Nú þegar fyrri árshelmingi er lokið er tímabært að staldra við og fara yfir helstu verðbólguvalda ársins hingað til og spá í spilin fyrir seinni hálfleik. Nokkrir þættir hafa komið á óvart og hækkað óþægilega langt umfram væntingar á meðan aðrir þættir hafa verið til meiri friðs en von var á. Hér verður farið gaumgæfilega yfir þá hluti sem hafa helst lagt verðbólgu stein í götuna í átt að verðbólgumarkmiði og þá sem hafa greitt henni leiðina.
Hvað hefur helst lagt verðbólgu stein í götu?
Verðbólguþróun á fyrri árshelmingi gerð upp.
Á myndinni hér að neðan má sjá samsetningu verðbólgu síðustu tvö og hálft ár. Glögglega má sjá að framlag húsnæðis til verðbólgu er langsamlega stærst en húsnæðiskostnaður útskýrir um 1,72% af þeim 4,2% sem ársverðbólga mælist nú. Hlutfall húsnæðiskostnaðar er því rétt rúmlega 40% af ársverðbólgu um þessar mundir. Frá því ný aðferð við mælingu á reiknaðri húsaleigu var tekin upp síðastliðið sumar hefur framlag húsnæðis til ársverðbólgu minnkað en þegar síðasta mæling með gömlu aðferðinni fór fram skýrði húsnæðiskostnaður tæplega helming ársverðbólgu. Fyrst um sinn hækkaði raunar þetta hlutfall eftir þá breytingu þar sem lækkanir reiknaðrar húsaleigu frá sumrinu á undan duttu út úr árstaktinum. Frá áramótum hefur hlutfallið hins vegar lækkað talsvert.
Þjónustuverðbólga
Næstmest framlag til ársverðbólgu tilheyrir annarri þjónustu. Undir það flokkast alls kyns þjónusta sem opinberar stofnanir veita ekki. Framlag annarrar þjónustu til ársverðbólgu mældist 0,91% í júní síðastliðnum. Almennt er nokkuð meiri seigla í þjónustuverði en vöruverði þar sem verð á þjónustu ákvarðast að mestu leyti af launaþróun sem er eðli málsins samkvæmt fastari í skorðum en t.d heimsmarkaðsverð á ýmsum aðföngum sem getur sveiflast talsvert. Þó eru undantekningar á þessu, til að mynda flugfargjöld sem sveiflast umtalsvert eftir árstíma, þróun eldsneytisverðs og gengisþróun krónu. Myndin að ofan sýnir einmitt hvernig framlag þjónustu til ársverðbólgu hefur sveiflast minna en framlag innlendra og innfluttra vara. Kjarasamningar hafa því mikil áhrif á þróun þjónustuverðbólgu en þeir gera hana fyrirsjáanlegri fyrir vikið, sér í lagi þegar samið er til lengri tíma líkt og gert var í síðustu kjarasamningalotu. Af niðurstöðum kjaraviðræðna síðustu missera er ljóst að þjónustuverðbólga verður áfram nokkuð seig.
Vöruverðbólga
Vöruverð er líka háð launakostnaði en einnig verði á orku og aðföngum. Miklar hækkanir vöruverðs áttu sér stað í heimsfaraldri þar sem aðfangakeðjur löskuðust og krónan veiktist. Eftir innrás Rússa í Úkraínu kom önnur bylgja slíkra hækkana af svipuðum ástæðum, með öðrum orðum skýrðist verðbólguskotið fyrst og fremst af framboðshnökrum. Aðfangakeðjur hafa síðan þá jafnað sig og vöruverðbólga hjaðnað til muna.
Dregið hefur úr framlagi innfluttra vara til verðbólgu á árinu en þar eru að verki annars vegar stöðugra verðlag erlendis og hins vegar styrking krónu. Aðra sögu er að segja um innlendar vörur en framlag þeirra til verðbólgu hefur aukist um tæplega helming á árinu. Þar eru að verki hærri launakostnaður annars vegar, sem virðist hafa verið fleytt að mestu út í verðlag, og hins vegar hærri raforkukostnaður við framleiðslu matvæla en hækkanir matvælaverðs hafa komið hvað mest á óvart á árinu. Við það bætast framboðshnökrar á ýmsum aðföngum en hærra verð á kakói hefur leitt til mikillar hækkunar á súkkulaðiverði svo dæmi sé nefnt.
