Reiknuð húsaleiga og matvælaverð hækka
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,7% (0,13% áhrif á VNV) líkt og við spáðum. Við teljum um að ræða árstíðarbundin áhrif þar sem skammtímaleiga á íbúðarhúsnæði færist í aukana á sumrin sem þrengir að framboði leiguhúsnæðis. Við teljum nokkra óvissu ríkja um þennan undirlið verðbólgunnar en það hefur reynst snúið að spá fyrir um liðinn frá því ný aðferð var tekin upp fyrir ári síðan.
Verð á mat og drykk hækkaði umfram spár enn eina ferðina en hækkunin nam 0,54% (0,08% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 0,3% hækkun (0,04% áhrif á VNV). Hækkunin skýrist helst af hærra verði á kjöti, mjólk, ostum, eggjum og ávöxtum ásamt talsverðri verðhækkun á kaffi, te og kakói.
Matvælaverð hefur hækkað statt og stöðugt á árinu og oftar en ekki verið talsvert yfir spám. Ýmsar kostnaðarhækkanir eru þar að verki, þá helst hærri launakostnaður en einnig má nefna hærri raforkukostnað við framleiðslu matvæla. Ætla má að sterkari króna hafi vegið á móti enda hafa innlendar vörur hækkað mun meira en innfluttar. Við teljum mögulegt að hækkanahrinan verði brátt bensínlaus og það taki að hægja á verðhækkunum matvæla á seinni hluta árs.
Samsetning verðbólgunnar
Þróun á samsetningu ársverðbólgunnar má sjá á myndinni hér að neðan. Af 4,2% verðbólgu í júní skýrir húsnæðisliðurinn stærstan hluta af verðbólgunni eða 1,7%. Framlag húsnæðis hefur þó farið minnkandi. Í júní fyrir ári síðan skýrði liðurinn 2,7% af ársverðbólgunni og fram í ágúst jókst framlag liðarins sem mældist þá 3,2% en hefur síðan þá farið minnkandi. Þjónusta skýrir næstmest af heildarverðbólgunni eða samtals um 1,2% og eykst mest á milli mánaða. Innlendar vörur skýra 0,8% og innfluttar vörur 0,3%. Megindrifkraftar verðbólgunnar eru því húsnæði auk þjónustu sem er breytt staða sem áður var þegar innfluttar vörur auk húsnæðis voru megindrifkraftar verðbólgunnar.