Viðskiptahalli Íslands við útlönd var 95,2 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Er það mesti viðskiptahalli á einum fjórðungi frá vordögum 2008. Þegar lá fyrir að afgangur af þjónustujöfnuði var 34,5 ma.kr. en vöruskiptahalli 104,1 ma.kr. á tímabilinu líkt og við fjölluðum nýlega um. Í nýbirtum tölum Seðlabankans bætast við jöfnuður frumþáttatekna og rekstrarframlög milli landa. Fyrrnefndi liðurinn var neikvæður um 10,5 ma.kr. en sá síðarnefndi um 15,1 ma.kr.
Talsverður viðskiptahalli í fyrra
Viðskiptahalli á lokafjórðungi síðasta árs var sá mesti í 17 ár. Hóflegur afgangur af þjónustujöfnuði mátti sín þar lítils gegn miklum vöruskiptahalla og allnokkrum halla á öðrum undirliðum viðskiptajafnaðarins. Alls nam viðskiptahallinn í fyrra 2,5% af VLF en horfur eru á bata í utanríkisviðskiptum á komandi fjórðungum.
Þróun álverðs litar ýmsa þætti viðskiptajafnaðar
Jöfnuður frumþáttatekna hefur jafnt og þétt orðið óhagstæðari undanfarna fjórðunga. Fór hann frá því að vera jákvæður um rúma 39 ma.kr. á lokafjórðungi ársins 2023 yfir í fyrrgreindan rúmlega 10 ma.kr. halla ári síðar. Þessi liður í bókum Seðlabankans heldur utan um greiðslur á milli landa vegna tekna og gjalda af notkun svokallaðra frumþátta. Er þar átt við greiðslur vegna vinnuframlags og notkunar fjármagns, eða með öðrum orðum launagreiðslur, vaxtagreiðslur af lánum og skuldum sem og arð eða bókfært tap af hlutafé.
Undanfarin ár hefur verið þokkalegt jafnvægi í launagreiðslum til og frá landinu. Hefur sá hluti jafnaðar frumþáttatekna frá upphafi áratugarins sveiflast á milli ríflega 2 ma.kr. afgangs og tæplega 2 ma.kr. halla en hreinar greiðslur launa frá landinu námu 1,7 ma.kr. á 4. fjórðungi 2024 og hefur útflæði vegna þessa liðar raunar aldrei verið meira. Á móti hafa vaxtatekjur af gjaldeyrisforða Seðlabankans aukist með hækkandi vaxtastigi erlendis en slíkar tekjur námu ríflega 7 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Hreinar tekjur af verðbréfaeign námu tæplega 4 ma.kr. á tímabilinu en þar munar ekki síst um miklar erlendar eignir lífeyrissjóðanna sem að langstærstum hluta eru beint eða óbeint í erlendum hlutabréfum. Þá voru hrein fjármagnsgjöld vegna þess sem telst sem „önnur fjárfesting“ í bókum Seðlabankans ríflega 7 ma.kr. á sama tíma.
Stóra sveiflan í þáttatekjujöfnuðinum undanfarið eru hins vegar fjármagnstekjur og -gjöld tengd beinni fjárfestingu milli landa. Þar vegur afkoma álveranna þriggja þungt, en þau eru öll í erlendri eigu eins og kunnugt er. Líkt og við höfum áður fjallað um er býsna sterk fylgni milli þróunar álverðs og útkomu þáttatekjujafnaðarins eins og sjá má af myndinni hér að ofan. Álverð hefur farið hækkandi undanfarin misseri og sér þess stað í versnandi jöfnuði þáttatekna. Á móti hafa vitaskuld útflutningstekjur af áli aukist. Á endanum eru því mun minni sveiflur í innlendum virðisauka af álvinnslu hérlendis, en hann samanstendur í stórum dráttum af raforkukaupum, launagreiðslum, kaupum á vöru og þjónustu og opinberum gjöldum til innlendra aðila.
