Afgangur af þjónustujöfnuði á lokafjórðungi síðasta árs var 34,5 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar. Var það svipuð niðurstaða og ári fyrr þegar afgangurinn nam 34,1 ma.kr. Verðmæti útfluttrar þjónustu nam 213 ma.kr. á tímabilinu en á móti nam kostnaður við innflutta þjónustu 178 ma.kr.
Minni þjónustuafgangur og meiri vöruskiptahalli í fyrra
Afgangur af þjónustujöfnuði á lokafjórðungi síðasta árs var áþekkur og á sama tíma árið 2023. Tekjur ferðaþjónustunnar jukust talsvert milli ára eftir samdrátt næstu tvo fjórðunga á undan. Samsetning útflutningstekna hefur tekið verulegum stakkaskiptum undanfarna áratugi og hefur hlutur ferðaþjónustu og hugverkaiðnaðar aukist jafnt og þétt. Allnokkur halli var á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd í fyrra en horfur eru á betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum á komandi misserum.
Líkt og fyrri daginn skýrist afgangurinn fyrst og fremst af mun meiri þjónustutekjum af ferðalögum, samgöngum og flutningum en sem nam samsvarandi útgjöldum. Aðrir liðir stóðu ýmist í járnum eða skiluðu nokkrum halla. Drjúgur afgangur af fyrrnefndu liðunum endurspeglar að sjálfsögðu að mestu leyti umsvif ferðaþjónustunnar hér á landi. Greinin átti hina þokkalegustu vetrarbyrjun og fjölgaði erlendum brottfararfarþegum um Keflavíkurflugvöll til að mynda um ríflega 6% á milli ára á lokafjórðungi síðasta árs.
Alls voru þjónustutekjur tengdar ferðalögum og farþegaflugi 124 ma.kr. á 4. ársfjórðungi 2024 og jukust þær í krónum talið um tæp 9% milli ára. Var það ánægjulegur viðsnúningur eftir tæplega prósents samdrátt fjórðunginn á undan og ríflega 7% samdrátt á 2. fjórðungi. Á móti sótti ferðagleði landans einnig í sig veðrið og útgjöld í þessum sömu flokkum jukust um ríflega 8%, en þau námu alls 64 ma.kr. á tímabilinu. Hreinar þjónustutekjur vegna ferðalaga landa á milli voru því 60 ma.kr. á lokafjórðungi ársins samanborið við 55 ma.kr. ári fyrr.
Samsetning útflutnings tekur stakkaskiptum
Þróun útflutningstekna skiptir miklu máli fyrir velsæld í okkar litla, opna hagkerfi og góðu heilli hafa þær vaxið myndarlega síðustu áratugi. Samhliða hefur samsetning teknanna breyst mikið frá aldamótum, þegar útflutningstölur í sjávarútvegi og stóriðju réðu lögum og lofum um heildarútkomuna.
Á undanförnum aldarfjórðungi hafa í stórum dráttum orðið tvær grundvallarbreytingar á samsetningu útflutnings:
Annars vegar hefur hlutur þjónustutekna aukist frá því að vera rétt um þriðjungur heildartekna árið 1999 í rétt um helming á síðasta ári. Þar vegur auðvitað þyngst tilkoma ferðaþjónustunnar sem lykilgreinar í öflun útflutningstekna. Þjónustutekjur greinarinnar fjórfölduðust til að mynda á tímabilinu 2009-2024 í krónum talið og hlutfall þeirra af heildar útflutningstekjum fór á sama tíma úr tæplega 20% upp í 32%. Í fyrra námu tekjur af erlendum ferðamönnum hérlendis og erlendis þannig 621 ma.kr., eða sem nemur tvöföldum tekjum af útflutningi áls og 80% hærri upphæð en heildartekjur af útflutningi sjávarafurða.
Hin breytingin snýr að vaxandi hlut hugverkaiðnaðar í því að afla þjóðarbúinu útflutningstekna. Hugverkaiðnaður er eins konar regnhlífarhugtak yfir þær atvinnugreinar þar sem „Fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun (R&Þ) er undirstaða ... og mannauður helsta auðlind greinarinnar.“ svo vitnað sé í skilgreiningu Samtaka iðnaðarins.
Þessum geira hefur vaxið verulegur fiskur um hrygg undanfarin ár. Samkvæmt gögnum Hagstofu námu útflutningstekjur geirans 309 ma.kr. á síðasta ári og jukust um 15% milli ára. Er hann þar með kominn upp að hlið sjávarútvegs og áliðnaðar í þeim skilningi að hlutfall hans af heildar útflutningstekjum var í kring um 16% samanborið við 18% í tilfelli sjávarafurða en 16% hvað áliðnað varðar. Því til viðbótar má benda á að hluti innlends virðisauka í heildar útflutningstekjum tengdum hugverkaiðnaðier trúlega verulega hærra en í tilfelli álgeirans og nokkru hærra en í sjávarútvegi. Loks má nefna að vaxtarmöguleikar í hugverkaiðnaði eru í raun óþrjótandi þar sem honum eru ekki skorður settar af framboði á grundvallaraðföngum (raforka í tilfelli áliðnaðar, úthlutað aflamark í sjávarútvegi) eða þanþols innviða og íslenskrar náttúru eins og raunin er í ferðaþjónustu.
Við höfum áður fjallað um horfur fyrir útflutning á komandi misserum þar sem við eigum von á að hugverkaiðnaður verði, ásamt fiskeldi, einn helsti vaxtarbroddur í útflutningi þjóðarbúsins á sama tíma og útlit er fyrir fremur hægan vöxt í hefðbundnum lykilgreinum útflutnings. Hinar nýbirtu tölur virðast ríma ágætlega við þá sýn.
Talsverður halli á viðskiptum með vörur og þjónustu í fyrra
Nú liggja fyrir bráðabirgðatölur um tvo meginþætti viðskiptajafnaðar á síðasta ári. Afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd var 262 ma.kr. í fyrra og skrapp saman um 33 ma.kr. milli ára. Öðru máli gilti um vöruskipti við útlönd. Þar jókst hallinn um 26 ma.kr. milli ára og nam alls 314 ma.kr. Alls var því halli á vöru- og þjónustuviðskiptum 53 ma.kr. í fyrra sem er töluverður viðsnúningur til hins verra eftir tæplega 7 ma.kr. afgang ári fyrr.
Síðar í vikunni birtir Seðlabankinn heildartölur yfir greiðslujöfnuð við útlönd þar sem við bætast bráðabirgðatölur fyrir jöfnuð frumþáttatekna og rekstrarframlög milli landa. Trúlega verða þær ekki langt frá þeim 1,5% halla í hlutfalli við VLF sem við áætluðum í þjóðhagsspá okkar í janúarlok. Í kjölfarið eru að okkar mati horfur á að vöru- og þjónustujöfnuður, og þar með viðskiptajöfnuður, nái jafnt og þétt betra jafnvægi á komandi misserum.