Verðbólguspá: Spáum 3,9% verðbólgu í júlí

Við spáum hjöðnun ársverðbólgu í júlí. Það mun hins vegar vera skammgóður vermir því útlit er fyrir að verðbólga aukist á ný mánuðina á eftir. Þrálát verðbólga við vikmörkin er áhyggjuefni en ekki er útlit fyrir frekari hjöðnun verðbólgunnar næsta kastið.


Við spáum því að vísítala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í júlí frá fyrri mánuði. Gangi spáin okkar eftir mun ársverðbólga hjaðna úr 4,2% í 3,9% og þar með aftur mælast undir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðsins (4%). Ársverðbólga hefur verið að sveiflast í kringum efri vikmörkin að undanförnu og er útlit fyrir að það muni halda áfram á næstunni.

Í júlímánuði vegast á útsölur annars vegar og árstíðarbundin hækkun flugverðs hins vegar. Hækkun á flugverði skýrir mánaðarhækkunina að mestu auk þess sem húsnæðisliðurinn á sinn þátt í henni. Helstu útsöluliðir sem vega á móti hækkuninni eru föt og skór auk húsgagna og heimilisbúnaðar. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs þann 24. júlí næstkomandi.      

Hækkun flugfargjalda og sumarútsölur togast á

Júlímánuður einkennist venjulega af verðsveiflum ýmissa undirflokka VNV þar sem ferðalög til og frá landinu ná hámarki og sumarútsölur fara fram í mörgum verslunum landsins. Ferðagleðin endurspeglast í 11,5% hækkun flugfargjalda milli mánaða (0,29% áhrif á VNV) samkvæmt okkar spá eftir óvenjumikla hækkun í júní. Gangi spáin eftir hefur hækkun flugfargjalda mest áhrif til hækkunar VNV í mánuðinum. Við eigum svo von á því að hækkanirnar á flugfargjöldum gangi til baka frá og með næsta mánuði og fram á haust eins og venjan er. Verð á öðrum undirlið ferða og flutninga, eldsneyti, er óbreytt á milli mánaða samkvæmt okkar mælingum. Flestar vísbendingar eru þó í þá áttina að eldsneytisverð fari lækkandi fram eftir árinu. Nýverið hefur meiri ró færst yfir heimsmarkað með olíu eftir mikla óvissu í tengslum við stríðsátök fyrir botni Miðjarðarhafs.

Tilboð og afslættir í verslunum víða gefa til kynna að áhrif sumarútsala verði á sínum stað í júlí og hafi mest áhrif verð á fötum og skóm sem lækkar um 6,2% (-0,23% áhrif á VNV) samkvæmt okkar spá. Næst mest áhrif til lækkunar VNV koma fram í lægra verði á húsgögnum og heimilisbúnaði sem lækka um 1,6% í verði milli mánaða (-0,08% áhrif á VNV). Gangi spáin eftir hafa sumarútsölur mest áhrif til lækkunar VNV í mánuðinum.

Hægari hækkun matvælaverðs og reiknaðrar húsaleigu

Verðhækkanir matar- og drykkjarvara hafa komið hvað mest á óvart á fyrri árshelmingi líkt og við fjölluðum nýlega um. Á seinni helmingi ársins er útlit fyrir hægari hækkanir og við teljum mest áhrif kostnaðarhækkana þegar komin fram, að öðru óbreyttu. Fyrstu vísbendingarnar um þetta má meðal annars sjá í lítilli hækkun dagvöruvísitölu ASÍ, sem hækkaði einungis um 0,1% á milli mánaða í júlí. Við gerum ráð fyrir 0,3% verðhækkun í okkar spá (0,05% áhrif á VNV).

Annar liður sem hefur oftar en ekki hækkað umfram spár er reiknuð húsaleiga. Samkvæmt okkar spá mun liðurinn hækka um 0,5% (0,10% áhrif á VNV) og hafa næstmest áhrif til hækkunar VNV í mánuðinum en nokkur óvissa ríkir enn um mælingarnar. Við gerum ráð fyrir að leiguverð hækki með svipuðum hætti næstu mánuði.

Sveiflur í árstaktinum halda áfram

Miðað við spá okkar mun ársverðbólga mælast 3,9% í júlí og mælast á ný undir efri vikmörkum Seðlabankans. Það verður hins vegar skammgóður vermir því við gerum ráð fyrir að verðbólga muni aukast á ný á haustmánuðum. Þetta er vegna þess að einskiptisliðir frá síðasta hausti vegna gjaldfrjálsa skólamáltíða og háskóla detta út úr mælingunni. Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar mun verðbólga næstu mánuði þróast með þessum hætti:

  • Ágúst: 0,2% hækkun VNV (4,0% ársverðbólga) - Útsölulok en flugverð byrjar að lækka. Niðurfelling skólagjalda í háskólum dettur út úr ársmælingunni.
  • September: 0,2% hækkun VNV (4,5% ársverðbólga) - Áframhaldandi útsölulok en talverð lækkun flugverðs vegur á móti. Ýmsar gjaldskrárhækkanir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir detta úr út ársmælingunni.
  • Október: 0,3% hækkun VNV (4,5% ársverðbólga) – Árstíðabundin áhrif hafa fjarað út. Flestir liðir leggjast á eitt og hækka smávegis. Ársverðbólga helst óbreytt frá mánuðinum á undan.

Verðbólguhorfur hafa versnað síðustu mánuði og er mánaðarmælingin í júní helsta skýringin á því þar sem verðbólga jókst talsvert umfram spár greiningaraðila. Við höfum síðustu mánuði ítrekað sagt frá því að verðbólga muni að öllum líkindum aukast í haust, vegna þessara títtnefndu einskiptisliða. Samkvæmt spá okkar mun verðbólga mælast 4,3% í árslok og ekki mælast aftur undir vikmörkum verðbólgumarkmiðsins fyrr en á öðrum fjórðungi næsta árs.

Að okkar mati liggur óvissan varðandi nærhorfurnar helst í þróun á reiknuðu húsaleigunni. Í þessari spá gerum við ekki ráð fyrir miklum hækkunum á leiguverði. Annar óvissuþáttur er til að mynda flugverðið, sem kom okkur talsvert á óvart í júní. Að okkar mati er óvissan minni hvað flugverð varðar þar sem við búumst við að slík hækkun gangi að einhverju leyti tilbaka. Einnig er óvissa út í heimi og helst má nefna áhrif tolla Bandaríkjanna á okkar helstu viðskiptalönd.

Útlit er fyrir þráláta verðbólgu í kringum 4% vikmörkin næsta kastið. Þetta er mikið áhyggjuefni og eins við fjölluðum um hér eru ekki miklar líkur á frekari lækkun stýrivaxta á árinu. Peningastefnunefnd Seðlabankans mun hittast næst um miðjan ágústmánuð og hafa þessa júlímælingu til hliðsjónar í næstu ákvörðun. Miðað við framsýna leiðsögn nefndarinnar í maí bendir flest til þess að vöxtum verði haldið óbreyttum í ágúst að öðru óbreyttu.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.