri.

Fjórðungur stjórnenda telur aðstæður í efnahagslífinu nú góðar fremur en slæmar, og hefur þeim fækkað um helming milli ára. Svipað hlutfall stjórnenda telur líkur á því að aðstæður verði betri að hálfu ári liðnu, en það hlutfall hefur þó hækkað úr 21% frá desember í fyrra.

Væntingakönnun meðal fyrirtækjastjórnenda gefur vísbendingu um hvað er framundan í almennum fjárfestingum fyrirtækja í landinu. Bæði er allnokkur fylgni milli 6 mánaða væntinga og almennrar fyrirtækjafjárfestingar að hálfu ári liðnu og eins spyr Gallup, sem framkvæmir könnunina, tvisvar á ári beinlínis um fjárfestingaráform. Veruleg lækkun mælist í fjárfestingaráformum fyrirtækja frá síðustu könnun sem birt var í september síðastliðnum. Í fyrrahaust var fjárfestingarhugur fyrirtækjanna útbreiddur og var mat flestra fyrirtækjastjórnenda á þá leið að fjárfesting yrði meiri á árinu 2022 en hafði verið ári fyrr.

Þetta hefur nú snúist við og eru 27% stjórnenda á þeirri skoðun að fjárfestingar verði minni í ár en í fyrra. Fimmtungur telur að bætt verði í fjárfestingar á milli ára og rúmur helmingur að svipað verði fjárfest í ár og í fyrra. Eins og sjá má af myndinni er fjárfestingarhugurinn mestur í byggingastarfsemi og veitum en einnig talsverður í iðnaði sem og í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Ekkert sjávarútvegsfyrirtæki hyggst hins vegar bæta við fjárfestingar á yfirstandandi ári ef marka má könnunina.

Þetta hlutfall hefur lækkað niður í tæp 40% í nýju könnuninni og er nú svipað og á lokafjórðungi ársins 2021. Sem fyrr er þó skortur á starfsfólki langmestur í byggingariðnaði og er þar almennt búist við fjölgun starfsfólks á næstu mánuðum.

Úr sókn í vörn?

Að öllu þessu samanlögðu virðist stefna í að íslensk heimili og fyrirtæki spili varnarleik í vaxandi mæli á þessu ári eftir myndarlegan vöxt innlendrar eftirspurnar síðasta eina og hálfa árið eða svo. Er það skiljanlegt í ljósi þess að efnahagshorfur á alþjóðavísu eru nokkuð tvísýnar, verðbólga er enn mikil og vaxtastigið hefur hækkað umtalsvert. Við spáðum í febrúarbyrjun að þjóðarútgjöld, sem að mestu samanstanda af neyslu og fjárfestingu landsmanna, muni vaxa um 2,5% í ár samanborið við rúmlega 6% vöxt hvort áranna 2021 og 2022. Þar munar mestu um umtalsvert hægari vöxt einkaneyslu en einnig hægir að mati okkar töluvert á fjárfestingarvexti og sér í lagi verður fjárfesting atvinnuveganna líklega nánast óbreytt á milli ára eftir 15% vöxt slíkrar fjárfestingar í fyrra.

Hagkerfið virðist því vera að stefna í betra jafnvægi eftir hagvöxt sem hefur verið „..vel umfram það sem þjóðarbúskapurinn getur staðið undir til lengdar“ svo vitnað sé í síðustu yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabankans. Gangi það eftir getum við Íslendingar ágætlega við unað enda eru fá merki á lofti um efnahagssamdrátt hérlendis eins og talsverð hætta virðist vera á næsta kastið víða í nágrannalöndunum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband