Verðbólga aftur yfir efri vikmörk

Vísitala neysluverðs hækkaði nokkuð umfram spár í júní og verðbólga fór yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans á ný.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,84% í júní samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga eykst úr 3,8% í 4,2% og mælist nú aftur yfir vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans (4%). Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis jókst einnig á milli mánaða, eða um 0,9%, og mælist ársverðbólga án húsnæðis nú 3,2%.

Mæling júnímánaðar er yfir okkar spá en við spáðum 0,5% hækkun VNV. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,45% til 0,6% hækkun VNV í mánuðinum. Helsti munur á spá okkar og mælingu Hagstofunnar eru flugfargjöld sem hækkuðu töluvert meira en við gerðum ráð fyrir.

Árviss hækkun flugfargjalda óvenju mikil

Mest framlag til hækkunar VNV í mánuðinum, og jafnframt helsta ástæða fráviks frá okkar spá, var óvenju mikil hækkun flugfargjalda til útlanda. Flugfargjöld til útlanda hækka alla jafna nokkuð í júní og mest í júlí þegar ferðalög til og frá landinu ná hápunkti. Flugfargjöldin hækkuðu um 12,7% í júní þetta árið (0,27% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 5,5% hækkun (0,12% áhrif á VNV). Það er mesta hækkun flugfargjalda í júnímánuði í mörg ár en seinast sást hækkun í þessu nágrenni í júní 2018 þegar þau hækkuðu um 15,2% frá maímánuði. Við eigum þar af leiðandi von á minni hækkun flugfargjalda í júlí en ella þar sem mikil hækkun hefur þegar átt sér stað og aðrir þættir koma frekar til með að stuðla að minni hækkun, t.d. lægra olíuverð.  

Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkaði um 0,57% (-0,02% áhrif á VNV) í takt við okkar spá. Seinustu vikur hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað nokkuð á heildina litið en sveiflurnar hafa verið miklar. Veiking dollarans gagnvart krónu hefur svo aukið við verðlækkunina í krónum talið. Von er á að heimsmarkaðsverðið haldist nálægt núverandi gildum út sumarið en fari lækkandi með haustinu. Óvissan er hins vegar mikil þó hún hafi minnkað allra síðustu daga. Heimsmarkaðsverðið hefur hins vegar lækkað mun meira en eldsneytisverð síðustu mánuði og við eigum því von á því að eldsneytisverð haldi áfram að lækka nokkuð fram eftir ári. Gæti það m.a. leitt til mýkri þróunar flugfargjalda.

Verð á þjónustu hótela og veitingastaða hækkar einnig á sumrin í takt við aukna ferðagleði og þetta árið varð engin breyting þar á. Alls hækkaði verð hjá hótelum og veitingastöðum um 2,3% (0,12% áhrif á VNV) í takt við okkar spá.  

Reiknuð húsaleiga og matvælaverð hækka

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% (0,13% áhrif á VNV) líkt og við spáðum. Við teljum um að ræða árstíðarbundin áhrif þar sem skammtímaleiga á íbúðarhúsnæði færist í aukana á sumrin sem þrengir að framboði leiguhúsnæðis. Við teljum nokkra óvissu ríkja um þennan undirlið verðbólgunnar en það hefur reynst snúið að spá fyrir um liðinn frá því ný aðferð var tekin upp fyrir ári síðan.

Verð á mat og drykk hækkaði umfram spár enn eina ferðina en hækkunin nam 0,54% (0,08% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 0,3% hækkun (0,04% áhrif á VNV). Hækkunin skýrist helst af hærra verði á kjöti, mjólk, ostum, eggjum og ávöxtum ásamt talsverðri verðhækkun á kaffi, te og kakói.