Alls hefur verð á matar- og drykkjavöru hækkað um 4,5% það sem af er ári. Kaffi, te og kakó hafa hækkað mest í verði, um 17%, af völdum framboðshnökra líkt og fyrr segir. Þar á eftir koma gosdrykkir, safar og vatn sem hafa hækkað um 8,4%, kjöt um 6%, sælgæti um 5,3%, mjólk, ostar og egg um 4,4% og fiskur um 4,3%. Við teljum að þessi hækkunarhrina matvæla verði brátt bensínlaus og áhrif kjarasamningsbundinna launahækkana hafi þegar komið fram að mestu leyti þetta árið. Flestar samningsbundnar launahækkanir hafa þegar átt sér stað auk þess sem kauptaxtaaukinn kom til framkvæmda í apríl. Þar að auki mun launaauki fyrir opinbera starfsmenn koma til framkvæmda 1.september næstkomandi.
Framlag innfluttra vara án eldsneytis til verðbólgu hefur minnkað á árinu heilt yfir, en það jókst aðeins á milli mánaða í júní og mælist nú 0,51%. Með eldsneyti hefur framlagið minnkað meira enda eldsneytisverð heilt yfir lækkað á árinu, þó minna en lækkun heimsmarkaðsverðs gefur til kynna. Styrking krónu hefur því haldið aftur af verðhækkunum bæði í gegnum innfluttar vörur og lægra aðfangaverð við framleiðslu innlendra vara. Framlag innlendra vara til verðbólgu er nokkru hærra og mældist 0,78% í júní og hefur hækkað um ríflega helming á árinu.
Ræður húsnæðiskostnaður úrslitum?
Breytt aðferðafræði við útreikning á reiknaðri húsaleigu hefur verið tíðrædd enda er um að ræða stærsta áhrifavald verðbólgu síðustu árin. Fram að þeim tímapunkti sem aðferðin var tekin upp voru uppi áhyggjur um óhagstæð áhrif breytingarinnar á mælda verðbólgu. Sneru þær aðallega að því misræmi sem myndast hafði milli leiguverðs og íbúðaverðs en það síðarnefnda hafði hækkað mun meira en leiga síðustu misseri. Þar af leiðandi höfðu líkur aukist á því að leiguverðið myndi taka að hækka hraðar en íbúðaverð og minnka bilið sem hafði myndast. Því myndu mælast tvær hækkunarhrinur húsnæðiskostnaðar í VNV, eingöngu vegna breyttrar aðferðafræði. Myndin að neðan sýnir hvernig vísitala markaðsverðs íbúðarhúsnæðis og vísitala greiddrar húsaleigu hefur þróast síðustu ár.
Nokkrir þættir gætu þó valdið því að bilið milli íbúðaverðs og leigu muni ekki endilega lokast á næstunni og þó það kunni að lokast er ekki augljóst hversu hratt það gerist. Til dæmis hefur hægt verulega á fólksfjölgun á árinu en söguleg fólksfjölgun síðustu ár hefur verið einn helsti drifkraftur hækkandi húsnæðiskostnaðar. Við eigum ekki von á því að reiknuð húsaleiga fari á flug á næstunni né heldur að það dragi mikið úr framlagi hennar til verðbólgu. Seigla í húsnæðiskostnaði er ein af helstu ástæðum þess að við gerum ekki ráð fyrir að verðbólga fari í markmið í bráð, þó hún færist vissulega nær því. Með öðrum orðum þarf framlag húsnæðisliðar til verðbólgu að minnka talsvert svo verðbólga mælist í verðbólgumarkmiði í bráð. Við teljum ekki miklar líkur á því en útilokum það þó ekki. Það má því segja að hækkun húsnæðiskostnaðar sé stærsti steinninn í götunni í átt að verðbólgumarkmiði.
Innan vikmarka en yfir markmiði?
Við teljum verðbólgu ekki á leið í markmið í bráð en eigum von á því að hún mælist að jafnaði innan efri vikmarka verðbólgumarkmiðs Seðlabankans næstu árin. Það sem helst veldur því eru hækkanir launa og seigla í húsnæðiskostnaði. Þjóðarbúið stendur styrkum fótum og meiri kraftur er í hagkerfinu en áður var talið. Sparnaðarstig heimila er sögulega hátt, skuldastaða þeirra er góð og eftirspurn í hagkerfinu er tekin að glæðast á ný. Kröftugur vöxtur mælist linnulítið í kortaveltu heimilanna og bílakaup hafa tekið við sér á árinu. Stórar fjárfestingar eru framundan í útflutningsgreinum landsins þó aukin skattheimta og tafir á orkuöflun geti sett þeim skorður. Vinnumarkaður hefur kólnað en er heilbrigður og færist nær jafnvægi. Flestar vísbendingar eru því í þá áttina að verðbólga leiti ekki fyllilega í markmið á næstunni.