Verðbólguspá: Verðbólga yfir vikmörkin á ný

Ársverðbólga mun aukast lítillega í ágúst ef spá okkar gengur eftir. Útlit er fyrir að verðbólga muni svo aukast enn frekar á næstu mánuðum og mælast 4,6% í nóvember.


Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í ágúst frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun ársverðbólga aukast úr 4,0% í 4,1% og mælast enn á ný yfir 4% vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands. Útlit er fyrir að ársverðbólga muni aukast enn frekar á næstu mánuðum og spá okkar gerir ráð fyrir 4,6% verðbólgu í nóvember.

Í spánni er það húsnæðisliðurinn sem skýrir mánaðarhækkunina að mestu. Einnig vegast á útsölulok annars vegar og lækkun flugverðs hins vegar. Hagstofan birtir vísitölu neysluverðs þann 28. ágúst næstkomandi.

Lækkun flugfargjalda og útsölulok

Yfir sumartímann hækka flugfargjöld alla jafna bæði vegna háannar í ferðaþjónustu og ferðalaga Íslendinga erlendis. Hækkunin í sumar var ansi rífleg og hækkuðu flugfargjöld til útlanda samtals um 32,5% í júní og júlí. Eftirspurn eftir flugferðum hefur greinilega verið mikil, en samkvæmt nýbirtum gögnum frá Ferðamálastofu voru brottfarir erlendra farþega frá landinu yfir 300 þúsund í júlí sem er metfjöldi ferðamanna í einum mánuði frá upphafi mælinga.

Eftir árvissa hækkun á flugverði síðustu tvo mánuði er útlit fyrir verðlækkun næstu tvo mánuði. Samkvæmt spá okkar lækka flutningar í lofti í ágúst um 7,3% (-0,22% áhrif á VNV) á milli mánaða. Lækkunin verður svo enn meiri í september samkvæmt spá okkar. Einnig gerum við ráð fyrir að eldsneytisverð haldi áfram að lækka og samkvæmt mælingu okkar nemur lækkunin á milli mánaða 0,7% (-0,03% áhrif á VNV) í ágúst.

Útsölur í júlí voru aðeins grynnri en við áttum von á, þá aðallega á fatnaði og skóm. Fyrir vikið ættu áhrif útsöluloka í ágúst að vera hóflegri. Samkvæmt spá okkar munu föt og skór hækka í verði um 2,4% (0,08 áhrif á VNV) auk þess sem húsgögn og heimilisbúnaður hækka um 1,3% (0,06 áhrif á VNV). Útsölulok munu teygjast fram í septembermánuð.

Verðhækkanir á matvöru í strand?

Í júlí voru tíðindi þegar verð á matar- og drykkjarvörum hélst nánast óbreytt á milli mánaða. Frá áramótum hefur verð á matvörum hækkað um 4,4%, sem líklega má rekja til kjarasamningsbundna launahækkana en við teljum að áhrifin séu að mestu komin fram.

Eins og fyrirsögnin gefur til kynna spáum við nær óbreyttu matvælaverði í ágúst á milli mánaða. Samkvæmt dagvöruvísitölu ASÍ lækkar verð á matvöru á milli júlí og ágúst um 0,09%. Dagvöruvísitalan hefur nokkuð góða fylgni við mælingu Hagstofunnar á matar- og drykkjarvörum eins og sést á myndinni hér að neðan.

Ekki má gleyma að nefna reiknaða húsaleigu sem skýrir mánaðarhækkunina að mestu samkvæmt spá okkar. Það er ekkert nýtt á nálinni enda vægi hennar 20%, mest af öllum undirliðum VNV. Samkvæmt spá okkar hækkar liðurinn um 0,5% í ágúst á milli mánaða (0,10% áhrif á VNV).

Verðbólga mun aukast á næstu mánuðum

Við höfum margoft fjallað um einskiptisliðina frá síðasta hausti sem munu nú detta út úr verðbólgumælingunni með haustinu. Niðurfelling háskólagjalda í nokkrum háskólum er sá einskiptisliður sem dettur út nú í ágúst en liðurinn lækkaði um 21% í fyrra. Það sem vegur á móti er að verðhækkanir í ágúst á helstu liðum VNV eru minni en oft áður, sterkari króna á líklega sinn þátt í því. Ef spá okkar gengur eftir mun verðbólga því einungis aukast í 4,1% þrátt fyrir að títtnefndur einskiptisliður sé að detta út úr mælingunni. Í næsta mánuði gerum við hins vegar ráð fyrir að verðbólga aukist enn frekar. Samkvæmt bráðabirgðaspá okkar mun verðbólga næstu mánuði þróast með eftirfarandi hætti:

  • September: 0,1% hækkun VNV (4,5% ársverðbólga) – Áframhaldandi útsölulok en talsverð lækkun flugverðs vegur á móti. Ýmsar gjaldskrárhækkanir. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir detta út úr ársmælingunni.
  • Október: 0,3% hækkun VNV (4,5% ársverðbólga) – Árstíðarbundin áhrif fjara út. Flestir liðir leggjast á eitt og hækka smávegis. Ársverðbólga helst óbreytt á milli mánaða.
  • Nóvember: 0,2% hækkun VNV (4,6% ársverðbólga) – Flugfargjöld lækka sem vegur á móti hækkun á öðrum helstu liðum.

 

Að okkar mati er helsta óvissan varðandi nærhorfurnar þróun í reiknuðu húsaleigunni. Með frekari reynslu á nýrri mælingu Hagstofunnar verður vonandi auðveldara að spá fyrir um þennan lið. Við gerum ekki ráð fyrir miklum hækkunum í leiguverði næstu mánuði.

Verðbólga mun mælast 4,6% í nóvember samkvæmt spá okkar sem er mikið áhyggjuefni. Erfitt hefur reynst að ná verðbólgu niður fyrir 4% vikmörk Seðlabankans. Peningastefnunefnd Seðlabankans mun koma saman í byrjun næstu viku og birta ákvörðun sína um stýrivexti miðvikudaginn 20. ágúst. Verðbólgutölur í júlí auk verðbólguspár fyrir ágúst verða nýjustu gögn um verðbólguna sem nefndin mun hafa til hliðsjónar. Greining Íslandsbanka mun birta stýrivaxtaspá á næstu dögum.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.