Seðlabankinn tilkynnti í morgun vaxtaákvörðun peningastefnunefndar. Nefndin ákvað að halda vöxtum óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 7,5%. Nefndin hafði áður lækkað vexti í fimm ákvörðunum í röð, eða frá því í október í fyrra. Vaxtalækkunarferlið hefur nú verið sett á ís. Ákvörðunin er í samræmi við birtar spár sem allar gerðu ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Allir nefndarmenn studdu ákvörðunina og er yfirlýsing peningastefnunefndar nær óbreytt frá því í maí.
Vaxtalækkunarferlið sett á ís
Stýrivextir óbreyttir í fyrsta sinn í eitt ár eftir ákvörðun peningastefnunefndar í morgun. Seðlabankinn spáir talsvert þrálátari verðbólgu á næstu misserum. Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir óbreyttum vöxtum fram á næsta ár.
Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:
- Verðbólga var 4% í júlí og minnkaði um 0,2 prósentur frá mánuðinum á undan
- Samkvæmt spá Seðlabankans eykst verðbólga aftur á næstu mánuðum en tekur síðan að hjaðna er kemur fram á næsta ár
- Hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar
- Spennan í þjóðarbúinu hefur því minnkað eins og sjá má á hægari umsvifum húsnæðis- og vinnumarkaði
- Enn virðist vera þróttur í efnahagsumsvifum, laun hafa hækkað mikið og verðbólguvæntingar enn yfir markmiði
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er nánast óbreytt frá síðustu ákvörðun í maí og hljóðar svo:
Þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er enn nokkur verðbólguþrýstingur til staðar. Þær aðstæður hafa því ekki skapast að hægt sé að slaka á núverandi raunvaxtaaðhaldi peningastefnunnar. Ljóst er að frekari skref til lækkunar vaxta eru háð því að verðbólga færist nær 2,5% markmiði bankans.
Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Meiri vöxtur, meiri verðbólga
Ný hagspá Seðlabankans var birt samhliða vaxtaákvörðuninni og er bankinn nokkuð bjartsýnni í spá sinni um hagvöxt, sér í lagi á þessu ári. Spáir Seðlabankinn nú 2,3% hagvexti í ár í stað 1% frá maíspánni, 2,1% á næsta ári og 2,6% árið 2027. Meiri hagvöxtur á þessu ári skýrist að mestu vegna svokallaðra grunnáahrifa þar sem Hagstofan endurskoðaði tölur síðasta árs en einnig af auknum vexti í innlendri eftirspurn þar sem aukinn vöxtur fjármunamyndunar vegur þungt.
Verðbólguspá Seðlabankans hefur versnað verulega hvað nærhorfurnar varðar miðað við spána frá því í maí. Bankinn spáir að verðbólga verði 4,5% á síðasta fjórðungi þessa árs sem er talsvert meira en áður var gert ráð fyrir. Verðbólga verður því talsvert meiri á fyrri hluta spátímans og spáir bankinn 4,2% verðbólgu að meðaltali í ár, 3,6% á næsta ári og 2,6% árið 2027. Þetta er í takti við nýlega verðbólguspá Greiningar, þar sem við spáðum einnig 4,5% verðbólgu á lokafjórðungi ársins. Við erum þó svartsýnni varðandi verðbólguhorfur til lengri tíma og gerum ekki ráð fyrir verðbólgu við markmið á spátímanum.
Verðbólguspár Seðlabankans hafa dökknað talsvert frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í fyrrahaust. Á þeim tíma gerði Seðlabankinn ráð fyrir því að verðbólga í ár yrði 3,4% og 2,7% á næsta ári. Það að ná verðbólgu í markmið á ásættanlegum tíma færist því í sífellu lengra inn í framtíðina.
Líkur á óbreyttum vöxtum út árið
Sú ákvörðun peningastefnunefndar, að halda vöxtum óbreyttum, kom ekki á óvart. Það sem hins vegar vakti athygli okkar var yfirlýsing nefndarinnar, sem var nánast óbreytt frá síðustu ákvörðun í maí þrátt fyrir talsvert verri verðbólguhorfur og meiri þrótt í hagkerfinu.
Þegar nefndarmenn voru spurðir á kynningarfundinum hvort yfirlýsingin hefði átt að vera harðari, með hliðsljón af hærri verðbólgu, þrálátum verðbólguvæntingum og meiri umsvifum í innlendri eftirspurn svöruðu þeir að þrátt fyrir allt stefndi raunhagkerfið í eina átt og það væru skýr merki um kólnun í hagkerfinu. Einnig kom fram í svörum nefndarmanna á fundinum að yfirlýsingin væri skýr og þetta væri það raunvaxtastig sem hefði virkað og myndi duga til að koma verðbólgu í markmið. Nefndin undirstrikaði þó að ekki yrði hikað við að gera það sem þyrfti til að koma verðbólgunni í markmið og tóku sem dæmi um að hækka vexti á ný.
Að okkar mati hefði tónninn og framsýna leiðsögnin mátt vera harðari, verðbólguhorfur hafa dökknað og verðbólga í markmið færist sífellt lengra inn í framtíðina. Ljóst er að með því að halda vöxtum óbreyttum í fyrsta sinn í eitt ár, hyggst nefndin staldra við og meta næstu skref.
Tvær vaxtaákvarðanir eru eftir á árinu, sú fyrri í október og sú seinni í nóvember. Eins og fram hefur komið sagði peningastefnunefndin í yfirlýsingu sinni að frekari vaxtalækkunarskref væru háð því að verðbólga færðist nær 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Miðað við nýjustu verðbólguspá Seðlabankans og sömuleiðis miðað við spá okkar í Greiningu er ekki útlit fyrir að verðbólga hjaðni að neinu ráði fyrr en um mitt næsta ár. Við gerum ráð fyrir því að vextir verði óbreyttir út þetta ár og líklega fram á næsta ár nema efnahagshorfur versni til muna.