Dregið hefur úr tengingu raforkuverðs við álverð og trúlega eru launagreiðslur og þjónustukaup tregbreytileg til skemmri tíma. Samkvæmt vef Samáls voru innlend útgjöld álveranna 160 ma.kr. árið 2023 og má ætla að sú tala hafi reynst eitthvað hærri í fyrra í ljósi áhrifa hækkandi álverðs á raforkukaup og opinber gjöld.
Umtalsverður viðskiptahalli í fyrra en bati í kortunum
Alls var viðskiptahalli í fyrra tæplega 117 ma.kr. og hefur hann ekki mælst meiri frá hrunárinu 2008. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF) var hallinn 2,5% en við í þjóðhagspá okkar sem birt var í janúarlok gerðum við ráð fyrir að hallinn á síðasta ári myndi mælast 1,5% af VLF. Eins og sést af myndinni var hallinn þó almennt mun meiri á útrásarárunum 2004-2008. Sé leiðrétt fyrir þróun landsframleiðslu á tímabilinu er munurinn enn meiri enda fór hlutfall viðskiptahallans af landsframleiðslu mest í 23% árið 2006.
Breytingin til batnaðar í viðskiptajöfnuðinum undanfarinn einn og hálfan áratug felst fyrst og fremst í tvennu:
- Í fyrsta lagi hefur tilkoma ferðaþjónustunnar sem stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins ásamt vaxandi þjónustuútflutningi fyrirtækja í hugverkaiðnaði orðið til þess að afgangur af þjónustujöfnuði, sem í stórum dráttum var ekki til staðar fyrir hrun, hefur vegið gegn og raunar oft á tíðum vegið þyngra en vöruskiptahallinn sem er landlægur í íslensku hagkerfi. Þar þarf þó auðvitað að hafa í huga að ferðaþjónustan notast við talsverð innflutt vöruaðföng til þess að skapa þjónustutekjurnar og aukinn vöruskiptahalli tengist því vexti hennar að einhverjum hluta.
- Í öðru lagi hefur jöfnuður frumþáttatekna breyst frá því að vera verulega neikvæð stærð í hinu skuldsetta íslenska þjóðarbúi á fyrstu árum aldarinnar yfir í að skila oftar en ekki hreinum tekjum undanfarin ár. Þar er ein helsta ástæðan mikil breyting til batnaðar í erlendri stöðu þjóðarbúsins frá því sem áður var.
Það vekur athygli okkar hversu vel krónan hefur haldið sjó undanfarna fjórðunga þrátt fyrir talsverðan halla á utanríkisviðskiptum. Undirstrikar það þá skoðun okkar að á meðan viðskiptahallinn er þó ekki meiri en raunin hefur verið vega aðrir þættir gjarnan þyngra á metunum í gjaldeyrisflæði til og frá landinu til skemmri tíma litið.
Við eigum von á því að betra jafnvægi komist á utanríkisviðskiptin á komandi misserum. Spá okkar frá janúar hljóðar upp á að viðskiptahalli nemi 0,3% af VLF á þessu ári og að á því næsta verði viðskiptajöfnuðurinn nærri núllinu. Árið fer raunar nokkuð brokkgengt af stað hvað þetta varðar en í nýbirtum tölum Hagstofu kemur fram að vöruskiptahalli í febrúarmánuði var tæpir 58 ma.kr. og hefur hallinn ekki mælst meiri í einum mánuði í háa herrans tíð. Þó ber að halda því til haga að þessi mikli halli kemur í kjölfarið á afar hóflegum 5,6 ma.kr. halla í janúarmánuði sem og að mánaðartölur um vöruskipti sveiflast oft mikið milli einstakra mánaða.
Á heildina litið teljum við hins vegar að hraðari vöxtur útflutnings en innflutnings muni stuðla að bættum viðskiptajöfnuði í ár í samanburði við síðasta ár. Verði hallinn hins vegar þrálátari gæti hann jafnt og þétt farið að mynda þrýsting til veikingar á gengi krónu þótt hún hafi staðið af sér hallann hingað til.