Matvælaverð hefur hækkað statt og stöðugt á árinu og oftar en ekki verið talsvert yfir spám. Ýmsar kostnaðarhækkanir eru þar að verki, þá helst hærri launakostnaður en einnig má nefna hærri raforkukostnað við framleiðslu matvæla. Ætla má að sterkari króna hafi vegið á móti enda hafa innlendar vörur hækkað mun meira en innfluttar. Við teljum mögulegt að hækkanahrinan verði brátt bensínlaus og það taki að hægja á verðhækkunum matvæla á seinni hluta árs.

Samsetning verðbólgunnar

Þróun á samsetningu ársverðbólgunnar má sjá á myndinni hér að neðan. Af 4,2% verðbólgu í júní skýrir húsnæðisliðurinn stærstan hluta af verðbólgunni eða 1,7%. Framlag húsnæðis hefur þó farið minnkandi. Í júní fyrir ári síðan skýrði liðurinn 2,7% af ársverðbólgunni og fram í ágúst jókst framlag liðarins sem mældist þá 3,2% en hefur síðan þá farið minnkandi. Þjónusta skýrir næstmest af heildarverðbólgunni eða samtals um 1,2% og eykst mest á milli mánaða. Innlendar vörur skýra 0,8% og innfluttar vörur 0,3%. Megindrifkraftar verðbólgunnar eru því húsnæði auk þjónustu sem er breytt staða sem áður var þegar innfluttar vörur auk húsnæðis voru megindrifkraftar verðbólgunnar.

Verðbólguhorfur

Í bráðabirgðaspá okkar fyrir næstu mánuði spáum við 0,1% hækkun VNV í júlí, 0,3% hækkun í ágúst og 0,2% hækkun í september. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga mælast 4,5% í september. Við lækkum mánaðarspá okkar fyrir júlí þar sem við gerum ráð fyrir að flugverðið hækki minna vegna mikillar hækkunar nú í júní.

Miðað við spá okkar mun verðbólgutakturinn hjaðna örlítið frá núverandi gildum í sumar og mælast 3,8% í júlí og 4% í ágúst. Verðbólgutakturinn mun svo aukast með haustinu þegar einskiptisliðir frá síðasta hausti m.a. vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða detta útúr mælingunni.

Helsta óvissan varðandi næstu mánuði er að okkar mati reiknaða húsaleigan, sem hækkaði nokkuð umfram spár í apríl og maí en var þó í takti við okkar spá í júnímælingunni. Við bætist óvissa í alþjóðaviðskiptum og hvort hærri tollar Bandaríkjanna á okkar helstu viðskiptalönd í Evrópusambandinu munu ná fram að ganga.

Útlit fyrir óbreytta stýrivexti út þetta ár

Verðbólgutölur dagsins eru enn einn hagvísirinn sem vekur trúlega litla kátínu hjá peningastefnunefnd Seðlabankans. Frá vaxtakvörðuninni í maí hafa nýjar mælingar sýnt þrálátt háar verðbólguvæntingar líkt og við fjölluðum nýlega um. Þá sýndu þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta fjórðung ársins töluverðan þrótt í innlendri eftirspurn og nýleg gögn á borð við kortaveltu, nýskráningar bifreiða og utanlandsferðir benda til áframhaldandi neyslugleði landans á vordögum. Auk þess er enn nokkur seigla í vinnumarkaði og eftirspurn á íbúðamarkaði virðist lífseig þrátt fyrir allhátt vaxtastig.

Peningastefnunefndin sagði í yfirlýsingu sinni í maí að  frekari vaxtalækkunarskref væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í ljósi verðbólguspárinnar hér að ofan og seiglunnar í hagkerfinu höfum við uppfært stýrivaxtaspá okkar fyrir komandi misseri. Við gerum nú ráð fyrir að stýrivextir verði óbreyttir út þetta ár í 7,5%. Á næsta ári hefjist svo vaxtalækkunarferlið á ný en trúlega mun lækkun vaxta verða fremur hæg nema efnahagshorfur versni til muna.

Höfundar


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband